Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 11. febrúar 2025 og hófst hann kl. 14:00
Nefndarmenn
- Maggý Hjördís Keransdóttir (MHK) varamaður
- Jenný Lára Magnadóttir (JLM) varaformaður
- Páll Vilhjálmsson (PV) formaður
Starfsmenn
- Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði
- Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri
Almenn erindi
1. Heimastjórn Tálknafjarðar
Heimastjórn Tálknafjarðar kemur inná fund bæjarráðs þar sem farið verður yfir helstu verkefni sem hafa verið á höndum heimastjórnar og þau verkefni sem framundan eru.
Þór Magnússon, Jónas Snæbjörnsson og Gunnþórunn Bender sátu fundinn undir liðnum.
Starf heimastjórnar Tálknafjarðar hefur farið vel af stað. Rætt var um helstu verkefni, bæði það sem gengið hefur vel og það sem betur má fara.
Fyrirhugaðir eru íbúafundir á árinu með heimastjórnum þar sem íbúum gefst tækifæri á að koma hugmyndum á framfæri.
Bæjarráð þakkar heimastjórn Tálknafjarðar fyrir komuna á fundinn og yfirferðina.
2. Byggðamerki sameinaðs sveitarfélags
Farið yfir næstu skref við ákvörðun um byggðamerki nýs sveitarfélags. Minnisblað menningar og ferðamálafulltrúa um kostnað lagt fyrir.
Valgerður María Þorsteinsdóttir, menningar- og ferðamálafulltrúi Vesturbyggðar sat fundinn undir liðunum.
Rætt um mögulegar leiðir sem hægt er að fara við val á byggðamerki fyrir sameinað sveitarfélag. Ákvörðun vísað til bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
3. Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu
Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu mætti til fundarins og fór yfir helstu verkefni sem unnin eru í samstarfi sveitarfélaga á Vestfjörðum í gegnum Vestfjarðastofu.
Bæjarráð þakkar yfirferðina.
4. Krossholt, iðnaðarhúsnæði - Beiðni um forkaupsrétt í lóðarleigusamningi
Lögð fyrir beiðni um endurskoðun Vesturbyggðar á nýtingu forkaupsréttar Vesturbyggðar á hlut í Iðnaðarhúsi, Krossholti, nr. F2123118.
Elfar Steinn Karlsson, byggingafulltrúi sat fundinn undir liðnum.
Beiðni um nýtingu forkaupsréttar hafði áður verið tekið fyrir og afgreidd á 977. fundi bæjarráðs sem haldinn var 6. febrúar 2024 þar sem nýtingu forkaupsréttar var hafnað.
Að höfðu samráði við lögræðing sveitarfélagsins staðfestir bæjarráð afgreiðslu fyrrum bæjarráðs Vesturbyggðar og hafnar nýtingu forkaupsréttarins.
Bæjarráð vísar afgreiðslunni áfram til staðfestingar bæjarstjórnar.
5. Styrkumsóknir til menningar- og ferðamála 2025
Lagðar verða fyrir styrkbeiðnir sem bárust í fyrstu úthlutun ársins 2025. Alls bárust 6 umsóknir.
Valgerður María Þorsteinsdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi Vesturbyggðar sat fundinn undir liðnum.
Lagðar voru fyrir styrkbeiðnir sem bárust ráðinu við fyrstu úthlutun ársins 2025. Alls bárust sex umsóknir.
1. Tómas Guðbjartsson sækir um 150 þúsund króna styrk vegna útgáfu bókar um Gamla bæinn í Fremri-Hvestu - nú í Andahvilft. Verkefnið hefur áður verið styrkt um 150 þúsund krónur.
Bæjarráð hafnar styrkbeiðninni.
2. Blue Island Entertainment sækir um 150 þúsund króna styrk til að halda KK tónleika á Patreksfirði.
Bæjarráð hafnar styrkbeiðninni.
3. Oddur Bjarni Bergvinsson sækir um 150 þúsund króna styrk til að halda hátíðina Hamborgaradaginn mikla á Patreksfirði.
Bæjarráð hafnar styrkbeiðninni.
4. Oddur Bjarni Bergvinsson sækir um 129 þúsund króna styrk til að halda barnaball og unglingaball á Patreksfirði.
Bæjarráð hafnar styrkbeiðninni.
5. Sverrir Fannberg sækir um 175 þúsund króna styrk fyrir stofnun útvarpsstöðvarinnar Útvarp Vesturbyggð.
Bæjarráð frestar afgreiðslu umsóknarinnar og felur menningar- og ferðamálafulltrúa að óska eftir gögnum um nýtingu síðasta styrks í samræmi við úthlutunarreglur.
6. Birta Ósmann Þórhallsdóttir sækir um 150 þúsund króna styrk til að hanna og prenta bingóspjöld með gripum sem tengjast sögu á sunnanverðum Vestfjörðum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Camille Jeanne Salmon.
Bæjarráð samþykkir styrkbeiðnina.
Menningar- og ferðamálafulltrúa falið að svara umsækjendum.
6. Gjaldskrár og skráningardagar í leikskólum og frístund
Tekin fyrir að nýju dagskrárliður sem tekin var fyrir á 17. fundi bæjarráðs. Fjölskylduráð leggur til við bæjarstjórn að teknir verði upp skráningadagar í frístund á föstudögum með sama hætti og samþykkt hefur verið að gera í leikskólum Vesturbyggðar.
Lagt er til að grunngjaldið verði lækkað og sérstaklega verði greitt fyrir plássið milli klukkan 14:00 - 16:00 á föstudögum.
Magnús Arnar Sveinbjörnsson, sviðsstjóri fjölskyldusvið sat fundinn undir liðnum.
Bæjarráð samþykkir að teknir verði upp sérstakir skráningardagar eftir klukkan tvö á föstudögum þannig að sérstök skráning verði milli klukkan 14:00 og 16:00.
Breytingin tekur gildi við upphaf skólaárs 2025 - 2026.
Samhliða því verði gerðar breytingar á gjaldskrá fyrir frístund sem miðar að því að lækka grunngjaldið en taka upp sérstaka skráningu milli klukkan 14:00 og 16:00 á föstudögum í samræmi við þær reglur sem gilda um skráningardaga í leikskólum Vesturbyggðar.
Breytingar á gjaldskrá verði lagðar fyrir til samþykktar í bæjarstjórn áður en breytingin tekur gildi.
7. Úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga 20242025 - Vesturbyggð
Lagt fram bréf matvælaráðuneytisins dags. 22. janúar 2025 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025.
Jenný Lára Magnadóttir vék af fundi.
Elfar Steinn Karlsson, hafnarstjóri sat fundinn undir liðnum.
Formaður leggur til að sérreglur varðandi úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í Vesturbyggð verði óbreyttar frá síðasta fiskveiðiári á fiskveiðiárinu 2024/2025 með þeirri undantekningu að allur afli sem telja á til byggðakvóta skal fara til vinnslu innan sveitarfélagsins.
Þá verði fiskiskipum á Bíldudal, Brjánslæk og Patreksfirði skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2024 til 31. ágúst 2025 en fiskiskipum á Tálknafirði skylt að landa innan byggðalagsins.
Bæjarráð vísar sérreglum áfram til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Jenný Lára Magnadóttir kom aftur inná fundinn.
8. Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði
Bæjaráð Vesturbyggðar tekur undir bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar af 1313. fundi ráðsins sem haldinn var 10. febrúar sl. en þar segir.
"Miklar vegabætur hafa orðið á sunnanverðum Vestfjörðum og yfir Dynjandisheiði á síðustu árum. Er nú svo komið að vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu til allra þéttbýlisstaða innan Ísafjarðarbæjar, sérstaklega Þingeyrar og Flateyrar, er talsvert styttri þá leiðina heldur en um Djúp. Ekki er vetrarþjónusta á nýjum vegi yfir Dynjandisheiði eftir klukkan 5 á virkum dögum eða um helgar. Þá hefur borið á því að heiðinni sé lokað fljótt þegar veður breytast. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar beinir því til samgönguyfirvalda að gera bragarbót á þessu svo fjárfestingin nýtist betur."
Bæjarráð Vestubyggðar tekur undir bókunina og bætir því við að leiðin um Dynjandisheiði er mikilvæg fyrir íbúa og fyrirtæki í Vesturbyggð og brýnt að bætt sé úr þjónustu á veginum þannig að nýr vegur um Dynjandisheiði nýtist sem skyldi.
Bæjaráð Vesturbyggðar hvetur stjórnvöld til þess að taka til endurskoðunar reglur um vetrarþjónustu á vegum en margt hefur breyst á Vestfjörðum á síðustu árum en þjónustan ekki í takt við það. Gríðarlega mikilvægt er að vetrarþjónusta verði bætt til muna þannig að hún verði í takt við það sem gerist í öðrum landshlutum.
Til kynningar
9. Bíldudalur smábátaaðstaða
Lagt fram til kynningar minnisblað og teikning Vegagerðarinnar dags. 18.nóvember 2024. Í minnisblaðinu er farið yfir forhönnun og kostnaðarmat fyrir nýja smábátahöfn á Bíldudal innan við hafnargarð. Eitt af verkefnum 2024 var að kanna möguleika á að koma upp nýrri smábátaaðstoðu á Bíldudal. Ekki er búið að tryggja fjármagn til verkefnisins.
Elfar Steinn Karlsson hafnarstjóri sat fundinn undir liðnum.
10. Bíldudalsskóli og Tjarnarbrekka Hönnun og undirbúningur
11. Fundargerðir Svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða 2025
12. Fundargerðir 2025 Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum
Lögð fram til kynningar fundargerð nr. 78 frá stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum.
13. Fundargerðir 2025 Hafnasambands Íslands
14. Fundargerðir 2024 Hafnasambands Ísland
Til kynningar fundargerð 468. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 6. desember 2024.
15. Fundargerðir 2024 stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
16. Fundargerðir 2025 stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Lagðar fyrir til kynningar fundargerðir 961. og 962. funda Sambands íslenskrar sveitarfélaga.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:30