Fundur haldinn í ráðhúsi Vesturbyggðar, 18. september 2024 og hófst hann kl. 16:15
Nefndarmenn
- Freyja Ragnarsdóttir Pedersen (FRP) varamaður
- Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) varamaður
- Jenný Lára Magnadóttir (JLM) aðalmaður
- Petrína Sigrún Helgadóttir (PSH) varamaður
- Maggý Hjördís Keransdóttir (MHK) aðalmaður
- Páll Vilhjálmsson (PV) aðalmaður
- Tryggvi Baldur Bjarnason (TBB) aðalmaður
Starfsmenn
- Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir (NLS) sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði
- Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Hljóðupptaka
Almenn erindi
1. Samþykkt um stjórn Vesturbyggðar
Tekið fyrir í seinni umræðu, breytingar á samþykktum um stjórn Sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar þar sem Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar verður skipt út fyrir Vesturbyggð.
Jafnframt verður orðið öldungaráð sett inn í stað orðsins öldrunarráð þar sem það kemur fyrir í samþykktunum.
Til máls tók: Varaforseti
Samþykkt samhljóma
2. Fjárhagsáætlun 2024 - viðaukar
Lagðir fyrir viðaukar 1, 2 og 3 við sameiginlega fjárhagsáætlun Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.
Viðauki 1 er lagður fyrir vegna styrkja sem fengust úr fiskeldissjóði fyrir byggingu leik og grunnskóla á Bíldudal, skólalóðar á Patreksfirði, varmadælu í Bröttuhlíð og rannsóknarrýmis við verbúð á Patreksfirði. Í tilfellum skólalóðar á Patreksfirði og grunn og leikskólabyggingar á Bíldudal kemur styrkurinn til lækkunar á heildarfjárfestingu þar sem gert var ráð fyrir fullri fjármögnun í fjárhagsáætlun en í tilfellum Varmadælu í Bröttuhlíð og fjármuna sem fengust í rannsóknarrýmið er fjárfesting hækkuð á móti þar sem ekki var gert ráð fyrir fullri fjármögnun í áætlun. Viðauki 1 hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðuna en handbært fé í A hluta og í A og B hluta hækkar um 68.972 þ.kr. og verður 196.391 þ.kr.
Viðauki 2 er lagður fyrir vegna vanáætlunar í fjárhagsáætlun 2024 fyrir gatnagerð við Brunna á Patreksfirði, viðaukanum er mætt með lækkun á handbæru fé um sem nemur 53.094 þ.kr. Viðauki 2 hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu en handbært fé í A hluta og í A og B hluta lækkar um 53.094 þ.kr. og verður 143.297 þ.kr.
Viðauki 3 er lagður fyrir vegna uppsetningar á strengjum og endurnýjun á rafmagnstöflum við smábátahafnir við Patrekshöfn. Viðaukanum er mætt með lækkun á handbæru fé um sem nemur 5.000 þ.kr
Viðaukinn hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu en handbært fé í A og B hluta lækkar um 5.000 þ.kr og verður 138.297 þ.kr.
Til máls tók: Varaforseti
Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir viðaukana samhljóða
3. Dalbraut 39. Breyting á aðalskipulagi.
Tekin fyrir tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035. Meðfylgjandi er breytingaruppdráttur og gátlisti um óverulega breytingu. Breyting er gerð á þéttbýlisuppdrætti Bíldudals þar sem lóð Dalbrautar 39 er breytt úr íbúðarbyggð í svæði fyrir verslun og þjónustu. Breytingin var grenndarkynnt fyrir nærliggjandi lóðarhöfum með athugasemdafrest til 20. ágúst 2024, gerðar voru athugasemdir varðandi fjölda bílastæða fyrir gistiheimilið.
Skipulags- og framkvæmdaráð lagði til við bæjarstjórn á 3. fundi sínum að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2019-2035 til samræmis við erindið. Fyrir útgáfu rekstrarleyfis fyrir gistingu þarf fjöldi bílastæða að vera í samræmi við gistiherbergi hússins, þ.e. bílastæði pr útleigueiningu.
Að mati skipulags- og framkvæmdaráðs er um óverulega breytingu að ræða í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem breytingin hefur hvorki í för með sér breytingar á landnotkun né er hún líkleg til að hafa áhrif á einstaka aðila eða stór svæði.
Til máls tók: Varaforseti
Bæjarstjórn samþykkir að farið verði í breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar í samræmi við bókun skipulags- og framkvæmdaráðs þar sem gerð verði breyting á aðalskipulaginu þar sem skilgreiningu verði breytt í verslunar- og þjónustusvæði fyrir lóðina að Dalbraut 39.
4. Vegaframkvæmdir
Á 8. fundi bæjarráðs var eftirfarandi bókað varðandi vegamál á svæðinu: "Um leið og bæjarráð Vesturbyggðar fagnar þeim samgöngubótum sem orðið hafa á svæðinu undanfarin ár þá er mikið verk enn óunnið og staða í vegamálum í miklu ólagi.
Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.
Bæjarráð lýsir jafnframt yfir áhyggjum af mögulegum drætti á útboði lokaáfanga á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir til fjölda ára og mikið áhyggjuefni ef frekari tafir verða á.
Mikilvægt er að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum um Bíldudalsveg 63 niður Trostansfjörð þar sem sú framkvæmd er gríðarlega mikilvægur hlekkur í vegasamgöngum svæðisins.
Bæjarráð skorar á stjórnvöld að taka samgönguáætlun til afgreiðslu á fyrstu dögum haustþings þar sem ólíðandi er að ekki sé til staðar gildandi framkvæmdaáætlun í samgöngumálum.
Bæjarstjóra falið að kalla eftir svörum um stöðu mála."
Bæjarstjórn tekur heilshugar undir bókun bæjarráð og lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu vegaframkvæmda á svæðinu. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að óska eftir fundi við Innviðaráðherra og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Til máls tók: Varaforseti
Samþykkt samhljóða
5. Suðurfjarðagöng, jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán
Á 8. fundi bæjarráðs voru teknar fyrir bókanir heimastjórna Patreksfjarðar og Tálknafjarðar varðandi nauðsyn þess að flýta undirbúningi jarðgangnaframkvæmda í jarðgangnaáætlun samgönguáætlunar, heimastjórn Arnarfjarðar tók undir bókunina á fundi sínum 11. september, bókunin var eftirfarandi:
"Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar því að aukin áhersla sé lögð á að flýta undirbúningi jarðgangaframkvæmda í jarðgangaáætlun samgönguáætlunar, til að tryggja öryggi vegfarenda, m.a. með vísan til umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2. september sl. um að flýta jarðgangaframkvæmdum á norðanverðu landinu.
Heimastjórn Patreksfjarðar telur afar brýnt að flýtt verði undirbúningi og framkvæmd nauðsynlegra rannsókna vegna jarðgangaframkvæmda undir Mikladal og Hálfdán, Suðurfjarðagöng, á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Suðurfjarðagöng eru skv. jarðgangaáætlun Vestfjarða frá 2021 og ályktunar 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga í október 2023 næstu jarðgöng sem ráðast skal í á Vestfjörðum ásamt Álftafjarðargöngum, en engum jarðgöngum er til að dreifa á sunnanverðum Vestfjörðum og ekki aðrar samgönguleiðir í boði fyrir íbúa en aka yfir fjallvegi allt árið um kring, til að sækja þjónustu og vinnu.
Heimastjórn Patreksfjarðar bendir á þá áherslu sem lögð var á Suðurfjarðagöng í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna í vor og nauðsyn þess að tryggja að samgöngur innan sveitarfélagsins Vesturbyggðar séu öruggar. Brýnt er að tryggja öruggar samgöngur milli byggðakjarnanna til að íbúar og fyrirtæki geti notað grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu án áhættu árið um kring. Má í því sambandi benda á sjúkraflug á flugvöllinn á Bíldudal en þangað er yfir tvo erfiða fjallavegi að fara.
Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur því bæjarstjórn Vesturbyggðar til að þrýsta á að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun, til að tryggja öryggi íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, bæta aðgengi að grunnþjónustu og tryggja atvinnusókn innan sunnanverðra Vestfjarða
Bæjarráð tekur heilsuhugar undir bókanir heimastjórnanna og mun beita sér fyrir því að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun."
Bæjarstjórn tekur undir bókanir heimastjórna og bæjarráðs og ítrekar mikilvægi þess að tengja saman þéttbýli í nýsameinuðu sveitarfélagi.
Til máls tók: Varaforseti
6. Earth Check umhverfis- og gæðastjórnunarkerfi
Lagður fram tölvupóstur Hjörleifs Finnssonar, verkefnastjóra umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu, dagsettur 27. júní 2024, vegna þátttöku sveitarfélagsins í Earth Check. Framkvæmdaráð Earth Check ályktaði á fundi sínum 24. apríl sl. að best færi á að hætta í verkefninu og leita annarra lausna til umhverfisstjórnunar. Áður nefnd fundargerð jafnframt lögð fram til kynningar.
Stjórn Fjórðungssambandsins tók málið fyrir og vísaði samþykkt framkvæmdaráðs EC (um að hætta þátttöku í EC) til hvers og eins sveitarfélags til ákvarðanatöku.
Bæjarstjórn samþykkir að hætta í verkefninu Earth Check þar sem þátttaka hefur ekki skilað þeim árangri sem lagt var upp með. í stað umhverfisstarfs Earthcheck mun áherslan vera á gerð og innleiðingu loftlags- orkuskiptaáætlana sem og umhverfisstjórnun.
Til máls tók: Varaforseti
Samþykkt samhljóma
Fundargerðir til kynningar
7. Bæjarráð - 7
Lögð fram til kynningar fundargerð 7. fundar bæjarráðs, fundurinn var haldinn 27. ágúst 2024. Fundargerðin er í 5 liðum.
Til mál tók: Varaforseti
8. Bæjarráð - 8
Lögð fram til kynningar fundargerð 8. fundar bæjarráðs, fundurinn var haldinn 10. september 2024. Fundargerðin er í 12 liðum.
Til máls tók: Varaforseti
9. Fjölskylduráð - 2
Lögð fram til kynningar fundargerð 2. fundar Fjölskylduráðs, fundurinn var haldinn 26. ágúst 2024. Fundargerðin er í 10 liðum.
Til máls tók: Varaforseti.
10. Fjölskylduráð - 3
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar fjölskylduráðs, fundurinn var haldinn 9. september 2024. Fundargerðin er í 9 liðum.
Til máls tóku: Varaforseti og ÞSÓ
11. Umhverfis- og loftslagsráð - 3
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar umhverfis- og loftlagsráðs, fundurinn var haldinn 26. ágúst 2024. Fundargerðin er í 5 liðum.
Til máls tók: Varaforseti
12. Skipulags- og framkvæmdaráð - 3
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs, fundurinn var haldinn 28. ágúst 2024. Fundargerðin er í 7 liðum.
Til máls tók: Varaforseti
13. Heimastjórn Patreksfjarðar - 3
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar heimastjórnar Patreksfjarðar, fundurinn var haldinn 4. september 2024. Fundargerðin er í 11 liðum.
Til máls tók: Varaforseti
14. Heimastjórn Tálknafjarðar - 3
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar heimastjórnar Tálknafjarðar, fundurinn var haldinn 5. september 2024. Fundargerðin er í 5 liðum.
Til máls tók: Varaforseti
15. Heimastjórn Arnarfjarðar - 3
Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fundar heimastjórnar Arnarfjarðar, fundurinn var haldinn 11. september 2024. Fundargerðin er í 9 liðum.
Til máls tóku: Varaforseti, FRP og PV
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:36
Bæjarstjórn Vesturbyggðar kom saman til 4. fundar
miðvikudaginn 18. september 2024 kl. 16:15 í Ráðhúsi Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, Patreksfirði.
Tryggvi B. Bjarnason varaforseti setti fundinn og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Svo var ekki.