Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 3. mars 2025 og hófst hann kl. 13:00
Fundargerð ritaði
- Magnús Arnar Sveinbjörnsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Almenn erindi
1. Niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytis vegna kvörtunar
Niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytis vegna kvartana um skólamál í Tálknafjarðarskóla. Formaður fjölskylduráðs kynnti niðurstöðu mennta- og barnamálaráðuneytis vegna vegna kvartana um kennslu- og stjórnunarhætti í Tálknafjarðarskóla frá því í febrúar 2024.
Foreldrar í Tálknafjarðarskóla höfðu áhyggjur af því að börn þar fengju hvorki nám við hæfi né samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og sendu erinfi þess efnis til mennta- og barnamálaráðuneytis. Eftir öflun og greiningu gagna barst Vesturbyggð niðurstaða ráðuneytisins 5. desember 2024. Niðurstaðan er sú að skólinn uppfylli viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár grunnskóla og að ráðuneytið telji ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu.
Fjölskylduráð fagnar niðurstöðu mennta- og barnamálaráðuneytisins í þessu máli og vonar að með henni skapist sátt um skólastarf í Tálknafirði.
Til kynningar
2. Endurbætur í félagsmiðstöðvum
Farið yfir stöðu endurbóta í félagsmiðstöðvum Vesturbyggðar. Geir Gestsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs gerði grein fyrir stöðu framkvæmda í félagsmiðstöðinni Dímon á Bíldudal.
Unnið hefur verið að málun og heldur sú vinna áfram ásamt m.a. útskiptingu á gólfefnum.
3. Framkvæmdir í skólum Vesturbyggðar 2025
Kynning á stöðu framkvæmda í skólum Vesturbyggðar í ár. Geir Gestsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs tók sæti undir þessum lið og kynnti framkvæmdir í skólum.
Stærsta verkefnið er smíði nýs skóla á Bíldudal en þar verður einnig unnið að hönnun skólalóðar. Unnið er að úttekt á viðhaldsþörf í íþróttamiðstöð Tálknafjarðar og í Tálknafjarðarskóla auk þess sem breytingar verða gerðar á lóð skólans í sumar. Áfram verður unnið að endurbótum á lóð Patreksskóla auk viðhalds innanhúss í skólanum. BókasafnPatreksfjarðar verður fært úr núverandi húsnæði í Skor.
Í öllu húsnæði skólanna verður unnið að því að uppfylla brunavarnir í samræmi við úttekt brunaeftirlits á síðasta ári. Jafnframt er áfram unnið að því í ár að tryggja að leiktæki á skólalóðum uppfylli öryggiskröfur.
4. Skóladagatal 2025-2026
Kynning á samræmdu skóladagatali grunn- og leikskóla Vesturbyggðar fyrir skólaárið 2025-2026.
Jónína H. Sigurðardóttir skólastjóri Patreksskóla kynnti skóladagatal grunnskóla Vesturbyggðar. Skóladagatalið er samræmt í skólunum þremur og eru því sömu starfs- og frídagar í þeim.
Bergdís Þrastardóttir leikskólastjóri Arakletts kynnti skóladagatal leikskólanna sem einnig er samræmt.
Skóladagatölin hafa verið kynnt foreldraráðum skólanna.
Fjölskylduráð samþykkir skóladagatöl grunnskóla og leikskóla fyrir skólaárið 2025-2026.
5. Staða umbótaáætlana skóla Vesturbyggðar
Kynning á stöðu umbóta í samræmi við umbótaáætlun skóla Vesturbyggðar.
Jónína H. Sigurðardóttir skólastjóri Patreksskóla kynnti stöðu umbóta í Patreksskóla og Bíldudalsskóla og Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson kynnti stöðuna í Tálknafjarðarskóla. Bergdís Þrastardóttir skólastjóri Arakletts kynnti stöðuna þar. Farið var meðal annars yfir innra mat skólanna og starfsáætlanir, gæðaviðmið grunnskóla og foreldrakannanir. Rætt var um ytra mat en nokkuð er síðan það fékkst síðast. Staða umbóta í skólum er samkvæmt áætlun.
Fundargerðir til kynningar
6. Foreldrafundur á Birkimel - kynning á niðurstöðum
Kynning á umræðum og helstu niðurstöðum fundar Vesturbyggðar og foreldra barna á Barðaströnd 24. febrúar síðastliðinn. Þórkatla S. Ólafsdóttir formaður fjölskylduráðs kynnti niðurstöðurnar.
Foreldrafundinn sátu bæjarstjóri, formaður fjölskylduráðs, sviðsstjóri fjölskyldusviðs ásamt skólastjórum Patreksskóla og Arakletts.
Rætt var um viðbrögð við því þegar skólaakstur fellur niður en til stendur að ráða kennara í Patreksskóla sem sinnt getur fjarkennslu þegar þess þarf.
Koma þarf á fyrirkomulagi varðandi stuðningsfjölskyldur ef svo ber undir að börn komist ekki heim í lok skóladags.
Rætt var um skólaakstursreglur Vesturbyggðar sem þarf að uppfæra og í leiðinni skoða hvaða viðmið er hægt að setja um skólaakstur með tilliti til veðurs og færðar.
Samskipti við Vegagerðina voru rædd og framkvæmdir varðandi umferðaröryggi sem fyrirhugaðar eru ásamt þörfinni á bættu fjarskiptasambandi á leiðinni milli Barðastrandar og Patreksfjarðar.
Loks var rætt um möguleika á því að bjóða upp á þjónustu dagforeldra á Barðaströnd .
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:30