Fundur haldinn í Muggsstofu, Bíldudal, 15. janúar 2025 og hófst hann kl. 16:30
Nefndarmenn
- Jenný Lára Magnadóttir (JLM) aðalmaður
- Rúnar Örn Gíslason (RÖG) formaður
- Valdimar Bernódus Ottósson (VBO) varaformaður
Starfsmenn
- Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) bæjarstjóri
- Lilja Magnúsdóttir (LM) ritari heimastjórna
- Magnús Arnar Sveinbjörnsson () sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Fundargerð ritaði
- Lilja Magnúsdóttir ritari
Almenn erindi
1. Íþróttahúsið á Bíldudal
Málefni íþróttahússins á Bíldudal rædd
Gerður Sveinsdóttir bæjarstjóri og Magnús Arnar Sveinbjörnsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs sátu fundinn undir þessum lið. Rætt um aðstöðu og ástand íþróttahússins og ábendingum komið á framfæri við sviðsstjóra sem vinnur málið áfram í samstarfi við forstöðumann íþróttamannvirkja Vesturbyggðar.
2. Bíldudalsvegur framkvæmdir
Staða framkvæmda við Bíldudalsveg
Heimastjórn Arnarfjarðar skorar á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Eyjólf Ármannsson, að tryggja áframhaldandi vinnu við Bíldudalsveg 63 frá Bíldudalsflugvelli og upp á Dynjandisheiði. Nauðsynlegt er að staðið verði við upphaflegar áætlanir um endurbyggingu vegarins þar sem framkvæmdum á að vera lokið 2029. Brýnt er að verkhönnun verði lokið sem allra fyrst svo unnt sé að hefja framkvæmdir við verkið sem allra fyrst og að tryggt sé að fjármagn verði til staðar fyrir verkefnið.
Bíldudalsvegur styttir leiðina um 44 km sé ekið suður á bóginn en einnig skiptir leiðin miklu máli fyrir umferð til og frá svæðinu. Einnig er hringurinn um sunnanverða Vestfirði mjög mikilvægur fyrir ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn er gamall malarvegur sem annar engan veginn þeim umferðarþunga sem um hann fer og hindrar að þungaflutningar frá Bíldudal geti farið fram með sem hagkvæmustum hætti. Mikill flutningur er frá Bíldudal á laxaafurðum og þarf að fara um þrjá fjallvegi, Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði í stað þess að hægt yrði að fara um hluta Dynjandisheiðar eftir að Bíldudalsvegur verður endurbyggður. Slíkt sparar mikinn akstur og útblástur sem skiptir miklu máli í loftslagsaðgerðum auk annars kostnaðar sem fylgir akstri þungra flutningabíla yfir fjallvegi.
Samþykkt samhljóða.
3. Ofanflóðavarnir á Bíldudal - deiliskipulag
Tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi ofanflóðvarna á Bíldudal. Deiliskipulagssvæðið er um 12,9 ha að stærð og nær yfir fyrirhugað snjóflóðavarnarsvæði ofan byggðar á Bíldudal. Reistur verður 8- 14 m hár og 1000 m langur þvergarður ofan byggðarinnar en neðan Stekkjar-, Klofa-, Merki- og Innstagils. Jafnframt verða reistar þrjár 4,5 m háar keilur neðan Stekkjargils. Erindinu fylgir samþykki landeigenda Litlu Eyrar fyrir deiliskipulaginu.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að betur þurfi að gera grein fyrir mótvægisaðgerðum er snúa að endurheimt staðgróðurs, gera þurfi áætlun um heftun útbreiðslu lúpínu þar sem áætlað er að endurheimta starungsmýrarvist og aðrar náttúrulegar vistgerðir.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkti að öðru leyti tillöguna á 5. fundi sínum þann 27. nóvember og lagði til við heimastjórn Arnarfjarðar að tillagan verði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Heimastjórn Arnarfjarðar bendir á að uppfæra þarf greinargerðina hvað varðar steyptan stoðvegg sem var gert ráð fyrir við Bíldudalsskóla en hefur verið hætt við að byggja vegna breytingar á notkun húsnæðisins. Lagfæra þarf texta í greinargerð í samræmi við breytta notkun og nýtt skólahúsnæði sem byggt verður við hlið íþróttahúss við Hafnarbraut.
Einnig tekur heimastjórn Arnarfjarðar undir athugasemdir skipulags- og framkvæmdaráðs um að gera betur grein fyrir mótvægisaðgerðum sem snúa að endurheimt staðargróðurs og áætlun um að hefta útbreiðslu lúpínu sem kostur er. Einnig leggur heimastjórn áherslu á að umgengni verktaka á framkvæmdatíma verði sem best þar sem framkvæmdirnar eiga sér stað í næsta nágrenni við þéttbýlið.
Að tillögu skipulags og framkvæmdaráðs samþykkir heimastjórn Arnarfjarðar að auglýsa tillöguna í samræmi við 1.mgr.41.gr.skipulagslaga nr.123-2010.
Samþykkt samhljóða.
4. Deiliskipulag skóla-, íþrótta- og þjónustusvæðis á Bíldudal, óveruleg breyting.
Tekin fyrir tillaga að breytingu skólasvæðis á Bíldudal. Breytingin fjallar um að bætt er við kvöð um lagnaleið sunnan við skólabyggingu en um er að ræða fráveitulögn vegna ofanflóðvarna ofan byggðar við Bíldudal.
Skipulags- og framkvæmdaráð lagði til við heimastjórn Arnarfjarðar á 5. fundi sínum þann 27. nóvember að samþykkja grenndarkynningu á viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
Heimaastjórn Arnarfjarðar samþykkir að fyrirliggjandi breyting verði grenndarkynnt. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
Samþykkt samhljóða.
5. Bíldudalsskóli og Tjarnarbrekka Hönnun og undirbúningur
Lagt fyrir erindi frá Vesturbyggð, dags. 10. janúar 2025. Í erindinu er óskað eftir heimild til að afsetja jarðveg sem kemur til með að falla til við efnisskipti undir fyrirhugaðri skólabyggingu á Bíldudal að Hafnarbraut 5. Samtals er áætlað að efnisskipta allt að 4500m3 og er óskað eftir að afsetja efni í gryfju við Völuvöll, við Urðunarstað við Járnhól og neðan við Íþróttamiðstöðina Byltu.
Heimastjórn Arnarfjarðar samþykkir að efni vegna jarðvegsskipta í lóð skólabyggingar verði afsett við Völuvöll, við urðunarstað við Járnhól og neðan við íþróttamiðstöðina Byltu til landmótunar, í samræmi við tillögu umhverfis- og framkvæmdasviðs.
Samþykkt samhljóða.
Til kynningar
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30
Formaður setti fund og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Svo var ekki og formaður lýsti fundinn lögmætan.