Fundur haldinn í ráðhúsi Vesturbyggðar, 5. mars 2025 og hófst hann kl. 13:00
Nefndarmenn
- Gunnar Sean Eggertsson (GSE) varaformaður
- Rebekka Hilmarsdóttir (RH) formaður
- Jenný Lára Magnadóttir (JLM) varamaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) hafnarstjóri
- Geir Gestsson (GG) sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs
- Lilja Magnúsdóttir (LM) ritari heimastjórna
Fundargerð ritaði
- Lilja Magnúsdóttir ritari
Almenn erindi
1. Framkvæmdir í Vesturbyggð 2025
Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs fer yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á árinu 2025
Geir Gestsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum lið og fór yfir þau verkefni sem áætlað er að vinna að í sumar.
2. Umgengni í Fjósadal, Patreksfirði
Umræða um umgengni í Fjósadal og framvindu skipulags svæðisins
Geir Gestsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum lið og fór yfir skipulag svæðisins til framtíðar. Elfar Steinn Karlsson, hafnarstjóri sat einnig fundinn undir þessum lið.
Heimastjórn Patreksfjarðar ítrekar nauðsyn þess að hreinsunarátaki í Fjósadal verði lokið sem fyrst. Einnig er brýnt að gengið verði í tiltekt á hafnarsvæðinu sem allra fyrst.
3. Hafskipakantur á Patreksfirði
Elfar Steinn Karlsson, hafnarstjóri sat fundinn undir þessum lið.
Rætt um framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn.
Heimastjórn Patreksfjarðar telur brýnt að bæjarstjórn Vesturbyggðar tryggi að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn seinki ekki frekar.
Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun árin 2024-2028 var áformað að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn myndu hefjast á árinu 2025 og átti framkvæmdum að vera lokið á árinu 2027. Undirbúningur fyrir framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hafa staðið yfir á síðustu árum, m.a. með öldustraumsrannsóknum sem hafa verið fjármagnaðar með framlögum úr samgönguáætlun.
Stórskipakantur við Patrekshöfn er grundvöllur þess að unnt verði til framtíðar að efla starfsemi hafnarinnar, auka umsvif, bæta þjónustu og styrkja tekjugrundvöll. Einnig er framkvæmd við stórskipakant mikilvægur liður í því að tryggja viðunandi hafnaraðstöðu til að taka á móti þeim fjölmörgu skemmtiferðaskipum sem leggja leið sína á sunnanverða Vestfirði til að bera svæðið og náttúru þess augum. Þá er staðsetning og lega Patrekshafnar þannig að stórskipakantur mun skapa mikilvæg tækifæri til strandflutninga af sunnanverðum Vestfjörðum sem og móttöku stærri fiskiskipa sem stunda veiðar fyrir utan Vestfirði, en erfitt hefur reynst fyrir stærri skip að leggjast að bryggju vegna þrengsla í skurði hafnarinnar. Patrekshöfn er hluti af grunnneti samgangna þar sem umsvif hafnarinnar hafa aukist verulega á síðustu árum og því er mikilvægt að framkvæmdir við stórskipakant njóti algjörs forgangs þegar kemur að hafnarframkvæmdum innan sveitarfélagsins.
Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur bæjarstjórn til að beita sér fyrir því að tryggð verði framlög í hafnarsjóði Vesturbyggðar og í samgönguáætlun komandi ára, svo ljúka megi þeirri löngu vegferð að tryggja uppbyggingu á stórskipakanti við Patrekshöfn. Sú seinkun sem þegar hefur orðið á að framkvæmdir við stórskipakant hefjist hefur í för með sér að mörg og dýrmæt tækifæri til frekari atvinnusköpunar og innviðauppbyggingar í sveitarfélaginu kunna að tapast.
Heimastjórn Patreksfjarðar leggur því ríka áherslu á að ekki verði frekari seinkun á því að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hefjist og að í samgönguáætlun sem lögð verður fram í haust verði tryggt fjármagn til framkvæmda strax á næsta ári.
Samþykkt samhljóða.
4. Heimastjórnir, fundir með íbúum
Umræða og ábendingar íbúa af fundi heimastjórnar með íbúum á Patreksfirði þann 26.02.2025.
Heimastjórn Patreksfjarðar þakkar íbúum fyrir góða mætingu og góðar umræður á kaffispjalli heimastjórnar í Vatneyrarbúð 26.feb.
Unnið verður áfram með þær hugmyndir og ábendingar sem fram komu á fundinum.
5. Starfsáætlun heimastjórna 2025
Starfsáætlun heimastjórnar Patreksfjarðar 2025, dagsetning íbúafundar á Patreksfirði.
Heimastjórn ákveður að halda íbúafund á Patreksfirði 01. apríl kl. 17.00 í Félagsheimili Patreksfjarðar.
6. Tímasetning funda heimastjórna
Tillaga að breytingu á fundartíma heimastjórnar Patreksfjarðar í apríl vegna Fjórðungsþings Vestfirðinga sem haldið verður sama dag og gert hafði verið ráð fyrir fundi heimastjórnar í fundadagatali.
Heimastjórn Patreksfjarðar samþykkir að færa fund sinn í apríl fram um einn dag til 01.apríl vegna Fjórðungsþings á Ísafirði sem haldið verður þann 02.apríl.
Samþykkt samhljóða.
Til kynningar
7. Umsókn um framkvæmdaleyfi - áningastaður Litladal
Lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi frá Skógræktarfélagi Patreksfjarðar dagsett 12. febrúar 2025. Skógræktarfélag Patreksfjarðar áformar að koma upp áningarstað/útsýnisstað efst við göngustíg í Litladal. Svæðið yrði allt að 30 m2, grafið yrði inn í bakkann, efnisskipt fyrir stétt og hleðsla hlaðin í skeringuna, þá yrði bekkur myndaður í boga á hleðsluna sem fer inn í hlíðina. Grjótið yrði tínt til í dalnum og nýtt í hleðslu. Allt grjót yrði náttúrugrjót og framkvæmdin á að falla vel að umhverfi og náttúru svæðsins
Skipulags- og framkvæmdaráð metur sem svo að framkvæmdin sé minniháttar og sé undanþegin framkvæmdaleyfi. Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkti framkvæmdina á 7. fundi sínum þann 26. febrúar 2025.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:17
Formaður setti fund og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðið.
Svo var ekki og formaður lýsti fundinn lögmætan.