Fundur haldinn í fundarsal, Strandgötu 38, Tálknafirði, 6. mars 2025 og hófst hann kl. 14:00
Nefndarmenn
- Gunnþórunn Bender (GB) aðalmaður
- Jónas Snæbjörnsson (JS) varaformaður
- Jón Aron Benediktsson (JAB) varamaður
Starfsmenn
- Lilja Magnúsdóttir (LM) ritari heimastjórna
Fundargerð ritaði
- Lilja Magnúsdóttir ritari
Almenn erindi
1. Rennibraut við sundlaug Tálknafjarðar
Erindi frá Guðbjarti Ásgeirssyni varðandi rennibraut við sundlaug Tálknafjarðar.
Heimastjórn Tálknafjarðar þakkar bréfritara erindið og tekur undir áhyggjur bréfritara. Samkvæmt upplýsingum frá sviðsstjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs verður reynt að gera við rennibrautina í vor þannig að hún verði nothæf í sumar. Hins vegar er óvissa með ástand brautarinnar til framtíðar og þarf að vinna að lausn á því við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.
2. Tálknafjarðarvegur 617
Erindi til Vegagerðarinnar varðandi Tálknafjarðarveg 617 og viðhald á honum.
Heimastjórn Tálknafjarðar fer þess á leit við Vegagerðina að ofaníburður og annað viðhald á Tálknafjarðarvegi 617 verði sett á fjárhagsáætlun Vegagerðarinnar árið 2026. Vegurinn er farinn að láta mjög á sjá þar sem um 20-25 ár eru liðin síðan síðast voru unnar endurbætur á veginum. Þá var vegurinn byggður upp og borið ofan í hann frá Hrauni og útundir Litla-Laugardal og eftir þá viðgerð hélst vegurinn þokkalegur lengi vel en nú er farið að halla mikið á ógæfuhliðina.
Ástand vegarins frá Hrauni og að Stóra-Laugardal er orðið verulega slæmt, allur ofaníburður er nánast horfinn og gróft undirlag komið upp. Þegar vegurinn er heflaður helst hann í lagi í nokkra daga en mjög fljótlega detta í hann holur og hann verður jafnslæmur eftir sorglega stuttan tíma. Bæði heimamenn og ferðamenn kvarta sáran undan ástandi vegarins og ljóst er að grípa verður til aðgerða sem allra fyrst.
Viðhald þessa vegarkafla er sérlega nauðsynlegt í ljósi þess að þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu á Íslandi og einn af þeim stöðum sem almyrkvinn mun sjást vel er utanverður Tálknafjörður svo sem á Bakka eða á Sellátrum sem eru tveir ystu bæir í vegasambandi í Tálknafirði. Það er því mjög nauðsynlegt að fá þessar lagfæringar á Tálknafjarðarvegi 617 gerðar sem allra fyrst sumarið 2026 þannig að vegurinn verði í sem bestu ástandi í ágúst þegar búist er við gríðarlegri umferð á sunnanverða Vestfirði.
Heimastjórn Tálknafjarðar hvetur Vegagerðina til að leita allra leiða til að koma þessum bráðnauðsynlegu vegabótum á Tálknafjarðarvegi 617 á fjárhagsáætlun á árinu 2026 og vonast eftir góðri úrlausn.
Samþykkt samhljóða.
3. Starfsáætlun heimastjórna 2025
Starfsáætlun heimastjórnar Tálknafjarðar 2025, dagsetning íbúafundar á Tálknafirði.
Heimastjórn Tálknafjarðar er sammála um að bjóða íbúum Tálknafjarðar í kaffispjall á Vindheimum miðvikudaginn 12. mars kl. 17.00.
Íbúafundur á Tálknafirði verður haldinn mánudaginn 07. apríl kl. 17.00 í matsal Tálknafjarðarskóla.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:52
Jónas Snæbjörnsson varaformaður stýrði fundinum í forföllum formanns, hann setti fundinn og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Svo var ekki og formaður lýsti fundinn lögmætan.
Þór Magnússon boðaði forföll og Jón Aron Benediktsson fyrsti varamaður sat fundinn í hans stað.