Hoppa yfir valmynd

Skipulags- og byggingarnefnd - 176

Málsnúmer 1301012F

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

20. mars 2013 – Bæjarstjórn

Fundargerðin er í 9. töluliðum.
Til máls tóku: Forseti, JPÁ, bæjarstjóri, ÁS, GE, varaforseti, MÓH og GIB.
Forseti vék af fundi undir 9.tölul. vegna tengsla við aðila máls. ÁSG varaforseti tók við stjórn fundarins undir þessum tölulið.
Eftirfarandi liðir fundargerðarinnar voru teknir sérstaklega til afgreiðslu:
1.tölul.: Breyting á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi þann 10. desember 2012 að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 vegna laxeldis, urðunar, landnotkunar í fjallshlíðum þéttbýla, iðnaðarsvæðis á Bíldudal og Aðalstræti 100 og nágrennis Patreksfirði. Skipulagstillögunni fylgdi umhverfisskýrsla.
Tillagan var auglýst frá 1. janúar 2013 með athugasemdarfresti til 26. febrúar 2013. Umsagnir bárust frá Skógrækt ríkisins, Fornleifavernd ríkisins, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Fiskistofu. Búið er að verða við umsögnum umsagnaraðila. Við auglýsingu á skipulagslýsingunni vegna aðalskipulagsbreytingarinnar barst undirskriftalisti með bréfi frá 41 íbúa Patreksfjarðar þar sem mótmælt er skilgreiningu á urðunarstað í Vatneyrarhlíðum. Í bréfinu er því mótmælt að endurvekja eigi gamla sorphauga á svæðinu með tilheyrandi mengun og að of stutt sé í núverandi byggð frá urðunarstaðnum. Vitnað var í reglugerð um urðun úrgangs nr. 783/2003 og eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar frá 4.9.2012. Í bréfinu og eftirlitsskýrslunni eru þessi atriði reifuð og einnig bent á að stöðugleika urðunarstaðarins sé ábótavant.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar þeim áhuga sem beinast að málefninu og bendir á að með breytingu á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags fyrir svæðið er m.a. verið að taka á þeim vandamálum sem að hluta til er bent á í athugasemdunum. Bæjarstjórn bendir á að með skilgreiningu núverandi urðunarstaðar er ekki verið að endurvekja fyrirkomulag sorpurðunar í Vatneyrarhlíðum, þegar almennt heimilissorp var urðað í hlíðinni, heldur er verið að tryggja framlengingu á starfsleyfi staðarins til urðunar á óvirkum úrgangi eins og honum er lýst í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs, sem er m.a. steypa, flísar og keramik, jarðvegur, steinar, múrsteinar og úrgangur frá glertrefjaefnum.
Fyrirkomulagi urðunar verði þannig háttað að stöðugleiki svæðisins verður bættur og að svæðið verði nýtt til urðunar á óvirkum úrgangi þar til starfsleyfið fellur úr gildi. Nánari skilyrði um fegrun svæðisins og lokun þess eru að finna í deiliskipulagstillögu af svæðinu sem var auglýst með aðalskipulagsbreytingunni.
Bæjarstjórn áréttar að sett var inn ákvæði í aðalskipulagið um að urðunarstaðurinn sé víkjandi. Haldin var kynning fyrir íbúa föstudaginn 7. desember 2012, kl. 18:10 í Félagsheimili Patreksfjarðar. Umræður sköpuðust á fundinum og athugasemdir bárust. Gerðar voru efnis- og orðalagsbreytingar með hliðsjón af framkomnum athugasemdum.
Bæjarstjórn felur byggingarfulltrúa að svara öllum þeim sem gerðu athugasemdir með bókun bæjarstjórnar og árétta að gengið verði um svæðið þannig að það trufli íbúa í nágrenni sem minnst, með því að vökva vegi á þurrkatímum og takmarka umferð um svæðið. Að öðru leyti samþykkir Bæjarstjórn Vesturbyggðar tillöguna og felur byggingarfulltrúa hana til fullnaðarafgreiðslu skv. 32. gr. laga nr.123/2010.
5.tölul.: Deiliskipulag Aðalstræti 100 og nágrennis, Patreksfirði.
Þann 10. desember 2012 samþykkti bæjarstjórn Vesturbyggðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna Aðalstræti 100 og nágrennis. Í deiliskipulagstillögunni kemur fram að sláturhúsinu við Aðalstræti 100 verði breytt í hótel og hættumatslínur færðar með tilkomu ofanflóðamannvirkja við Litladalsá. Einnig er skipulagi tjaldsvæðisins við félagsheimili Patreksfjarðar og tengingu þess við fyrirhugað hótel gerð góð skil. Tillagan var auglýst frá 1. janúar 2013 með athugasemdafresti til 26. febrúar 2013. Umsagnir bárust frá Veðurstofu, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Vegagerðinni. Búið er að verða við umsögnum umsagnaraðila. Engar athugasemdir bárust. Bæjarstjórn Vestubyggðar samþykkir tillöguna og felur byggingarfulltrúa hana til fullnaðarafgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
6.tölul.: Deiliskipulag Dufansdal Efri land 2.
Þann 10. desember 2012 samþykkti bæjarstjórn Vesturbyggðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna frístundabyggðar í Dufansdal Efri land 2. Vegna formgalla er áður auglýst tillaga sem staðfest var í B-deild Stjórnartíðinda þann 22.09.2011 ógild. Ekki þótti tilefni til þess að senda tillöguna umsagnaraðilum á nýjan leik. Tillagan var auglýst frá 1. janúar 2013 með athugasemdafresti til 26. febrúar 2013. Engar athugasemdir bárust. Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir tillöguna og felur byggingarfulltrúa hana til fullnaðarafgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
7.tölul.: Deiliskipulag Kirkjuhvammi á Rauðasandi.
Þann 10. desember 2012 samþykkti bæjarstjórn Vesturbyggðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna Kirkjuhvamms á Rauðasandi. Vegna formgalla er áður auglýst tillaga sem staðfest var í B-deild Stjórnartíðinda þann 19.08.2011 ógild. Ekki þótti tilefni til þess að senda tillöguna umsagnaraðilum á nýjan leik. Tillagan var auglýst frá 1. janúar 2013 með athugasemdafresti til 26. febrúar 2013. Engar athugasemdir bárust.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir tillöguna og felur byggingarfulltrúa hana til fullnaðarafgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.tölul. Bæjarstjórn tekur undir bókun skipulags- og byggingarnefndar.

Bæjarstjórn óskar eftir að hafnarstjórn mæti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Fundargerðin staðfest samhljóða.