Hoppa yfir valmynd

Athugasemd við ofanflóðavarnir

Málsnúmer 1302048

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

18. febrúar 2013 – Skipulags- og byggingarnefnd

Teknar fyrir athugsemdir frá Jónasi Þór íbúa við Urðargötu 6 á Patreksfirði. Í athugasemdum Jónasar mótmælir hann því að vera ekki nafngreindur í bókun skipulags- og byggingarnefndar þann 14. janúar 2013. Í bréfi Jónasar Þór fer hann fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir við ofanflóðavarnirnar ofan Klifs fari í umhverfismat. Einnig lýsir Jónas Þór áhyggjum sínum af lagningu vegslóða inni á framkvæmdasvæðinu, röskun fornminja, hæð fyrirhugaðra garða og tilgangi þeirra. Skipulags- og byggingarnefnd biður Jónas Þór afsökunar á því að nafngreina hann ekki í bókun þann 14. Janúar sl. og leiðréttist það hér með. Skipulags- og byggingarnefnd áréttar svör nefndarinnar sem byggingarfulltrúi sendi Jónasi Þór 22. Janúar 2013 sem er í 6.liðum og eru eftirfarandi:

1. Hönnun varnargarðs og áhrif á jarðminjar: Hönnun varnargarðs byggir á þeim forsendum sem fram koma í Frumathugun á snjóflóðavörnum við Klif á Patreksfirði. Sú athugun byggir á forathugun frá árinu 2003. Í samræmi við hana var lagt til að byggður verði 250 metra langur og 10 - 12 metra hár þvergarður ofan grunnskóla, kyndistöðvar og sjúkrahúss. Byggingarnar standa allar innan hættusvæðis C á austanverðu svæðinu við Klif. Ennfremur er lagt til að settar verði upp snjósöfnunargrindur á fjallinu ofan upptakasvæða snjóflóða til þess að draga úr hættu á snjósöfnun í hlíðina og auka þannig öryggi garðsins gagnvart snjóflóðum. Áhrif á jarðminjar eru taldar vera óverulegar þar sem ekki eru jarðmyndanir á svæðinu sem njóta einhverjar verndar.
2. Áhrif á skógrækt. Það er rétt að hluti skógræktar fer undir varnarmannvirki. Hluti mótvægisaðgerða verður að planta eins miklu og tapast við framkvæmdina og er það á ábyrgð sveitarfélagsins að því verði framfylgt. Aðgengi að skógræktarsvæðinu ætti því mögulega að aukast með aukinni stígagerð um svæðið sem og ætti að nýtast betur í skólastarfi t.a.m. með aukinni aðstöðu við útikennslu.
3. Áhrif á fuglalíf. Gerð var athugun á fuglalífi vegna fyrirspurnar á matsskyldu og samkvæmt henni voru áhrifin talin vera óveruleg þar sem ekki hafa fundist fuglar á svæðinu sem eru á válista og varptegundir algengar á svæðisvísu. Í greinargerð sem fylgdi deiliskipulaginu kemur fram að áhrif á gróður og dýralíf eru talin vera óveruleg eða neikvæð. Mikilvægt er að vanda mjög til verka við frágang varnar-virkjanna. Taka þarf mið af aðliggjandi gróðurfari þannig að mannvirkið falli sem best að landslaginu
4. Áhrif á fornleifar. Í greinargerð með deiliskipulaginu í kafla 1.9 kemur fram um hvers konar minjar eru að ræða. Unnin var úttekt á fornminjum á svæðinu og liggur fyrir skýrsla þess efnis. Innan deiliskipulagsmarka voru skráðar 18 minjar. Tvær minjar eru í beinni hættu vegna framkvæmdarinnar og fara undir garðinn. Aðrar minjar eru við stíg sem liggja mun að garðinum. Lokaútfærsla stígs og hönnun mun verða gerð í fullu samráði við Minjastofnun Íslands og þess gætt að minjum verði raskað sem allra minnst.
5. Framkvæmdin sem slík var tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Þann 11. ágúst 2011 tilkynnti Verkís hf., f.h. Vesturbyggðar, gerð snjóflóðavarna við Klif á Patreksfirði, til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. og lið 11 k í 2. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir þann 4. október 2011 þar sem fram kom að framkvæmdin skyldi ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.
6. Veglagning. Um er að ræða 3 m breiðan vegslóða sem fer um að mestu raskað land. Slóða verður síðan gengið frá í lok framkvæmdar þannig að hann nýtist sem útivistarstígur.
Þveranir á vatnsfarvegum má auðveldlega fjarlægja ef vilji er fyrir því að framkvæmdum loknum. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir umrædda umferð í gegnum bæinn en við undirbúning framkvæmdar voru skoðaðir aðrir kostir varðandi aðkomu að svæðinu sem reyndust ekki raunhæfir. Annars vegar aðkoma að vestanverðu og sem þótti ekki æskilegur kostur þar sem allri þungaumferð er beint þá í gegnum bæinn. Hinn kosturinn var að vera með veg austan við Sjúkrahúsið sem reyndist of brött leið en einnig fylgdi umferð í gegnum bæinn. Núverandi kostur þykir því álitlegasti kosturinn m.t.t. þeirra áhrifa sem slík framkvæmd kann að hafa í för með sér. Við útfærslu vegarins verður tekið tillit til athugasemda Umhverfisstofnunar sem benti á að fella fláa og skeringar þannig að landi að slóðinn verði minna sýnilegur og að uppgræðsla verði í samræmi við það gróðurfar sem er þegar á svæðinu.
Skipulags- og byggingarnefnd mun árétta það við hönnuði verksins að ræsismál verði endurskoðuð og því fylgt eftir við verktaka