Hoppa yfir valmynd

Umsagnarbeiðni - Notkun ásætuvarna Arctic Sea Farm í Arnarfirði

Málsnúmer 2312038

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

11. janúar 2024 – Skipulags og umhverfisráð

Lagt fram bréf skipulagsstofnunar dags. 28. desember 2023 þar sem óskað er umsagnar Vesturbyggðar um matsskyldufyrirspurn vegna tilkynningar Arctic Sea Farm um notkun ásætuvarna á sjókvíar á vegum fyrirtækisins í Arnarfirði samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021. Í samræmi við 20. gr. laga nr. 111/2021 óskar Skipulagsstofnun eftir umsögnum um ofangreinda framkvæmd. Í umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Jafnframt hvort og þá hvaða atriði umsagnaraðili telur þurfa að skýra frekar og hvort þau kalli að hans mati á að framkvæmdin fari í umhverfismat að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Jafnframt skal í umsögn gera grein fyrir leyfum sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði umsagnaraðila.

Skipulags- og umhverfisráð hefur ekki faglegar forsendur til að meta neikvæð umhverfisáhrif, en samkvæmt framlagðri skýrslu Eflu kemur fram að möguleg áhrif ásætuvarna sem innihalda Tralopyril og Zinc Pyrithione í sjó séu metin nokkuð neikvæð samkvæmt viðmiðum yfir vægi áhrifa sem stuðst er við þegar mat er lagt á umhverfisáhrif framkvæmda.

Í skýrslunni er ekki lagt mat á áhrif á aðrar tegundir í firðinum, svo sem rækju og botnfisk að öðru leyti en að áhrifin séu metin staðbundin og safnist ekki upp í lífkeðjunni.

Framkvæmdin er ekki leyfisskyld af hálfu Vesturbyggðar sbr. Haf- og strandsvæðaskipulag Vestfjarða.

Að mati skipulags- og umhverfisráðs liggur því ekki fyrir í fyrirliggjandi gögnum hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði.

Skipulags- og umhverfisráð telur því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.