Byggingarmál
Embætti byggingarfulltrúa starfar á grundvelli mannvirkjalaga, byggingarreglugerðar og samþykkt bæjarstjórnar svo og öðrum lögum, reglugerðum og samþykktum er byggingarmál varða.
Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa.
Umsókn um byggingarleyfi er send byggingarfulltrúa ásamt aðalteikningu og öðrum hönnunargögnum, þ.m.t. tilkynningu um hver verði hönnunarstjóri mannvirkisins.
Byggingarfulltrúi fjallar um byggingarleyfisumsóknir og fer með þau verkefni sem mælt er fyrir um í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og ákvæðum í þeim reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna, þar á meðal útgáfu byggingarleyfa.
Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með því að mannvirkjagerð sé í samræmi við útgefin leyfi og gildandi skipulag.
Ráðherra setur, í samráði við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, byggingarreglugerð sem nær til landsins alls þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd laga um mannvirki. Ný byggingarreglugerð tók gildi 24. janúar 2012 og er nr. 112/2012.