Vatneyrarbúð
Vatneyrarbúð er þekkingarsetur og samvinnurými sem var formlega opnað árið 2024. Því er ætlað að vera glæsilegur samkomustaður þekkingar og umræðna. Einstaklingum og fyrirtækjum býðst að leigja sér aðstöðu þar til lengri eða skemmri tíma eða halda þar einstaka fundi. Þá geta háskólanemar nýtt sér aðstöðu til að læra þar. Einn aðaltilgangur með uppgerð Vatneyrarbúðar var að skapa kjöraðstæður til nýsköpunar og auka fjölbreytileika starfa.
Vatneyrarbúð, sem byggð var árið 1916, hefur ótvírætt varðveislugildi sem vitnisburður um atvinnusögu Patreksfjarðar bæði vegna upprunaleika og samhengis við önnur atvinnuhús í næsta nágrenni, vélsmiðju og salthús. Einnig vegna innanstokksmuna og minja sem tengjast rekstri í húsinu og sem varðveist hafa í heild sinni. Þá hefur húsið mikið umhverfisgildi í götumynd Aðalstrætis og staðarmynd Vatneyrarbyggðar.
Sögu Vatneyrarbúðar er gert hátt undir höfði og taka rýmin heiti fyrirtækja, skipa og fólks sem á stóran þátt í atvinnuuppbyggingu Patreksfjarðar. Munir úr gömlu Vatneyrarbúð prýða húsið að nýju og verður unnin bók þar sem má fræðast um þá muni sem sjá má í húsinu og sögu þeirra.
Í gegnum árin hafa komið fram ýmsar hugmyndir um nýtingu húsnæðisins en frá árinu 2019 hefur verið unnið að uppbyggingu þekkingarseturs og samvinnurými í Vatneyrarbúð. Fyrstu stofnanir sem taka til starfa í Vatneyrarbúðinni eru MAST, Umhverfisstofnun, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Náttúrustofa Vestfjarða með nýtt starf deildarstjóra fiskeldis. Auk þess er unnið að samningi við umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið um starf sem verður staðsett í Vatneyrarbúð.