Um Vesturbyggð
Vesturbyggð, í núverandi mynd, varð til með sameiningu fyrri Vesturbyggðar við Tálknafjarðarhrepp sem tók gildi á hvítasunnudegi 19. maí árið 2024.
Fyrrum voru sex hreppar á suðursvæði Vestfjarða: Barðastrandahreppur, Ketildalahreppur, Patrekshreppur, Rauðasandshreppur, Suðurfjarðahreppur og Tálknafjarðarhreppur. Þann 1. júlí árið 1987 voru Ketildalahreppur og Suðurfjarðahreppur sameinaðir í Bíldudalshrepp og þann 11. júní 1994 sameinuðust Bíldudalshreppur, Barðastrandahreppur, Patrekshreppur og Rauðasandshreppur í Vesturbyggð. Sameiningartillagan var þá felld í kosningum á Tálknafirði.
Haustið 2023 var kosið á ný um sameiningu sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum og var sameining Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar samþykkt.