Fram­halds­deild

Fjöl­brauta­skóli Snæfell­inga – FSN, rekur fram­halds­deild á Patreks­firði þar sem nemendur af suður­svæði Vest­fjarða geta stundað nám á fram­halds­skóla­stigi undir stjórn kennara í Grund­ar­firði með aðstoð upplýs­inga­tækni. Starfs­menn deild­ar­innar á Patreks­firði veita svo nemendum leið­sögn á staðnum og halda utan um starf­semina.

Deildarstjóri

SSS

Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir
svanhvit@fsn.is

Dreifmennt

Nám og kennsla í fram­halds­deild­inni byggir á aðferðum dreif­menntar, en almennt má segja að dreif­mennt sé góður kostur til að brúa bil milli lands­hluta og gera einstak­lingum kleift að stunda það nám sem þeir kjósa sér hvar sem þeir eru staddir. Sjálf­stæði í námi er oft meira þar sem nemendur vinna oft án beinnar tilsagnar kennara og þurfa því að taka mikla ábyrgð á eigin námi.

Í nóvember 2009 var gerð sjálfs­mats­skýrsla til kynn­ingar á verk­efninu, sem þá hafði starfað í tvö  ár. Attentus, mannauður og ráðgjöf gerði úttekt á starf­semi deild­ar­innar haustið 2010.


Dagleg starfsemi

Námið í fram­halds­deild­inni er byggt upp þannig að nemendur eru ýmist hluti af nemenda­hópum í FSN eða í sérstökum hópum. Öll kennsla fer fram frá Grund­ar­firði og eru allir kenn­arar deild­ar­innar stað­settir þar. Auk þess eru tveir starfs­menn í fram­halds­deild­inni sem aðstoða nemendur á Patreks­firði og halda utan um starf­semina. Nemendur stunda námið að mestu í dreif­námi, með þeim tækjum og tólum sem fyrir hendi eru. Allt náms­efni er lagt fyrir nemendur í gegnum náms­um­sjón­ar­kerfi en þess utan hafa nemendur aðgang að kenn­urum gegnum tölvu­póst og fjar­funda­búnað. Kenn­arar stýra vinnu nemenda og eru til aðstoðar bæði í hefð­bundnum tímum og verefna­tímum með þeim leiðum sem fyrir hendi eru. Nám nemenda fer að miklu leyti fram með sjálf­stæðri verk­efna­vinnu, þar sem nemendur vinna einstak­lings­verk­efni eða hópverk­efni, ýmist með nemendum á staðnum eða í Grund­ar­firði. Nemendur skila öllum verk­efnum gegnum náms­um­sjón­ar­kerfið og flest próf eru tekin þar.

Fjöl­brauta­skóli Snæfell­inga hefur frá upphafi haft það hlut­verk að vera þróun­ar­skóli í breyttum kennslu­háttum og nýtingu upplýs­inga­tækni í skóla­starfi. Meðal þess sem greinir FSN frá öðrum hefð­bundnum fram­halds­skólum er að færri fastir tímar eru í stunda­töfl­unni en í flestum öðrum skólum. Til að vega upp á móti færri tímum sækja nemendur svokallaða verk­efna­tíma. Í verk­efna­t­íkmum getur nemandi nálgast þann kennara er hann telur sig hafa mest not af og unnið sín verk­efni undir leið­sögn. Verk­efna­tímar nýtast einnig nemendum á Patreks­firði sérstak­lega vel, þar sem þeir hafa þá aukið aðgengi að kenn­ar­anum með MSN eða fjar­funda­búnaði.


Námsferðir til Grundarfjarðar

Reglu­legar náms­ferðir eru farnar til Grund­ar­fjarðar, a.m.k. ein náms­ferð í hverjum mánuði. Ferð­irnar eru mikil­vægur hluti af verk­efninu, en mark­miðið með þeim er að tengja saman nemendur og kennara og gefa nemendum tæki­færi til að sækja sér viðbót­ar­þjón­ustu hjá kenn­urum sínum. Auk þess hafa nemendur þá tæki­færi til að taka þátt í félags­lífi í stærra skólaum­hverfi. Dagsetn­ingar ferð­anna ráðast af viðburðum hjá nemenda­fé­laginu í Grund­ar­firði þannig að nemendur fram­halds­deildar nái að taka þátt í stærstu viðburðum vetr­arins. Ferða­til­högun hefur verið á þann veg að einu sinni í mánuði að loknum hefð­bundnum skóla­degi er farið með rútu á Brjánslæk og þaðan með Flóa­bátnum Baldri yfir Breið­ar­fjörð til Stykk­is­hólms. Í Stykk­is­hólmi eru nemendur sóttir í rútu og keyrðir á farfugla­heim­ilið í Grund­ar­firði, sem hefur fengið það hlut­verk að vera nokkurs konar heima­vist nemenda í náms­ferðum. Í þrjá daga taka nemendur þátt í hefð­bundnum kennslu­stundum, en geta auk þess nýtt sér þjón­ustu kennara í verk­efna­tímum/vinnu­stofum. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í félags­lífinu fá tæki­færi til þess. Að lokinni skóla­heim­sókn er svo farið aftur sömu leið til Patreks­fjarðar og hefð­bundnir skóla­dagar taka við fram að næstu ferð.