Áætlun um sérstakan stuðning
Bíldudalsskóli er skóli án aðgreiningar. Í skóla án aðgreiningar komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir hvers og eins með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Borin er virðing fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og lögð er áhersla á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningar í skólum. Þetta samræmist 17. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 þar sem segir að allir nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Nemendur með sérþarfir eru þeir sem eiga erfitt með nám vegna sértækra námserfiðleika, tilfinninga- og/eða félagslegra erfiðleika, fötlunar, leshömlunar, þroskaraskana, geðraskana eða heilsutengds vanda. Bráðgerir nemendur og nemendur sem búa yfir sérhæfileikum á vissum sviðum, eiga einnig rétt á að fá námstækifæri við hæfi.
Móttaka nemenda með sérþarfir
Tekið er á móti nýjum nemendum samkvæmt áætlun um móttöku nýrra nemenda sem birt er m.a. á heimasíðu skólans. Sé óskað eftir skólavist fyrir nemanda með sérþarfir er það á ábyrgð foreldra að veita skólanum þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð nemandans. Gætt er fyllsta trúnaðar varðandi persónuupplýsingar og þær varðveittar samkvæmt lögum.
Áður en skólavist hefst mæta foreldrar og nemandi (eftir atvikum) í viðtal til skólastjóra og umsjónarkennara og eða sérkennara. Þar sem farið er yfir skipulag kennslunnar, stefnu skólans, stoðþjónustu og áætlun um stuðning fyrir nemandann. Æskilegt er að nemandi komi í heimsókn í skólann áður en skólavist hefst.
Einstaklingsnámskrá
Einstaklingsnámskrá er útbúin fyrir þá nemendur sem þurfa þykir. Námskráin byggir á hæfniviðmiðum úr Aðalnámskrá eða skólanámskrá og er sniðinn að nemandanum og hans þörfum, s.s. áhugasviði, styrkleikum, náms- og félagsstöðu. Áhersla er á að setja fram stutt og mælanleg markmið sem endurskoðuð eru með reglubundnum hætti yfir skólaárið. Sérkennari ásamt umsjónarkennara ber ábyrgð á að gerð sé einstaklingsnámskrá fyrir nemendur. Er hún unnin í samráði við foreldra og nemendur.
Teymisvinna
Í skólanum er lögð áhersla á teymisvinnu þar sem mynduð eruð teymi utan málefni einstaka nemenda. Í teyminu er fulltrúi úr stoðþjónustuteymi skólans, umsjónarkennari og faggreinakennari. Reynt er eftir fremsta megni að koma til móts við nemendur inni í kennslustofu þar sem nemendur fá námsefni og aðstoð eftir þörfum. Hlutverk sérkennara er því meðal annars að aðstoða kennara við val á námsefni og aðstoð við nemendur eftir þörfum, inn í bekk eða í einstaklingskennslu eftir þörfum.
Þegar þörf er á þverfaglegri vinnu foreldra og fagfólks er myndað teymi. Sérkennari ber ábyrgð á stofnun teymis. Teymisfundir skulu haldnir a.m.k. tvisvar sinnum yfir skólaárið, einu sinni á hvorri önn. Auk þess eru haldnir minni fundir eftir þörfum, umsjónarkennari skráir fundargerð og miðlar reglulega upplýsingum til foreldra um árangur og gengi nemandans samkvæmt áætlun.