Farsæld í þágu barna
Þann 1. janúar 2022 tóku gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, svokölluð farsældarlög sem varða öll börn og ungmenni á Íslandi frá 0-18 ára aldurs. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana og draga úr og fækka alvarlegri málum. Í lögunum er kveðið á um stigskiptingu á þjónustu; fyrsta, annað og þriðja stig.
Fyrsta stigið er aðgengilegt öllum börnum og foreldrum en um er að ræða einstaklingsbundinn snemmtækan stuðning. Fyrsta stigið er nýnæmi í lögum og verður mesta kerfisbreytingin þar.
Á öðru stigi er markvissari einstaklingsþjónusta og þriðja stigi er þjónustan orðin mun sérhæfðari.
Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leikskólar, grunnskólar, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.