Náms­vísir

Í sameig­in­legum inngangskafla fyrir leik­skóla, grunn­skóla og fram­halds­skóla eru skil­greindir grunn­þættir í íslenskri menntun. Þessir grunn­þættir eru:
  • læsi,
  • sjálf­bærni,
  • heil­brigði og velferð,
  • lýðræði og mann­rétt­indi,
  • jafn­rétti,
  • sköpun.
Grunn­þættir í menntun ásamt áherslu­þáttum grunn­skóla­laga skulu vera leið­ar­ljós í almennri menntun og starfs­háttum í grunn­skóla. Þeir eiga að birtast í inntaki náms­greina og náms­sviða aðal­nám­skrár, í hæfni nemenda, náms­mati, skóla­nám­skrá og innra mati skólans. Grunn­skólinn er eina skóla­stigið sem nemendum er skylt að sækja og er því mikil­vægur vett­vangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunn­þátt­anna og sem búa þau undir þátt­töku í lýðræð­is­sam­fé­lagi.
Í námi og kennslu ber samkvæmt ákvæði í 24. gr. laga um grunn­skóla að leggja áherslu á ýmsa þætti í námi og kennslu. Þessir áherslu­þættir eru nánari útfærsla á mark­miðs­ákvæði laganna og grunn­þáttum í íslenskri menntun. Þeir eiga það flestir einnig sammerkt að vera ekki bundnir við einstakar náms­greinar eða afmarkaða þætti skóla­starfs heldur þurfa þeir að vera almennt leið­ar­ljós í allri menntun í grunn­skóla, bæði form­legri og óform­legri og í starfs­háttum skóla.

Grunnþáttalotur

  • Heilbrigði og velferð - 21. ágúst til 4. október

    Að nemendur þekki sjálfan sig og fjölskyldu sína, eigin líðan og sjálfan sig sem námsmann og manneskju í samfélagi manna. Eigin styrkleika og veikleika, skráðar og óskráðar reglur.

  • Læsi - 7. október til 8 . nóvember

    Að nemendur tileinki sér mikilvægi læsis í víðum skilningi. Læri að tjá sig í ræðu og riti, tjá tilfinningar og skoðanir á öruggan og persónulegan hátt. Skilji hvaða tjáningarform henti þeim best og njóti þess að taka virkan þátt.

  • Jafnrétti og mannréttindi - 11. nóvember til 3. janúar

    Að nemendur skilji hvernig allir hafi rétt á að fá að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis án fordóma og mismununar.

  • Lýðræði - 6. janúar til 14. febrúar

    Að nemendur þekki rétt sinn til að hafa áhrif og taka þátt í samfélaginu, hafa tilgang. Skilja samfélög og tilgang, ástæður og tengsl við aðra mikilvæga þætti.

  • Sköpun - 17. febrúar til 11. apríl

    Að nemendur njóti þess að skapa og uppgötva, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit að lausn með ólíkum aðferðum hvers og eins.

  • Sjálfbærni - 22. apríl til 30. maí

    Að nemendur skilji að við berum ábyrgð á því að jörðin sé og verði sjálfbær. Skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða sem stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi.


Námsvísir Patreksskóla