Innra mat
Gott innra mat gefur skýra mynd af gæðum náms og kennslu og stjórnun skólans. Með innra mati er lagt mat á hvernig starfsfólk skólans stendur sig og við matið horft til viðmiða sem sett eru um gæði skólastarfs. Viðmiðum og vísbendingum um gæðastarf í Nýsköpunarskólum er ætlað að draga upp skýra mynd af því hvað þarf að vera til staðar í starfsemi skólans til að skólinn geti kennt sig við nýsköpun. Viðmið og vísbendingar um nám og kennslu verða eðli málsins samkvæmt viðamesti flokkurinn enda kjarninn í starfsemi hvers skóla.
Megnið af þeim viðmiðum og vísbendingum sem koma fram í þessum þremur flokkum, þ.e. námi og kennslu, stjórnun og faglegri forystu og innra mati, byggja á viðmiðum um gæðastarf í grunnskólum. Til viðbótar við matsflokka Menntamálastofnunnar koma Norræn hæfnimarkmið og kennslufræðilegar áherslur í frumkvöðlamennt en skilyrði fyrir nafnbótinni Nýsköpunarskóli er að þau viðmið séu nýtt til að rýna í gæði verkefna sem lögð eru fyrir nemendur.
- Gott innra mat er kerfisbundið og er framkvæmt með reglubundnum hætti. Góð leið til þess að kerfisbinda innra mat er að matshópurinn vinni eftir ítarlegri starfsáætlun eða fundaáætlun.
- Gott innra mat er markmiðsbundið. Í skólastefnu Nýsköpunarskóla kemur skýrt fram hver markmið skólans séu. Með innra mati er metið hvernig gengur að ná settum markmiðum.
- Gott innra mat er samstarfsmiðað. Góð leið til þess er að binda ákvæði um innra mat kyrfilega inn í áætlanir um kennara- og starfsmannafundi.
- Gott innra mat og úrvinnsla þess kemur reglulega til umfjöllunar hjá skólaráði og teymið sem hefur með höndum innra mat fundar reglulega á vinnufundum samkvæmt starfsáætlun.
- Gott innra mat er samofið öllu skólastarfi. Góð leið til að tryggja þetta er að afla gagna á mjög fjölbreyttan hátt, með spurningalistum, úr vinnu með rýnihópum, með gögnum um mat í kennslustundum, með mati á kennsluáætlunum o.fl.
- Gott innra mat byggir á traustum gögnum. Góð leið er að nýta gögn sem varpa ljósi á
viðfangsefnin og auðvelda mat á stöðu hinna ýmsu þátta skólastarfsins út frá viðmiðum og vísbendingum hvers þáttar. Mikilvægt tæki til að beita við innra mat eru matslistar þar sem hvert viðmið er metið og matið rökstutt. - Gott innra mat er greinandi og umbótamiðað. Greina þarf niðurstöður út frá viðmiðum um gæðastarf. Stundum þarf að draga úr ítarlegum viðmiðum t.d. um líðan starfsfólks. Vísbending um að starfsfólk sé ánægt gæti verið að 95% starfsfólks sé alltaf ánægt eða mjög ánægt.
- Gott innra mat er opinbert. Góð leið er að vinna jafnt og þétt að skráningu og skýrslugerð um innra mat sem birt er á vori hverju. Skýrslan er þá vitnisburður um það sem gert var skv. starfsáætlun. Þar kæmi fram hvaða þættir teldust sterkir og hvaða þættir kalli á umbætur.