Innra mat

Gott innra mat gefur skýra mynd af gæðum náms og kennslu og stjórnun skólans. Með innra mati er lagt mat á hvernig starfs­fólk skólans stendur sig og við matið horft til viðmiða sem sett eru um gæði skóla­starfs. Viðmiðum og vísbend­ingum um gæðastarf í Nýsköp­un­ar­skólum er ætlað að draga upp skýra mynd af því hvað þarf að vera til staðar í starf­semi skólans til að skólinn geti kennt sig við nýsköpun. Viðmið og vísbend­ingar um nám og kennslu verða eðli málsins samkvæmt viða­mesti flokk­urinn enda kjarninn í starf­semi hvers skóla.

Megnið af þeim viðmiðum og vísbend­ingum sem koma fram í þessum þremur flokkum, þ.e. námi og kennslu, stjórnun og faglegri forystu og innra mati, byggja á viðmiðum um gæðastarf í grunn­skólum. Til viðbótar við mats­flokka Mennta­mála­stofn­unnar koma Norræn hæfni­markmið og kennslu­fræði­legar áherslur í frum­kvöðl­a­mennt en skil­yrði fyrir nafn­bót­inni Nýsköp­un­ar­skóli er að þau viðmið séu nýtt til að rýna í gæði verk­efna sem lögð eru fyrir nemendur.

  • Gott innra mat er kerf­is­bundið og er fram­kvæmt með reglu­bundnum hætti. Góð leið til þess að kerf­is­binda innra mat er að mats­hóp­urinn vinni eftir ítar­legri starfs­áætlun eða funda­áætlun.
  •  Gott innra mat er mark­miðs­bundið. Í skóla­stefnu Nýsköp­un­ar­skóla kemur skýrt fram hver markmið skólans séu. Með innra mati er metið hvernig gengur að ná settum mark­miðum.
  • Gott innra mat er samstarfsmiðað. Góð leið til þess er að binda ákvæði um innra mat kyrfi­lega inn í áætlanir um kennara- og starfs­manna­fundi.
  • Gott innra mat og úrvinnsla þess kemur reglu­lega til umfjöll­unar hjá skóla­ráði og teymið sem hefur með höndum innra mat fundar reglu­lega á vinnufundum samkvæmt starfs­áætlun.
  • Gott innra mat er samofið öllu skóla­starfi. Góð leið til að tryggja þetta er að afla gagna á mjög fjöl­breyttan hátt, með spurn­ingalistum, úr vinnu með rýni­hópum, með gögnum um mat í kennslu­stundum, með mati á kennslu­áætlunum o.fl.
  • Gott innra mat byggir á traustum gögnum. Góð leið er að nýta gögn sem varpa ljósi á
    viðfangs­efnin og auðvelda mat á stöðu hinna ýmsu þátta skóla­starfsins út frá viðmiðum og vísbend­ingum hvers þáttar. Mikil­vægt tæki til að beita við innra mat eru matslistar þar sem hvert viðmið er metið og matið rökstutt.
  • Gott innra mat er grein­andi og umbótamiðað. Greina þarf niður­stöður út frá viðmiðum um gæðastarf. Stundum þarf að draga úr ítar­legum viðmiðum t.d. um líðan starfs­fólks. Vísbending um að starfs­fólk sé ánægt gæti verið að 95% starfs­fólks sé alltaf ánægt eða mjög ánægt.
  • Gott innra mat er opin­bert. Góð leið er að vinna jafnt og þétt að skrán­ingu og skýrslu­gerð um innra mat sem birt er á vori hverju. Skýrslan er þá vitn­is­burður um það sem gert var skv. starfs­áætlun. Þar kæmi fram hvaða þættir teldust sterkir og hvaða þættir kalli á umbætur.

Matsskýrslur

Matsáætlanir

Starfsáætlun innra mats teymis