Áfengis- og fíknivarnir
Í Patreksskóla er unnið eftir fíknivarnaáætlun sem tekur til almennra forvarna, s.s. gagnvart tóbaki, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn. Patreksskóla ber skylda til þess að fræða nemendur og miðla upplýsingum varðandi fíkn. Markmiðið er að draga úr fjölda þeirra sem ánetjast reykingum eða öðrum vímuefnum sem og annarri fíkn. Í þessari áætlun verður fjallað um forvarnir innan skólans, viðbrögð skólans þegar upp kemur grunur eða vitneskja um fíkn og góð ráð til foreldra.
Forvarnir
Markmiðið með áætlun um áfengis- og fíkniforvörnum er að draga úr fjölda þeirra sem ánetjast reykingum eða öðrum vímuefnum sem og annarri fíkn. Fræðslan fer fram með fjölbreyttum hætti og koma margir aðilar að þeirri fræðslu, svo sem kennarar, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og utanaðkomandi aðilar sem eru sérfræðingar á ákveðnum sviðum.
Leiðir í forvörnum
- Að fræða nemendur um skaðsemi tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna og afleiðingar af neyslu þessara efna. Sömuleiðis að fræða um annars konar fíkn, t.d. netfíkn.
- Stuðla að jákvæðri sjálfsmynd og heilbrigðum lífsstíl nemenda svo að þeir verði betur færir um að taka sjálfstæðar ákvarðanir án þess að láta undan félagslegum þrýstingi.
- Leggja aukna áherslu á úrræði fyrir nemendur í áhættuhóp.
- Hafa samvinnu við heimilin um forvarnir.
- Fá gestafyrirlesara í heimsókn til að ræða við nemendur í tengslum við annað forvarnarstarf.
- Vera í samstarfi við Félagsmiðstöðina Vest-End um forvarnarstarf.
- Einstaklingsviðtöl við umsjónarkennara.
- Viðtöl við sálfræðing eða námsráðgjafa.
- Viðtöl við skólahjúkrunarfræðing.
Heilsueflandi skóli
Patreksskóli tekur þátt í verkefninu heilsueflandi skóli. Heilsueflandi grunnskóla er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild.
Viðbrögð þegar upp kemur grunur eða vitneskja um fíkn
Ferill vímuefnamála
- Öll notkun tóbaks og nikótíns er bönnuð í og við skólann. Foreldrum er gert viðvart ef nemandi verður uppvís að reykingum eða tóbaksnotkun. Hafi kennarar eða annað starfsfólk skólans grun um að nemandi sé farinn að reykja eða nota tóbak eru foreldrar látnir vita um þann grun af umsjónarkennara, eða skólastjóra.
- Ef sterkur grunur um neyslu nemenda á áfengi eða fíkniefnum vaknar, er umsjónarkennara tilkynnt um málið. Jafnframt hefur skólastjóri samband við foreldra viðkomandi nemanda og segir frá rökstuddum grunsemdum og bendir foreldrum á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð.
- Ef staðfestar upplýsingar liggja fyrir um neyslu nemanda á áfengi eða öðrum vímuefnum skal umsjónarkennari eða skólastjóri strax boða foreldra til fundar, kynna þeim málið og láta vita um framgang málsins.
- Málinu er vísað til nemendaverndarráðs/stoðþjónustuteymis.
- Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið.
- Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls.
Ferill annarra fíknimála
- Ef fram kemur sterkur grunur um fíkn nemanda er umsjónarkennara tilkynnt um málið. Jafnframt hefur skólastjóri samband við foreldra viðkomandi nemanda og bendir foreldrum á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð fagaðila.
- Málinu er vísað til nemendaverndarráðs.
- Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið.
- Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls.
- Skólastjóri og nemendaverndarráð sjá um öll mál sem tengjast vímuefnum og fíkn innan skólans.
Góð ráð til foreldra
Tóbak/áfengi/vímuefni
Það sem getur komið í veg fyrir vímuefnaneyslu barna.
- Gott sjálfstraust.
- Sterk sjálfsmynd.
- Sterk félagsleg tengsl og vinir.
- Foreldrar og skóli vel upplýstir um hagi barns.
- Lögbundinn útivistartími virtur.
- Að börn séu ekki eftirlitslaus þegar þau koma saman.
Forvarnir eru ekki bara fyrirlestur um tóbak, eiturlyf og aðra fíkn. Það felst einnig forvörn í því að:
- Gefa sér tíma með barninu til að gera eitthvað skemmtilegt.
- Hlusta á álit barnsins og hvetja það til að hafa sjálfstæð markmið og skoðanir.
- Hvetja barnið til hvers konar heilbrigðrar tómstundaiðkunar.
- Þekkja vini barnsins og foreldra þeirra.
- Vera börnunum góð fyrirmynd.
Ef þig grunar að barnið þitt noti vímuefni, er mikilvægt að bregðast rétt við.
- Það er eðlilegt að finna til vanmáttarkenndar og hræðslu, en í fæstum tilfellum er barnið í bráðri lífshættu.
- Haltu rósemi þinni. Ekki ráðast á barnið með ásökunum og æsingi því að þá er hætta á að þú missir traust þess.
- Ekki sökkva þér niður í sjálfsásökun. Það þarf ekki að vera að þú hafir brugðist í foreldrahlutverkinu.
- Aflaðu þér upplýsinga um vímuefni. Þær má finna á bókasöfnum, á netinu, hjá forvarna- og heilbrigðisaðilum.
- Gerðu þér far um að kynnast vinum barnsins þíns. Vinahópur, lífsstíll og áhugamál barnsins segja mikið um líkurnar á vímuefnanotkun.
- Hafðu samband við aðra foreldra sem eru í svipaðri stöðu. Reynsla þeirra getur oft hjálpað mjög mikið.
- Ef þér er sagt „Það gera þetta allir“ – eða – „það mega þetta allir“ skaltu vera á varðbergi. Þeir sem nota þessi orðatiltæki hafa sjaldnast rök fyrir skoðun sinni. Orðatiltækin duga einungis á foreldra sem láta ekki skynsemina ráða eða þora ekki að hafa sjálfstæðar skoðanir.
Það sem getur minnkað hættu á að ánetjast fíkniefnum.
- Samvera með foreldrum.
- Stuðningur, aðhald, agi og skýrar reglur.
- Jákvætt viðhorf til skóla og góð frammistaða í námi.
- Vinahópurinn.
- Tómstundastarf, t.d. íþróttir og tónlistarnám.
- Góð samvinna foreldra og skóla.
- Foreldrarölt.
- Foreldrar samræmi útivistarreglur á skólakynningarfundum á haustin.
- Að foreldrar séu vel upplýstir um forvarnir og uppeldismál almennt.
- Regluleg fræðsla um fíkn og varnir gegn henni.
Aðvörunarmerki um vanlíðan hjá ungu fólki
Líkamleg einkenni:
- Áhugaleysi á eigin útliti, t.d. klæðnaði eða hreinlæti.
- Minnkandi matarlyst.
- Óvæntir sjúkdómar, slys eða verkir.
- Breyting á svefnvenjum.
Tilfinningaleg einkenni:
- Áhugaleysi, uppgjöf eða vonleysi.
- Kvíði, spenna, álag.
- Þreyta, aukin svefnþörf.
- Skyndilegir erfiðleikar í sambandi við einbeitingu / rökhugsun.
- Sektarkennd og samviskubit.
- Miklar skapsveiflur og skapbrestir.
- Einangrun eða minnkandi ánægja af félagslegum samskiptum.
Hegðunarleg einkenni:
- Versnandi árangur í skóla.
- Minnkandi áhugi á tómstundamálum, svo sem íþróttum.
- Sjálfseyðileggjandi hegðun.
- Aukin vímuefnaneysla.
- Ögrandi lífsstíll, t.d. klæðnaður sem táknar dauða eða vímuefni.
- Áhugi á hljómlist með textum sem fjalla um þunglyndi, vímu eða dauða.
- Áhugaleysi um eigur sínar.
- Andfélagsleg hegðun, t.d. þjófnaðir eða árásir.
Hvert er hægt að leita þegar vandi steðjar að?
Hægt er að leita til náms- og starfsráðgjafa og sálfræðings við Patreksskóla sem bæði foreldrar og börn geta leitað til varðandi nám og líðan sem og erfiðleika tengdum fíkn. Náms- og starfsráðgjafi/sálfræðingur getur hlustað, gefið góð ráð og bent á næstu skref. Þá getur skólinn bent á úrræði í samstarfi við Félagsþjónustu Vesturbyggðar. Einnig getur verið gott að leita að upplýsingum og fræðslu á netinu.
Allir starfsmenn skólans vinna að forvörnum til að efla heilbrigði og velferð nemenda skólans. Mikilvægt er að allir aðilar skólasamfélagsins séu meðvitaðir og geti gripið í taumana áður en erfiðleikarnir verða of miklir.
Neyðarnúmer 112
Fíkniefnasíminn 800 5005
Hjálparsími Rauðakrossins 1717
Vímulaus æska, foreldrahús 581 1799