Eineltisáætlun
Í Patreksskóla er einelti eða annað ofbeldi ekki liðið. Leitað er allra leiða til að fyrirbyggja og stöðva slíkt og leysa á farsælan hátt. Nemendum eru kennd góð samskipti frá unga aldri, m.a. í gegnum Uppeldi til ábyrgðar. Nemendur skulu hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að hjálpa og láta vita. Nemendum skal gert grein fyrir því að það að skilja kerfisbundið út undan og virða aðra ekki viðlits er einelti. Patreksskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju fyrir öllum.
Hvað er einelti?
Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einstaklingi sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis. Stríðni, átök og einstaka ágreiningur milli nemenda þarf ekki að teljast til eineltis. Það skiptir máli að um endurtekningu sé að ræða og að eineltið vari í lengri tíma. Það skiptir einnig máli að fórnarlambið stendur höllum fæti andspænis gerandanum. Það er ekki einelti þegar álíka sterkir einstaklingar kljást þó svo að það sé endurtekið í einhvern tíma.
Einelti birtist í mörgum myndum, það getur verið:
- Félagslegt einelti – barnið skilið útundan í leik, barnið þarf að þola svipbrigði, augngotur, þögn eða algert afskiptaleysi.
- Andlegt einelti – barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.
- Líkamlegt einelti – gengið er í skrokk á barninu.
- Munnlegt einelti – uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Hvíslast er á um barnið, flissað eða hlegið.Rafrænt einelti – Neikvæð og skaðleg skilaboð um eða til einhvers sem er komið áleiðis í gegnum: Tölvupóst, Facebook, SMS, YouTube, Spjallrásir. Teknar myndir og birtar á netinu eða sendar með síma.
Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem er lagður í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.
Hugsanlegar vísbendingar um einelti
Tilfinningalegar
- breytingar á skapi
- tíður grátur, viðkvæmni
- svefntruflanir, martraðir
- breyttar matarvenjur, lystarleysi-ofát
- lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði
- depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir
Líkamlegar
- líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur
- kvíðaeinkenni, t.d. nagar neglur, stamar, kækir ýmis konar
- líkamlegir áverkar, s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt
- rifin föt og/eða skemmdar eigur
Félagslegar
- virðist einangrað og einmana
- fer ekki í og fær ekki heimsóknir
- fáir eða engir vinir og barnið vill ekki taka þátt í félagsstarfi
Hegðun
- óútskýranleg skapofsaköst og /eða grátköst
- neitar að segja frá hvað amar að
- árásargirni og erfið hegðun
Í skóla
- hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið
- leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega
- mætir iðulega of seint eða byrjar að skrópa
- forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
- hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
- einangrar sig frá skólafélögum
- forðast að fara í frímínútur
Á heimili
- barnið neitar að fara í skólann
- dregur sig í hlé
- biður um auka vasapening
- týnir peningum og/eða öðrum eigum
- neitar að leika sér úti eftir skóla
- byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
- reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélaga eða aðra foreldra
- verður niðurdregið eða órólegt eftir frí
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Ávallt skal haft í huga að forvarnir og fyrirbyggjandi starf gegn einelti er stöðug vinna innan skólans. Til þess að fyrirbyggja einelti þarf samstillt átak og ábyrgð nemenda, forráðamanna og starfsmanna skólans. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um eineltismál og afleiðingar þeirra eru nauðsynlegar. Allir þurfa að deila ábyrgð, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða.
Helstu forvarnir:
- Skólinn setur sér ákveðin viðmið í samskiptum sem miða að því að allir starfsmenn skólans, nemendur og forráðamenn geti unnið eftir sömu gildum sem stuðla að jákvæðum samskiptum og góðum skólabrag.
- Nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýni tillitssemi, virðingu, ábyrgð, sveigjanleika og umburðarlyndi. Efli sjálfstraust og samkennd sem stuðlar markvisst að frekari þátttöku í lýðræðislegu samstarfi.
- Umsjónarkennari vinnur með nemendum þar sem bekkurinn setur bekkjarsáttmála. Haldin eru regluleg einstaklingsviðtöl þar sem líðan, samskipti og hegðun er rædd.
- Umsjónarkennari leggur árlega fyrir viðhorfskönnun um líðan nemenda. Unnið er markvisst úr niðurstöðum.
- Umsjónarkennari fer reglulega yfir eineltisáætlun skólans sem og skólareglur/samskiptareglur með sinum bekk.
- Fagkennarar og aðrir starfsmenn noti þau tækifæri sem gefast til að ræða og þjálfa mikilvægi góðra samskipta.
- Stuðlað markvisst að samvinnu heimilis og skóla.
- Umsjónarkennari hvetur til þess að forráðamenn hafi í huga viðmið varðandi afmælisboð og aðrar samkomur utan skóla.
- Eineltisáætlun skólans er vel kynnt og sýnileg á heimasíðu skólans.
- Virk gæsla í frímínútum, skólahúsi og í vettvangsferðum á vegum skólans.
- Skólinn nýti hinn árlega dag gegn einelti til þess að vekja athygli á mikilvægi góðra samskipta með það að markmiði að vinna gegn einelti.
- Eineltisteymi skólans hittist að hausti og gerir áætlun um forvarnir fyrir skólaárið og fundar reglulega.
- Eineltisáætlun skólans er kynnt í upphafi hvers skólaárs á starfsmannafundi þar sem hún er endurskoðuð og þau viðmið sem skólinn setur sér í samskiptum eru samræmd. Sú samræming er liður í forvörnum gegn einelti og öðru ofbeldi. Mikilvægt er að bjóða starfsmönnum reglulega upp á fræðslu um málaflokkinn.
- Niðurstöður úr könnunum eru nýttar í vinnu gegn einelti.
- Eineltisteymi skólans hittist að hausti og gerir áætlun um forvarnir fyrir skólaárið og fundar reglulega.
Aðgerðaáætlun
Tilkynning um einelti skal berast:
Ef grunur leikur á einelti skal tilkynna það til umsjónakennara eða skólastjórnenda sem kanna hvort grunurinn sé á rökum reistur.
Í skólanum er starfandi eineltisteymi sem í eiga sæti umsjónarkennarar og skólastjóri. Hlutverk eineltisteymisins er að halda utan um og stýra vinnslu þeirra eineltismála sem upp koma í skólanum. Enn fremur er teyminu ætlað að vera öðrum kennurum til ráðgjafar varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir hvað varðar einelti. Sálfræðingur skólans vinnur einnig með teyminu að úrlausn eineltismála eftir eðli málsins.
Ferlið: Þegar kvörtun, ábending eða tilkynning um einelti berst
- Teymið/nemendaverndarráð kemur saman og gerir verkáætlun. Íhlutun byggist á eðli og umfangi tilkynningarinnar og alvarleika hegðunarinnar sem lýst er. Aflað er frekari gagna, t.d. frá umsjónarkennara og öðrum sem kunna að þekkja til málsins.
- Samband er haft við foreldra meints geranda og aðra sem nefndir eru í eineltistilkynningunni. Þeir verða upplýstir um efni hennar og þeim boðið viðtal. Leitað verður frekari upplýsinga hjá aðilum og hlustað á þeirra sjónarmið.
- Umsjónarkennari metur umfang málsins með því að afla upplýsinga hjá þolanda, forráðamönnum hans, nemendum eða öðru starfsfólki.
- Umsjónarkennari setur aðra kennara þolandans inn í málið og gerir foreldrum grein fyrir málinu. Veitir upplýsingar um úrræði sem þeim standa til boða skv. eðli málsins, svo sem viðtöl við námsráðgjafa skólans, félagsráðgjafa- og sálfræðiþjónustu.
- Teknar eru ákvarðanir um aðgerðir sem tryggja öryggi tilkynnanda. Skólaliðar og annað starfsfólk er beðið um að fylgjast með málsaðilum í frímínútum, á göngum og í matsal ef þörf þykir.
- Teymið, í samráði við foreldra beggja aðila, leggur mat á frekari íhlutun/inngrip.
- Börnum sem hlut eiga að máli, aldri og kynnum af þeim
- Alvarleika kvörtunarinnar
- Hvort um sé að ræða nýtt mál
Valdar verða leiðir sem eru minnst íþyngjandi miðað við alvarleika kvörtunarinnar.
Í minna alvarlegum málum:
- Foreldrar tali við barn/börn sín, kennari/námsráðgjafi ræði við börn
- Fylgst verður með hegðun barnanna í bekknum/skólanum
- Skólinn og foreldrar hafa samráð um hvaða leiðir skulu farnar ef vísbendingar eru um að gamalt mál sé að taka sig upp
- Heimili og skóli skerpi á einstaka samskiptaþáttum við börnin á heimili og í skóla.
Úrvinnsla eineltismála
Úrvinnsla eineltismála felst í að hitta málsaðila og foreldra þeirra eins oft og nauðsynt krefst. Komið verður á eftirliti samhlið úrvinnslu málsins. Fulltrúi eineltisteymis fylgist með framvindu málsins og veitir hegðun og framkomu umræddra barna sérstaka athygli. Eftirfylgni er haldið áfram óháð því hvort
talið sé að eineltið hafi stöðvast.
Leitað verði að undirliggjandi orsakaþáttum hjá geranda til að tryggja að hann láti af hegðuninni til framtíðar
Markmið úrvinnslunnar er a.m.k. fjórþætt:
a) Að upplýsa málið
b) Stöðva eineltið
c) Styrkja þolanda og veita honum viðeigandi aðstoð
d) Leita orsaka hjá geranda, vinna með vanda hans og aðstæður
Í erfiðari málum er:
a) Haldið áfram með úrvinnslu eins lengi og þörf þykir
b) Rætt við aðra nemendur og vitni
c) Markvissari eftirfylgd og eftirlit með aðilum
d) Líðan þolanda könnuð daglega
e) Rætt við geranda (gerendur) daglega
f) Lagt mat á hvort leita þurfi utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar
Samhliða úrvinnslu huga skóli og foreldrar að öðrum þáttum s.s. hvernig forvörnum er háttað, hvernig samstarfi skóla og foreldra er háttað, hvort betrumbæta þurfi skólabrag og staðarmenningu.
Máli líkur með formlegum hætti.
Skipulögð er eftirfylgni og eftirlit í samráði við foreldra. Bekknum er veittur viðeigandi stuðningur.
Viðbragðsáætlun við einelti er endurskoðuð reglulega og endurbætt í samræmi við reynslu af fyrri eineltismálum.
Skref úrvinnslunnar
- Ef í ljós kemur að um einelti er að ræða eru ákveðin næstu skref.
- Ákvarðaðir eru meintir þolendur og gerendur og markmið sett. Teymið skiptir með sér verkum.
- Foreldrar gerenda eru boðaðir á fund hjá umsjónarkennara eða fulltrúa eineltisteymis sem fer yfir skriflega tilkynningu og lýsingu á eineltinu. Foreldrar þolanda eru upplýstir um framvindu málsins.
- Allir foreldrar í námshópnum fá upplýsingar um að eineltismál hafi komið upp og að vinna samkvæmt eineltisáætlun skólans sé komin í gang. Meta skal í samráði við þolanda og foreldra hans hvort nemendur námshópsins fái einnig þessar upplýsingar og hvort nafn þolanda sé gefið upp.
- Umsjónarkennari eða fulltrúi eineltisteymis tekur einstaklingsviðtöl við gerendur og þolendur þrisvar sinnum með viku millibili og svo á tveggja vikna millibili.
- Í þriðju vikunni hittast þolendur og gerendur á fundi hjá umsjónarkennari eða fulltrúi eineltisteymis ef það er talið henta framgangi málsins. Foreldrum er ávallt boðið að vera viðstaddir þessi viðtöl.
- Þolanda er boðið upp á sjálfstyrkingarviðtöl hjá námsráðgjafa í samráði við foreldra.
- Gerenda er boðið upp á sjálfstyrkingarviðtöl hjá námsráðgjafa í samráði við foreldra.
- Til greina kemur að eineltisteymis ræði við alla nemendur árgangsins í litlum hópum (3-4) en þar væri skoðuð staða hvers og eins í eineltinu og hvað þeir geta lagt af mörkum til að laga ástandið.
- Ákveðinn rammi og viðurlög eru sett upp gagnvart óviðunandi hegðun og eru allir kennarar og stuðningsfulltrúar í árgangi upplýstir um það sem í gangi er.
- Skólinn endurmetur hvort betrumbæta þurfi almennan skólabrag og stuðla að jákvæðari menningu með sérstökum aðgerðum, sérstaklega ef eineltistilkynningar eru tíðar.
- Umsjónarkennarar vinna með bekkjunum að bættum samskiptum. Krakkarnir læra um einelti, hvernig það birtist, hvaða aðferðum er beitt og hvaða tjóni það getur valdið. Umræður, hlutverkaleikir, myndbönd o.fl. er nýtt og krökkunum eru kenndar einfaldar leiðir til að bregðast við einelti verði þeir varir við það. Reynt er að efla færni nemenda til að velja rétta afstöðu og hjálpa þeim sem fyrir eineltinu verða. Námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur skólans taka þátt í þessu starfi ef það þykir henta.
- Þessi vinna skal ekki að taka meiri tíma en einn mánuð.
- Viðbragðsáætlun við einelti er endurskoðuð reglulega og endurbætt í samræmi við reynslu af fyrri eineltismálum.
Eftirfylgni
- Umsjónarkennari eða fulltrúi eineltisteymis hittir þolanda og geranda u.þ.b. mánuði eftir að vinnu lýkur og fylgir árangri eftir. Foreldrar geranda eru upplýstir um árangur.
- Fulltrúi eineltisteymis kallar teymið saman á fund. Farið er yfir hvernig gengið hefur og árangur skoðaður. Metið er hvort markmið hafi náðst og ákvarðanir teknar um framhaldið.
- Máli er lokað formlega í samráði við foreldra þolanda og geranda.
- Námsráðgjafi sendir skilaboð til allra aðila málsins um að því sé lokið. Fulltrúi skólastjóra sendir samsvarandi skilaboð til foreldra í árganginum, þar sem þeir eru upplýstir um að vinnu skv. eineltisáætlun sé lokið og hvernig árangur náðist. Nemendur eru einnig upplýstir um árangurinn hafi þeir fengið vitneskju um málið skv. 2. þrepi 3. lið.
- Nemendaverndarráð er upplýst um gang mála.
- Umsjónarkennarar eru áfram vakandi yfir þolendum og gerendum og fylgjast með samskiptunum í bekknum.
- Eftirfylgni með geranda/gerendum heldur áfram í 4-6 mánuði. Umsjónarkennari eða fulltrúi eineltisteymis fundar með geranda og eftir atvikum foreldrum og hann fær aðstoð með sinn persónulega vanda. Einnig er í september tekin staðan hjá þeim sem voru þolendur í eineltismálum veturinn áður.