Móttaka nýrra nemenda
Í grunnskólalögum (16.gr.) er kveðið á um að skólar skuli taka á móti nemendum sem eru að hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf. 16. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir m.a. að grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.
Móttaka nemenda eftir að skólastarf er hafið
Nemandi og foreldrar mæta hjá skólastjóra og innritast á formlegan hátt. Það er gert með því að fylla út rafrænt innritunarblað á heimasíðu Vesturbyggðar. Þeim er sýnt húsnæðið, nemandi hittir umsjónarkennara, fær stundaskrá, skóladagatal og ræðir ýmis hagnýt atriði. Ákveðið er hvenær nemandi mæti. Bekkurinn er undirbúinn en kennari getur skipað „leiðsögunemendur“ með nýja nemandanum, honum til aðstoðar fyrstu vikurnar.
Kennari hefur samband við fyrri umsjónarkennara nemanda til að afla frekari upplýsinga. Kennari sér um að upplýsingar um nýjan nemanda berist til faggreinakennara. Kennari hefur samband við heimilið fyrstu vikurnar til að fylgjast með aðlögun nemandans.
Ef um nemanda með fötlun er að ræða er móttaka hans undirbúin og skipulögð í samráði umsjónarkennara, deildarstjóra stoðþjónustu, skólastjóra og félagsþjónustu Vesturbyggðar.
Móttökuáætlun nemenda með annað móðurmál en íslensku
Til hóps innflytjenda teljast:
- þau börn sem hafa fæðst erlendis.
- börn sem eiga foreldra sem eru af erlendum uppruna.
- þau sem hafa dvalist langdvölum erlendis.
Forvinna fyrir móttökuviðtal
Ef von er á nemanda af erlendum uppruna í skólann, með annað móðurmál en íslensku hefur skólastjóri samband við foreldra og metur þörf á því að bjóða foreldrum til sérstaks móttökufundar. Skipuleggja þarf móttökuviðtalið og ákveða hverjir eigi að taka þátt í því og hver verkaskipting á að vera. Lykilatriði er að umsjónarkennari taki þátt í móttökuviðtalinu. Panta þarf túlkaþjónustu ef þörf er á henni. Foreldrum sem ekki tala eða skilja íslensku skal greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.
Móttökufundur
Á móttökufund mætir, auk skólastjórnanda, umsjónarkennari. Á fundinum er farið í gegnum ýmsar grunnupplýsingar um námið, skólastarfið, skólasamfélagið, grenndarsamfélagið og þá þjónustu sem boðið er upp á. Í þessu samhengi er bent á vefinn „íslenskt grunnskólaumhverfi“ https://eng.menntamalaraduneyti.is/education-in-iceland/Educational_system/
Áður en viðtalinu lýkur og fjölskyldunni er fylgt um skólann (og frístundaheimilið ef við á) er ákveðið hvenær nemandinn byrjar í skólanum og sagt frá því hvernig skólabyrjunin verður. Stuðningsfulltrúi er kynntur sérstaklega ef um hann er að ræða. Aflað er upplýsinga um bakgrunn og stöðu nemandans. Foreldrar eru beðnir um að hafa með sér upplýsingar um fyrri skólagöngu nemandans svo sem einkunnir og greiningar, heilbrigðisvottorð og bólusetningarvottorð. Æskilegt er að barnið hafi fengið kennitölu, en barn hefur rétt til skólagöngu meðan beðið er afgreiðslu kennitölunnar.
Innritun, upplýsingar og gögn
Markmið móttökuviðtalsins er tvíþætt annars vegar að afla upplýsinga um nemandann og hins vegar að veita upplýsingar um skólann þ.á.m. um hvað nemandinn skal hafa með í skólann, hvað foreldrar þurfa að útvega s.s. skólatösku, íþróttaföt, sundföt o.s.frv. um nesti, hádegismat, frístundastarf og foreldrafélagið, einnig um hvað skólinn útvegar eins og námsgögn.
Veita skal foreldrum upplýsingar um starfshætti skólans, skólareglur og hefðir, næringu og heilsu, samstarf skóla og skólaforeldra, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og annað íþrótta- og æskulýðsstarf á Patreksfirði. Einnig er mikilvægt að upplýsa foreldra um ábyrgð og skyldur foreldra í íslensku skólakerfi enda getur það verið gerólíkt því sem foreldrarnir hafa vanist. Loks skal upplýsa foreldra um viðbrögð við óveðri. Gera þarf ráð fyrir tíma til að kynna foreldrum Mentor og aðstoða við skráningu og eins Learncove.
Sjálfsagt er að hvetja móður eða föður til að vera með barni sínu í skólanum fyrstu dagana eins og þau hafa tækifæri til og best þykir henta. Þannig geta foreldrarnir stutt barnið sitt um leið og þeir kynnast því samfélagi sem á eftir að hafa svo mikil áhrif á barnið þeirra. Þá er gott að setja niður áætlun um það hvenær umsjónarkennarinn og foreldrar hittast næst og hvernig samskiptum muni best háttað. Mikilvægt er að skólinn og foreldar geri samkomulag um væntanlegt samskiptaform þar sem rætt er hvernig foreldrar og starfsfólk álíta heppilegast að eiga samskipti og hvaða leiðir henti best í samskiptum, þ.e. tölvupóstur, símtöl, bréf, samskiptabækur, fundir eða annað.
Menningarlegur stuðningur
Rétt er að árétta við foreldra að barnið/börnin hafi mikla þörf fyrir stuðning þeirra við tileinka sér nýja menningu og áherslur. Upplýsa þarf foreldra um hvað skólinn leggur að mörkum til að aðlögunin gangi sem best. Hvetja má foreldra til að halda íslensku sjónvarpsefni að börnum sínum og ekki síst að stuðla að því að börn þeirra taki virkan þátt í félags- og tómstundastarfi.
Fyrstu skrefin í skólanum
Huga þarf vel að undirbúningi og móttöku í bekknum. Félagsleg aðlögun skiptir sköpum varðandi líðan og nám nýja nemandans og það getur skapað mörg ný tækifæri að fá nýjan nemanda í bekkinn. Hvetja þarf alla starfsmenn skólans til að hafa sérstakt auga með nýja nemandanum, t.d. í frímínútum og íþróttum og styðja hann eftir þörfum. Jafnframt þarf að leita leiða til að foreldrar tengist foreldrasamfélaginu.
Hlutverk umsjónarkennara er mikilvægt varðandi nám, félagstengsl og samstarf við foreldra. Nemendur með annað móðurmál en íslensku þurfa í upphafi námsins að vera með einstaklingsáætlun sem byggir á stöðumati. Hægt er að nota málkönnunarpróf í íslensku sem gott er að styðjast við til að meta kunnáttu og skilning nemandans í íslensku sem öðru máli. Niðurstöðuna er hægt að leggja til grundvallar við gerð einstaklingsáætlunar.
Nauðsynlegt er að byrja á að kenna og þjálfa nemandann í almennum orðaforða og samskiptum á íslensku og innleiða einnig eftir bestu getu skólamál og flóknari hugtök í námsbókum en nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.
Foreldrasamstarf
Góð samvinna heimilis og skóla hefur afgerandi þýðingu fyrir námsframvindu og líðan nemanda. Þetta á ekki síst við um fjölskyldur sem koma úr framandi menningarsamfélagi. Í sumum þjóðfélögum er lítil hefð fyrir samstarfi skóla og foreldra. Skólinn þarf því að leggja ríka áherslu á að ávinna sér traust foreldra og stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu.
Meðal þess sem getur skilað góðum árangri er að hvetja foreldra til að taka þátt í aðlögun barns síns að skólanum, m.a. með því að vera með barninu í skólanum fyrstu dagana og kynnast því starfi sem þar fer fram. Skólinn ætti að leita allra leiða til að vekja áhuga foreldra á að koma í skólann og kynnast starfinu sem virkir þátttakendur. Það ætti líka að hvetja bekkjarfulltrúa til að leggja sérstaka áherslu á að bjóða foreldrana og barnið velkomin í samfélagið.
Það skiptir miklu máli að skóli og foreldrar komi sér saman um hvernig best hentar að eiga samstarf og deila upplýsingum. Aldrei ætti að láta börn túlka fyrir foreldra sína. Þegar senda þarf skriflegar upplýsingar á heimili þar sem er lítil eða engin íslenskukunnátta er stundum hægt að styðjast við myndmál og einnig getur Google translate og önnur netforrit komið að notum.