Skólareglur og skýr mörk
Samskipta- og umgengnisreglur þessar eru grundvallaðar á leiðarljósi Patreksskóla en einnig hugmyndafræði uppbyggingarstefnunnar sem kennd er við Diane Gossen. Jafnréttisáætlun skólans er einnig lögð til grundvallar í skólastarfinu. Uppbyggingarstefnan byggir á kenningum um hæfni einstaklings til sjálfstjórnar, hæfni hans til að tengja saman persónuleg lífsgildi og þann veruleika sem hann býr við. Hún kennir sjálfstjórn, sjálfsaga og eflir hæfni hans til að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Lögð er áhersla á að byggja einstaklinginn upp, að hann þekki þarfir sínar og uppfylli þær án þess að skaða aðra.
Markmið skólareglna er að skapa góðan skólabrag og jákvæð og uppbyggileg samskipti og allir nemendur geti notið hæfileika sinna og séu öruggir í starfi skólans. Skólareglur þessar eru hluti af stefnu Patreksskóla í umgengi og samskiptum. Þær gilda í öllu kennslusvæði skólans, á skólalóð, í ferðalögum og á viðburðum sem skólinn stendur fyrir.
Gildi
Í Patreksskóla er stuðlað að jákvæðum skólabrag þar sem unnið er með sameiginlega sýn að leiðarljósi sem felst einkum í eftirfarandi gildum:
Jákvæðni. Við erum jákvæð og bjartsýn og höfum gleðina að leiðarljósi. Við stuðlum að góðum skólabrag.
Virðing. Við erum skilningsrík, umburðarlynd og hreinskilin og gætum ávalt trúnaðar. Við líðum ekki fordóma. Við berum virðingu hvert fyrir öðru.
Samvinna. Við erum samhent og eflum hvert annað. Við viljum jafnrétti og lýðræðisleg vinnubrögð. Við vinnum saman að lausn verkefna.
Markmið
Markmið með skólareglum þessarar er að:
- nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öryggir í öllu starfi á vegum skólans,
- stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti,
- allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag, þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru leiðarljós,
- stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti og stuðla að gagnkvæmu trausti allra aðila í skólasamfélaginu, gagnkvæmri virðingu, samábyrgð, kurteislegri framkomu og tillitssemi,
- haldið sé uppi námsaga þar sem tekið er tillit til þarfa nemenda, þroska og hæfni þeirra, með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi,
- hver grunnskóli setji sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum, að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda.
(Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040)
Almennar umgengnisreglur
Við berum ábyrgð á eigin hegðun og framkomu
- Við göngum snyrtilega um og stuðlum að sjálfbærni í skólanum okkar. Allir borða hádegismatinn sinn í matsalnum.
- Heimilt er að vera í snjókasti á afmörkuðu svæði á körfuboltavellinum milli bygginga.
- Við truflum ekki kennslustundir hjá öðrum þegar þeir eru ekki í tíma.
Við klæðumst hvorki yfirhöfnum né útiskóm í starfinu innandyra
- Gengið er frá skóm og yfirhöfnum á viðeigandi stöðum.
Við sýnum ábyrgð við notkun snjalltækja og leggjum þau til hliðar við upphaf kennslustunda
- Við sýnum ábyrgð við notkun snjalltækja og leggjum þau til hliðar við upphaf kennslustunda
- Snjallsímanotkun í kennslustundum er háð leyfi kennara.
- Tæki í eigu nemanda er alfarið á hans ábyrgð
Við ástundum heilbrigðar lífsvenjur, snæðum holla fæðu og hreyfum okkur reglulega
- Við höfnum neyslu ávanabindandi efna svo sem tóbaks, nikótíns, áfengis og fíkniefna.
- Skólanesti á að vera hollt og gott og í takt við leiðbeiningar embættis landlæknis sem er að finna hérna. Mælst er til að foreldrar sendi börn sín í skólann með fjölnota umbúðir (forðast fernur og plastpoka).
- Nemendum er ekki leyfilegt að neyta sælgætis eða gosdrykkkja í skólanum nema með sérstöku leyfi kennara.
Við mætum stundvíslega í skólann og stundum nám af kappi í kennslustundum
- Góð ástundun er ávísun á að nemandi nái sínu besta úr skólagöngu sinni. Ætlast er til þess að nemendur í 1.-7. bekk séu í skólabyggingunni eða á skólalóð á skólatíma og það er óheimilt yfirgefa skólalóð á skólatíma án leyfis. Undanskildar eru ferðir í íþróttahús, sundlaug og vettvangsferðir.
Reiðhjól og hjólatæki
- Reiðhjól og önnur hjólaleiktæki eru alfarið á ábyrgð nemenda og forráðamanna þeirra, einnig er það á ábyrgð forráðamanna að nemendur noti viðeigandi öryggisbúnað. Nemendur eiga að nota hjálm komi þeir á reiðhjólum eða hjólaleiktækjum í skólann. Ekki er leyfilegt að nota hjólatæki á skólalóð á skólatíma.
Viðbrögð við brotum á skólareglum
Í Patreksskóla setjum við skýr mörk á milli þeirrar hegðunar sem er æskileg og þeirrar hegðunar sem ekki er hægt að sætta sig við. Allir geta gert mistök í hegðun, umgengni og samskiptum. Það gildir um nemendur og starfsmenn Patreksskóla. Mistök er hægt að leiðrétta en besta leiðin til að vinna sig úr vanda er að:
- Viðurkenna þau mistök sem orðið hafa
- Gera áætlun um að leiðrétta þau
- Læra þannig betri leið sem nýtist viðkomandi ef upp koma svipaðar aðstæður aftur
Nemendur geta valið leið til lausnar ef hegðun þeirra reynist óásættanleg. Í Patreksskóla viljum við vinna agamál á þann hátt að allir aðilar komi sem sterkastir frá samskiptum, tilbúnir að líta í eigin barm og ná betri stjórn á eigin hegðun.
Óásættanleg hegðun:
Nemandi fær val um tvær leiðir til lausnar á málum sínum:
Leið 1: Hann getur valið um að fara milda og árangursríka leið og velja uppbyggingu með því að ná sáttum.
Leið 2: Hann velur að taka skilgreindum afleiðingum gjörða sinna—viðurlögum
Leið 1 – Árangursrík leið til lausnar, uppbygging
Nemandinn velur að fara milda og árangursríka leið til lausnar ef hegðun þeirra reynist óásættanleg. Hann velur uppbyggingu með því að ná sáttum. Besta leiðin til að vinna sig út úr vanda er að viðurkenna þau mistök sem orðið hafa, gera áætlun um að leiðrétta þau og læra þannig betri leið sem nýtist viðkomandi við svipaðar aðstæður. Ef nemandi heldur uppteknum hætti, ræðir viðkomandi kennari frekar við nemandann við fyrsta tækifæri um leiðir að lausn og gerir með honum áætlun til uppbyggingar.
Ferli agamála í kennslustund
Fyrstu mistök:
- Kennari áminnir nemanda og gefur honum tækifæri til að ná stjórn á eigin hegðun og leiðrétta mistök sín (finna betri leið sem bætir hegðun, sættir sjónarmið og nýtir „stutt inngrip“).
- Ef nemandi heldur uppteknum hætti, ræðir viðkomandi kennari frekar við nemandann um leiðir að lausn við fyrsta tækifæri og gerir með honum áætlun til uppbyggingar. Áætlunin er skráð ásamt málsatvikum samkvæmt lýsingu.
- Viðkomandi kennari fylgir uppbyggingaráætluninni eftir með viðtali/viðtölum eftir atvikum.
Endurtekin óásættanleg hegðun í kennslustundum:
- Nemandi er látinn róa sig og viðkomandi kennari gengur frá uppbyggingaráætlun með honum við fyrsta tækifæri.
Inngrip vegna hættuástands:
- Ástand metið. Nemendum og starfsfólki forðað frá hættu. Kallað eftir aðstoð. Leið 2 farin strax.
Skráning fari fram skv. 13. og 14. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Reglugerðina er að finna hérna.
Á göngum skólans, skólasafni, mötuneyti, íþróttamannvirkjum og á skólalóð:
- Starfsmenn skólans gefa nemanda tækifæri til að bæta hegðun sína með „stuttu inngripi“
- Haldi nemandinn uppteknum hætti og sýni neikvæða hegðun áfram vísar starfsmaður honum til umsjónakennara sem gerir uppbyggingaráætlun með nemandanum og viðkomandi starfsmanni við fyrsta tækifæri
- Þeir sem hlut eiga að máli fá upplýsingar um áætlun nemandans
- Áætluninni er fylgt eftir með viðtali/viðtölum hjá umsjónarkennara
Leið 2 – Nemandi þiggur ekki tilboð um að gera uppbyggingaráætlun
Ef nemandi þiggur ekki tilboð um að gera uppbyggingaráætlun er málum vísað til umsjónarkennara sem ákvarðar framhaldið. Í flestum tilvikum er boðað sem fyrst til fundar með foreldrum viðkomandi nemanda. Þá taka oftast við aðgerðir sem byggja ekki á sjálfstjórn nemanda heldur skilyrðum og eftirliti.
Dæmi um úrræði þegar nemendur geta ekki eða vilja ekki leiðrétta hegðun sína og snúa sterkari til starfa á ný:
- Gerður samningur með skilyrðum
- Nemanda er boðin aðstoð náms- og starfsráðgjafa
- Tilvísun í sérúrræði
- Tilvísun til skólasálfræðings (með samþykki foreldra/forráðamanna)
- Teymisfundur með öllum kennurum viðkomandi nemanda
- Stundaskrá nemanda skert (tímabundið)
- Reglulegir stöðufundir með umsjónarkennara/foreldrum
- Vísað til farsældarráðs
- Foreldrar fylgja nemanda í kennslustundum
- Sérstakt eftirlit í frímínútum
- Brottvísun úr tíma og foreldri sækir nemanda. Nemandi mætir ekki aftur hjá viðkomandi kennara fyrr en að afloknum fundi þar sem leitað er eftir samstarfi við foreldra og nemanda um leiðrétta hegðun í skólastarfinu
- Brottvísun um stundarsakir. Þegar um brottvísun um stundarsakir er að ræða vegna ítrekaðra brota á skólareglum er unnið skv. 12. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum sem er að finna hérna.
Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda
Nemendur skulu sækja grunnskóla nema veikindi eða önnur forföll hamli.
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska þeirra.
Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum.