Viðbragðsáætlun og verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna
Tilkynningarskylda sem hvílir á starfsmönnum skóla samkvæmt barnaverndarlögum
1.mgr. 17.gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002:
Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna eða barnshafandi einstaklinga og verður var við aðstæður eins og lýst er i 16. gr. (Ef ætla má að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu) er skylt að tilkynna það barnaverndarþjónustu. Skv. 2. mgr. 17. gr. er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagforeldrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, náms- og starfsráðgjöfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf sérstaklega skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarþjónustu viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglum um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
Til áréttingar varðandi 17. gr. Barnaverndarlaga:
- Tilkynningarskylda skv. 3. mgr. 17. gr. barnaverndarlaga gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
- Samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga um tilkynningarskyldu almennings er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef grunur er um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barns. Getur starfsfólk skóla því tilkynnt atvik sem almenningur, ef um er að ræða atvik utan skóla. Almenningur getur óskað eftir nafnleynd.
Skilgreiningar á ofbeldi gagnvart börnum, vanrækslu og áhættuhegðun
Hvað er vanræksla?
Vanræksla getur verið bæði líkamleg og andleg. Vanræksla gagnvart barni er skilgreind sem ítrekaður skortur á nauðsynlegri athöfn, sem leiðir til skaða eða er líklegur til að leiða til skaða á þroska barnsins. Líkamleg vanræksla getur þýtt að barnið fái ekki þá umönnun og aðbúnað sem það þarfnast til að dafna og getur stefnt heilsu þess og þroska í hættu. Þegar umönnun og/eða aðbúnaði barns er endurtekið ábótavant telst það sem vanræksla. Sem dæmi má nefna að:
- Vanræksla getur falist í því að líkamlegar þarfir barns eru ekki uppfylltar.
- Vanræksla getur stafað af því að foreldrar eru ófærir um að sinna þörfum barnsins vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu.
- Vanræksla getur snúið að skorti á umsjón og eftirliti með barninu, t.d. ef barn er skilið eftir eitt og eftirlitslaust án þess að hafa aldur eða þroska til.
- Vanræksla getur varðað skólagöngu barns, t.d. ef barn kemur ítrekað í skólann án nauðsynlegs aðbúnaðar og ábendingar til foreldra bera ekki árangur.
Hvað er líkamlegt ofbeldi?
Ofbeldi gagnvart barni er skilgreint sem athöfn af hálfu foreldris, umönnunaraðila eða annars aðila, sem leiðir til þess að barnið skaðast eða er líklegt til þess að skaðast líkamlega. Líkamlegt ofbeldi á sér stað þegar barn er meitt viljandi á einhvern hátt eða þegar ofbeldi er beitt á óbeinan hátt. Líkamleg ummerki þurfa ekki alltaf að vera sjáanleg en líkamlegt ofbeldi gegn börnum varðar við lög. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að:
- Það er líkamlegt ofbeldi þegar barn er slegið, þegar barn er hrist, þegar barni er hent til, þegar barn er brennt eða þegar barn er bundið.
- Það er líkamlegt ofbeldi ef barni eru viljandi gefin hættuleg lyf eða annað sem getur skaðað það.
- Það er ofbeldi ef framkvæmdar eru ónauðsynlegar, sársaukafullar eða óafturkræfar aðgerðir á barni.
- Líkamlegar refsingar barna varða við barnaverndarlög.
Hvað er andlegt ofbeldi?
Það getur reynst flókið að greina andlegt ofbeldi en það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir barnið, ekki síður en líkamlegt ofbeldi. Það telst andlegt ofbeldi ef foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar sýna barni viðvarandi og endurtekið neikvætt viðhorf og neikvæðar tilfinningar sem kemur í veg fyrir þróun jákvæðrar sjálfsmyndar barns. Þá er mikilvægt að muna að:
- Það er andlegt ofbeldi ef barn verður vitni að ofbeldi milli aðila sem eru nánir barninu.
- Algjört aðgerðarleysi gagnvart barninu er andlegt ofbeldi, eins og að sýna barninu engar tilfinningar.
- Viðhorf eða hegðun sem segir að barnið sé einskis virði, að engum þyki vænt um það eða enginn vilji sjá það er andlegt ofbeldi.
- Það er andlegt ofbeldi þegar barn er móðgað, kallað ónöfnum eða komið er fram við það á ómanneskjulegan eða niðrandi hátt.
Hvað er kynferðislegt ofbeldi?
Kynferðislegar athafnir gagnvart barni eru kynferðislegt ofbeldi, enda getur barn undir kynferðislegum lögaldri ekki gefið upplýst samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum sökum ungs aldurs og þroska. Það á einnig við þegar kynferðislegum orðum eða myndum er beint að barni. Má þar nefna sem dæmi:
- Barn er látið horfa á klámefni eða kynfæri eða myndir teknar af barni í þeim tilgangi að örva kynferðislega.
- Barni eru sýndar kynferðislegar myndir, kynferðislegum orðum beint að því, einnig þegar barn verður fyrir kynferðislegri áreitni á rafrænan hátt, til dæmis á samfélagsmiðlum.
- Kynfæri barns snert eða barn látið snerta á kynfærum einhvers.
- Samfarir við barn.
Hvað er áhættuhegðun barns?
Það er áhættuhegðun þegar barn hegðar sér á einhvern þann hátt sem skaðar það eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska eða hegðun barns hefur skaðleg áhrif á umhverfi barnsins eða aðra einstaklinga. Má þar nefna sem dæmi:
- Neysla áfengis, vímuefna og annarra efna sem eru hættuleg heilsu og þroska barns.
- Barn skaðar sjálft sig með því að veita sér áverka.
- Barn stundar afbrot t.d. skemmdarverk eða fer ekki eftir lögbundnum útivistartíma barna.
- Barn neytir koffíndrykkja í slíku magni að það getur haft slæm heilsufarsleg áhrif og koffínneysla fer yfir heilsuverndarviðmið.
- Barn á í erfiðleikum í skóla þrátt fyrir aðstoð foreldra.
- Barn beitir aðra ofbeldi.
Einkenni og afleiðingar ofbeldis:
Einkenni og afleiðingar ofbeldis eru ekki alltaf sýnilegar, rétt eins og áverkar eru ekki alltaf sýnilegir. Einkenni og afleiðingar geta einnig verið mjög mismunandi eftir aldri barns, sem verður fyrir ofbeldinu, viðbrögðum við ofbeldinu og hvaða stuðning barnið fær eftir áfallið. Kynferðisofbeldi í æsku getur haft alvarlegar og langvarandi líkamlegar, sálfræðilegar og félagslegar afleiðingar. Þrátt fyrir ólík einkenni ofbeldis á börn eru þó nokkur einkenni sem gott er að hafa í huga og vera meðvituð um:
- Árásargjörn hegðun, barn á erfitt með að hemja skap sitt.
- Dregur sig í hlé frá vinum og fjölskyldu.
- Svefnvandamál og martraðir.
- Aukinn orðaforði um kynfæri.
- Kvartar yfir sársauka, pirringi og/eða sýkingar eru á eða við kynfæri.
- Áverkar eru sýnilegir á kynfærum.
- Barnið vill ekki vera skilið eitt eftir með ákveðnum einstaklingum.
- Barnið sýnir kynferðislega hegðun gagnvart leikföngum, öðrum börnum eða í teikningum.
- Barnið er farið að gera aftur hluti sem það er vaxið upp úr eins og að pissa á sig, gráta eða vera mjög háð þeim sem þau treysta.
Mikilvægt er að muna að einkenni barna eftir ofbeldi eru einnig mismunandi eftir aldri og þroska þeirra. Hjá eldri börnum og unglingum eru einkennin oft:
- Erfiðleikar í skóla og vinnu.
- Afbrot og andfélagsleg hegðun.
- Áfengis- og vímuefnanotkun.
- Erfiðleikar með persónulegar skuldbindingar eins og ástarsambönd.
- Sjálfsvígshugsanir.
- Ofbeldi gegn ástvini.
Mikilvægt er að muna að langflestir sem brjóta kynferðislega gegn börnum eru einstaklingar sem eru tengdir börnunum fjölskylduböndum eða eru að öðru leyti kunnugir þeim; vinir eða kunningjar foreldra þeirra eða jafnvel foreldrar vina þeirra. Í einhverjum tilfellum eru gerendur líka börn en rannsóknir hafa sýnt að nær helmingur kynferðisbrota gegn börnum eru framin af öðrum börnum.
Barnavernd
Starfsmanni ber:
- Að gæta fyllstu hlutlægni, vanda störf sín og beita faglegum vinnubrögðum.
- Að sjá til þess að mál fari réttan farveg innan stofnunar.
- Að sýna börnum, foreldrum/forráðamönnum og öðrum sem tengjast máli fyllstu nærgætni.
- Að gæta trúnaðar.
- Að halda skráningu um það sem geta verið vísbendingar um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barns.
-
Hlutverk starfsfólks
Ef barn eða ungmenni leitar til starfsmanns
Barn eða ungmenni gefur í skyn að ofbeldi eða vanræksla eigi sér stað á heimili eða annars staðar er mikilvægt að starfsmaður sýni viðeigandi framkomu.
Starfsmaður þarf að átta sig á að barnið sýnir honum mikið traust. Honum ber að halda ró sinni og gæta að réttum vinnubrögðum. Mikilvægt er að hlusta á það sem barnið segir og án þess að trufla frásögn. Gott er að nota setningar eins og:
- Takk fyrir að treysta mér og segja mér frá þessu.
- Viltu segja eitthvað meir?
- Ég ætla að hjálpar þér.
Ef barnið vill ekki tjá sig meira á ekki að beita það þrýstingi. Segja verður barni að réttir aðilar þurfi að vita af málinu svo hægt sé að hjálpa því.
Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferðislegt eða líkamlegt, er mikilvægt að hlusta á barnið og taka við þeim upplýsingum sem það gefur án þess að spyrja leiðandi spurninga. Leiðandi spurningar geta haft áhrif á framvindu máls hjá lögreglu.
Sé barn með sýnilega áverka eða segi frá ofbeldi skal samstundis hafa samband við stjórnanda viðkomandi stofnunar. Stjórnandi hefur samband við starfsmann barnaverndar hjá Vesturbyggð. Stjórnandi tilkynnir mál til félagsþjónustu.
Ef grunur er um óviðunandi aðstæður, vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barna
Mikilvægt er að starfsmaður sýni varfærni í samræðum við barn eða ungmenni og komi málinu í réttan farveg.
Koma á upplýsingum til stjórnanda. Það er á ábyrgð stjórnanda að tilkynna til félagsþjónustu Vesturbyggðar. Hlutverk félagsþjónustu er að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um slíkt gilda.
Í tilvikum þar sem vanræksla eða áhættuhegðun barns hefur varað lengi og ekki lagast, þrátt fyrir ábendingar til foreldra, skal tilkynna málið til félagsþjónustu Vesturbyggðar.
Ef grunur er um að foreldri eða einstaklingur sem sækir barn í skóla/stofnun sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna
Leita skal til stjórnanda og vísa viðkomandi til hans. Þar á að láta viðkomandi vita að starfsfólk gruni foreldri /einstakling sem sækir um að vera undir áhrifum áfengis eða vímuefna og ekki sé rétt að hann fari með barnið.
Koma skal í veg fyrir að viðkomandi fari með barn ef talið er að barninu sé hætta búin. Stjórnandi hringir í lögreglu í síma 112 og óskar eftir aðstoð ef þörf er á.
Stjórnandi tilkynnir málið til félagsþjónustu.
Ef grunur er um að starfsmaður beiti ofbeldi, sýni óviðeigandi hegðun eða sé undir áhrifum lyfja, fíkniefna eða áfengis.
Leita skal til stjórnanda sem vinnur í samræmi við verklagsreglur stofnunar.
Stjórnandi tilkynnir málið til félagsþjónustu eða eftir atvikum hefur samband við lögreglu eða 112.
-
Skráning málsatvika
Mikilvægt er að starfsfólk skrái eins fljótt og auðið er málsatvik og samtöl vegna hugsanlegrar tilkynningar. Hver stofnun þarf að hafa skýrt verkferli um skráningar (hver skráir, hvar skal skrá o.s.frv.) og huga í því sambandi að trúnaði og persónuvernd.
-
Hvert á starfsmaður að leita?
Starfsmaður skal leita til stjórnanda.
Ef ekki næst í stjórnanda og barn er í hættu, skal tilkynna beint til félagsmálastjóra í síma 450 2300 eða í síma 112 og láta stjórnanda vita síðar.
Ef starfsmaður telur sig ekki getað leitað til stjórnanda er honum bent á að hafa samband við fjölskyldusvið Vesturbyggðar í síma 450 2300.
-
Tilkynning
Stjórnandi tilkynnir mál til félagsþjónustu Vesturbyggðar.
Tilkynningareyðublað er á vef Vesturbyggðar undir: Þjónusta / Velferð / Barnavernd
Ef neyðaratvik koma upp utan skrifstofutíma eða um helgar er hægt að hafa samband við bakvakt barnaverndar í síma 112. Á það við um mál sem geta ekki beðið eftir opnun á skrifstofutíma og bregðast þarf strax við.
Ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013 sem lúta að vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun barna og greinar úr barnaverndarlögum nr. 80/2002:
- Samkvæmt 19. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013 eiga börn rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis.
- Samkvæmt 27. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013 eiga börn rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og bera foreldrar höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna. Aðildarríki skulu tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð og stuðningsúrræði ef þörf krefur. Jafnframt skulu aðildarríkin tryggja hverju barni innheimtu framfærslulífeyris frá þeim sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkomandi býr innanlands eða í útlöndum.
- Samkvæmt 34. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013 eiga börn rétt á vernd gegn hvers kyns kynferðislegu ofbeldi, s.s. þátttöku í hvers kyns kynferðislegri háttsemi, vændi eða klámi.
- Samkvæmt 39. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013 skal tryggt að börn sem sætt hafa vanrækslu, misnotkun, grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða eru fórnarlömb átaka fái viðeigandi meðferð til að ná bata og aðlagast samfélaginu.
- Samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber öllum að tilkynna til barnaverndar ef grunur leikur á að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu.
- Samkvæmt 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2000 ber öllum þeim sem starfa við málefni barna að tilkynna til barnaverndar vakni grunur um að barn sé beitt hverskyns ofbeldi, búi við vanrækslu eða sýni af sér áhættuhegðun.
- Samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2000 njóta stofnanir ekki nafnleyndar við tilkynningu til barnaverndar og er tilkynning ávallt í nafni stofnunar eða félags en ekki einstakra starfsmanna.