Viðbragðs­áætlun og verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættu­hegðun barna

Tilkynn­ing­ar­skylda sem hvílir á starfs­mönnum skóla samkvæmt barna­vernd­ar­lögum

1.mgr. 17.gr. barna­vernd­ar­laga, nr. 80/2002:

Tilkynn­ing­ar­skylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna eða barns­haf­andi einstak­linga og verður var við aðstæður eins og lýst er i 16. gr. (Ef ætla má að barn búi við óvið­un­andi uppeld­is­skil­yrði, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirð­andi hátt­semi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvar­lega hættu) er skylt að tilkynna það barna­vernd­ar­þjón­ustu. Skv. 2. mgr. 17. gr. er leik­skóla­stjórum, leik­skóla­kenn­urum, dagfor­eldrum, skóla­stjórum, kenn­urum, prestum, læknum, tann­læknum, ljós­mæðrum, hjúkr­un­ar­fræð­ingum, sálfræð­ingum, félags­ráð­gjöfum, þroska­þjálfum, náms- og starfs­ráð­gjöfum og þeim sem hafa með höndum félags­lega þjón­ustu eða ráðgjöf sérstak­lega skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barna­vernd­ar­þjón­ustu viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynn­ing­ar­skylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siða­reglum um þagn­ar­skyldu viðkom­andi starfs­stétta.

Til árétt­ingar varð­andi 17. gr. Barna­vernd­ar­laga:

  • Tilkynn­ing­ar­skylda skv. 3. mgr. 17. gr. barna­vernd­ar­laga gengur framar ákvæðum laga eða siða­reglna um þagn­ar­skyldu viðkom­andi starfs­stétta.
  • Samkvæmt 16. gr. barna­vernd­ar­laga um tilkynn­ing­ar­skyldu almenn­ings er öllum skylt að tilkynna til barna­vernd­ar­þjón­ustu ef grunur er um ofbeldi, vanrækslu eða áhættu­hegðun barns. Getur starfs­fólk skóla því tilkynnt atvik sem almenn­ingur, ef um er að ræða atvik utan skóla. Almenn­ingur getur óskað eftir nafn­leynd.

Skilgreiningar á ofbeldi gagnvart börnum, vanrækslu og áhættuhegðun

Hvað er vanræksla?

Vanræksla getur verið bæði líkamleg og andleg. Vanræksla gagn­vart barni er skil­greind sem ítrek­aður skortur á nauð­syn­legri athöfn, sem leiðir til skaða eða er líklegur til að leiða til skaða á þroska barnsins. Líkamleg vanræksla getur þýtt að barnið fái ekki þá umönnun og aðbúnað sem það þarfnast til að dafna og getur stefnt heilsu þess og þroska í hættu. Þegar umönnun og/eða aðbúnaði barns er endur­tekið ábóta­vant telst það sem vanræksla. Sem dæmi má nefna að:

  • Vanræksla getur falist í því að líkam­legar þarfir barns eru ekki uppfylltar.
  • Vanræksla getur stafað af því að foreldrar eru ófærir um að sinna þörfum barnsins vegna áfengis- og/eða vímu­efna­neyslu.
  • Vanræksla getur snúið að skorti á umsjón og eftir­liti með barninu, t.d. ef barn er skilið eftir eitt og eftir­lits­laust án þess að hafa aldur eða þroska til.
  • Vanræksla getur varðað skóla­göngu barns, t.d. ef barn kemur ítrekað í skólann án nauð­syn­legs aðbún­aðar og ábend­ingar til foreldra bera ekki árangur.

Hvað er líkam­legt ofbeldi?

Ofbeldi gagn­vart barni er skil­greint sem athöfn af hálfu foreldris, umönn­un­ar­aðila eða annars aðila, sem leiðir til þess að barnið skaðast eða er líklegt til þess að skaðast líkam­lega. Líkam­legt ofbeldi á sér stað þegar barn er meitt vilj­andi á einhvern hátt eða þegar ofbeldi er beitt á óbeinan hátt. Líkamleg ummerki þurfa ekki alltaf að vera sjáanleg en líkam­legt ofbeldi gegn börnum varðar við lög. Þá er nauð­syn­legt að hafa í huga að:

  • Það er líkam­legt ofbeldi þegar barn er slegið, þegar barn er hrist, þegar barni er hent til, þegar barn er brennt eða þegar barn er bundið.
  • Það er líkam­legt ofbeldi ef barni eru vilj­andi gefin hættuleg lyf eða annað sem getur skaðað það.
  • Það er ofbeldi ef fram­kvæmdar eru ónauð­syn­legar, sárs­auka­fullar eða óaft­ur­kræfar aðgerðir á barni.
  • Líkam­legar refs­ingar barna varða við barna­vernd­arlög.

Hvað er andlegt ofbeldi?

Það getur reynst flókið að greina andlegt ofbeldi en það getur haft mjög alvar­legar afleið­ingar fyrir barnið, ekki síður en líkam­legt ofbeldi. Það telst andlegt ofbeldi ef foreldrar eða aðrir umönn­un­ar­að­ilar sýna barni viðvar­andi og endur­tekið neikvætt viðhorf og neikvæðar tilfinn­ingar sem kemur í veg fyrir þróun jákvæðrar sjálfs­myndar barns. Þá er mikil­vægt að muna að:

  • Það er andlegt ofbeldi ef barn verður vitni að ofbeldi milli aðila sem eru nánir barninu.
  • Algjört aðgerð­ar­leysi gagn­vart barninu er andlegt ofbeldi, eins og að sýna barninu engar tilfinn­ingar.
  • Viðhorf eða hegðun sem segir að barnið sé einskis virði, að engum þyki vænt um það eða enginn vilji sjá það er andlegt ofbeldi.
  • Það er andlegt ofbeldi þegar barn er móðgað, kallað ónöfnum eða komið er fram við það á ómann­eskju­legan eða niðr­andi hátt.

Hvað er kynferð­is­legt ofbeldi?

Kynferð­is­legar athafnir gagn­vart barni eru kynferð­is­legt ofbeldi, enda getur barn undir kynferð­is­legum lögaldri ekki gefið upplýst samþykki fyrir kynferð­is­legum athöfnum sökum ungs aldurs og þroska. Það á einnig við þegar kynferð­is­legum orðum eða myndum er beint að barni. Má þar nefna sem dæmi:

  • Barn er látið horfa á klám­efni eða kynfæri eða myndir teknar af barni í þeim tilgangi að örva kynferð­is­lega.
  • Barni eru sýndar kynferð­is­legar myndir, kynferð­is­legum orðum beint að því, einnig þegar barn verður fyrir kynferð­is­legri áreitni á rafrænan hátt, til dæmis á samfé­lags­miðlum.
  • Kynfæri barns snert eða barn látið snerta á kynfærum einhvers.
  • Samfarir við barn.

Hvað er áhættu­hegðun barns?

Það er áhættu­hegðun þegar barn hegðar sér á einhvern þann hátt sem skaðar það eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska eða hegðun barns hefur skaðleg áhrif á umhverfi barnsins eða aðra einstak­linga. Má þar nefna sem dæmi:

  • Neysla áfengis, vímu­efna og annarra efna sem eru hættuleg heilsu og þroska barns.
  • Barn skaðar sjálft sig með því að veita sér áverka.
  • Barn stundar afbrot t.d. skemmd­ar­verk eða fer ekki eftir lögbundnum útivist­ar­tíma barna.
  • Barn neytir koff­índrykkja í slíku magni að það getur haft slæm heilsu­farsleg áhrif og koff­ínn­eysla fer yfir heilsu­vernd­ar­viðmið.
  • Barn á í erfið­leikum í skóla þrátt fyrir aðstoð foreldra.
  • Barn beitir aðra ofbeldi.
Einkenni og afleið­ingar ofbeldis:

Einkenni og afleið­ingar ofbeldis eru ekki alltaf sýni­legar, rétt eins og áverkar eru ekki alltaf sýni­legir. Einkenni og afleið­ingar geta einnig verið mjög mismun­andi eftir aldri barns, sem verður fyrir ofbeldinu, viðbrögðum við ofbeldinu og hvaða stuðning barnið fær eftir áfallið. Kynferð­isof­beldi í æsku getur haft alvar­legar og langvar­andi líkam­legar, sálfræði­legar og félags­legar afleið­ingar. Þrátt fyrir ólík einkenni ofbeldis á börn eru þó nokkur einkenni sem gott er að hafa í huga og vera meðvituð um:

  • Árás­ar­gjörn hegðun, barn á erfitt með að hemja skap sitt.
  • Dregur sig í hlé frá vinum og fjöl­skyldu.
  • Svefn­vandamál og martraðir.
  • Aukinn orða­forði um kynfæri.
  • Kvartar yfir sárs­auka, pirr­ingi og/eða sýkingar eru á eða við kynfæri.
  • Áverkar eru sýni­legir á kynfærum.
  • Barnið vill ekki vera skilið eitt eftir með ákveðnum einstak­lingum.
  • Barnið sýnir kynferð­is­lega hegðun gagn­vart leik­föngum, öðrum börnum eða í teikn­ingum.
  • Barnið er farið að gera aftur hluti sem það er vaxið upp úr eins og að pissa á sig, gráta eða vera mjög háð þeim sem þau treysta.

Mikil­vægt er að muna að einkenni barna eftir ofbeldi eru einnig mismun­andi eftir aldri og þroska þeirra. Hjá eldri börnum og unglingum eru einkennin oft:

  • Erfið­leikar í skóla og vinnu.
  • Afbrot og andfé­lagsleg hegðun.
  • Áfengis- og vímu­efna­notkun.
  • Erfið­leikar með persónu­legar skuld­bind­ingar eins og ástar­sam­bönd.
  • Sjálfs­vígs­hugs­anir.
  • Ofbeldi gegn ástvini.

Mikil­vægt er að muna að lang­flestir sem brjóta kynferð­is­lega gegn börnum eru einstak­lingar sem eru tengdir börn­unum fjöl­skyldu­böndum eða eru að öðru leyti kunn­ugir þeim; vinir eða kunn­ingjar foreldra þeirra eða jafnvel foreldrar vina þeirra. Í einhverjum tilfellum eru gerendur líka börn en rann­sóknir hafa sýnt að nær helm­ingur kynferð­is­brota gegn börnum eru framin af öðrum börnum.


Barnavernd

Starfs­manni ber:

  • Að gæta fyllstu hlut­lægni, vanda störf sín og beita faglegum vinnu­brögðum.
  • Að sjá til þess að mál fari réttan farveg innan stofn­unar.
  • Að sýna börnum, foreldrum/forráða­mönnum og öðrum sem tengjast máli fyllstu nærgætni.
  • Að gæta trún­aðar.
  • Að halda skrán­ingu um það sem geta verið vísbend­ingar um vanrækslu, ofbeldi eða áhættu­hegðun barns.
  1. Hlut­verk starfs­fólks

Ef barn eða ungmenni leitar til starfs­manns

Barn eða ungmenni gefur í skyn að ofbeldi eða vanræksla eigi sér stað á heimili eða annars staðar er mikil­vægt að starfs­maður sýni viðeig­andi fram­komu.

Starfs­maður þarf að átta sig á að barnið sýnir honum mikið traust. Honum ber að halda ró sinni og gæta að réttum vinnu­brögðum. Mikil­vægt er að hlusta á það sem barnið segir og án þess að trufla frásögn. Gott er að nota setn­ingar eins og:

  • Takk fyrir að treysta mér og segja mér frá þessu.
  • Viltu segja eitt­hvað meir?
  • Ég ætla að hjálpar þér.

Ef barnið vill ekki tjá sig meira á ekki að beita það þrýst­ingi. Segja verður barni að réttir aðilar þurfi að vita af málinu svo hægt sé að hjálpa því.

Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferð­is­legt eða líkam­legt, er mikil­vægt að hlusta á barnið og taka við þeim upplýs­ingum sem það gefur án þess að spyrja leið­andi spurn­inga. Leið­andi spurn­ingar geta haft áhrif á fram­vindu máls hjá lögreglu.

Sé barn með sýni­lega áverka eða segi frá ofbeldi skal samstundis hafa samband við stjórn­anda viðkom­andi stofn­unar. Stjórn­andi hefur samband við starfs­mann barna­verndar hjá Vest­ur­byggð. Stjórn­andi tilkynnir mál til félags­þjón­ustu.

Ef grunur er um óvið­un­andi aðstæður, vanrækslu, ofbeldi eða áhættu­hegðun barna

Mikil­vægt er að starfs­maður sýni varfærni í samræðum við barn eða ungmenni og komi málinu í réttan farveg.

Koma á upplýs­ingum til stjórn­anda. Það er á ábyrgð stjórn­anda að tilkynna til félags­þjón­ustu Vest­ur­byggðar. Hlut­verk félags­þjón­ustu er að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um slíkt gilda.

Í tilvikum þar sem vanræksla eða áhættu­hegðun barns hefur varað lengi og ekki lagast, þrátt fyrir ábend­ingar til foreldra, skal tilkynna málið til félags­þjón­ustu Vest­ur­byggðar.

Ef grunur er um að foreldri eða einstak­lingur sem sækir barn í skóla/stofnun sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímu­efna

Leita skal til stjórn­anda og vísa viðkom­andi til hans. Þar á að láta viðkom­andi vita að starfs­fólk gruni foreldri /einstak­ling sem sækir um að vera undir áhrifum áfengis eða vímu­efna og ekki sé rétt að hann fari með barnið.

Koma skal í veg fyrir að viðkom­andi fari með barn ef talið er að barninu sé hætta búin. Stjórn­andi hringir í lögreglu í síma 112 og óskar eftir aðstoð ef þörf er á.

Stjórn­andi tilkynnir málið til félags­þjón­ustu.

Ef grunur er um að starfs­maður beiti ofbeldi, sýni óvið­eig­andi hegðun eða sé undir áhrifum lyfja, fíkni­efna eða áfengis.

Leita skal til stjórn­anda sem vinnur í samræmi við verklags­reglur stofn­unar.

Stjórn­andi tilkynnir málið til félags­þjón­ustu eða eftir atvikum hefur samband við lögreglu eða 112.

  1. Skráning máls­at­vika

Mikil­vægt er að starfs­fólk skrái eins fljótt og auðið er máls­atvik og samtöl vegna hugs­an­legrar tilkynn­ingar. Hver stofnun þarf að hafa skýrt verk­ferli um skrán­ingar (hver skráir, hvar skal skrá o.s.frv.) og huga í því sambandi að trúnaði og persónu­vernd.

  1. Hvert á starfs­maður að leita?

Starfs­maður skal leita til stjórn­anda.

Ef ekki næst í stjórn­anda og barn er í hættu, skal tilkynna beint til félags­mála­stjóra í síma 450 2300 eða í síma 112 og láta stjórn­anda vita síðar.

Ef starfs­maður telur sig ekki getað leitað til stjórn­anda er honum bent á að hafa samband við fjöl­skyldu­svið Vest­ur­byggðar í síma 450 2300.

  1. Tilkynning

Stjórn­andi tilkynnir mál til félags­þjón­ustu Vest­ur­byggðar.

Tilkynn­ing­areyðu­blað er á vef Vest­ur­byggðar undir: Þjón­usta / Velferð / Barna­vernd

Ef neyð­ar­atvik koma upp utan skrif­stofu­tíma eða um helgar er hægt að hafa samband við bakvakt barna­verndar í síma 112. Á það við um mál sem geta ekki beðið eftir opnun á skrif­stofu­tíma og bregðast þarf strax við.


Ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013 sem lúta að vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun barna og greinar úr barnaverndarlögum nr. 80/2002:

  • Samkvæmt 19. gr. barna­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna nr. 19/2013 eiga börn rétt á vernd gegn hvers kyns líkam­legu, andlegu og kynferð­is­legu ofbeldi, misnotkun, skeyt­ing­ar­leysi og vanrækslu, innan eða utan heim­ilis.
  • Samkvæmt 27. gr. barna­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna nr. 19/2013 eiga börn rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkam­legum, andlegum og félags­legum þroska og bera foreldrar höfuð­ábyrgð á lífs­skil­yrðum og fram­færslu barna sinna. Aðild­ar­ríki skulu tryggja foreldrum fjár­hags­að­stoð og stuðn­ingsúr­ræði ef þörf krefur. Jafn­framt skulu aðild­ar­ríkin tryggja hverju barni innheimtu fram­færslu­líf­eyris frá þeim sem ber fjár­hags­lega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkom­andi býr innan­lands eða í útlöndum.
  • Samkvæmt 34. gr. barna­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna nr. 19/2013 eiga börn rétt á vernd gegn hvers kyns kynferð­is­legu ofbeldi, s.s. þátt­töku í hvers kyns kynferð­is­legri hátt­semi, vændi eða klámi.
  • Samkvæmt 39. gr. barna­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna nr. 19/2013 skal tryggt að börn sem sætt hafa vanrækslu, misnotkun, grimmi­legri eða vanvirð­andi meðferð eða eru fórn­ar­lömb átaka fái viðeig­andi meðferð til að ná bata og aðlagast samfé­laginu.
  • Samkvæmt 16. gr. barna­vernd­ar­laga nr. 80/2002 ber öllum að tilkynna til barna­verndar ef grunur leikur á að barn búi við óvið­un­andi uppeldis­að­stæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu.
  • Samkvæmt 17. gr. barna­vernd­ar­laga nr. 80/2000 ber öllum þeim sem starfa við málefni barna að tilkynna til barna­verndar vakni grunur um að barn sé beitt hverskyns ofbeldi, búi við vanrækslu eða sýni af sér áhættu­hegðun.
  • Samkvæmt 19. gr. barna­vernd­ar­laga nr. 80/2000 njóta stofn­anir ekki nafn­leyndar við tilkynn­ingu til barna­verndar og er tilkynning ávallt í nafni stofn­unar eða félags en ekki einstakra starfs­manna.

Viðbragðsáætlun

vidbragdsaaetlun.png