Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað
Allir vinnustaðir þurfa að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði og uppfæra hana eftir þörfum. Gerð áætlunarinnar er samvinnuverkefni stjórnenda og starfsfólks í Patreksskóla. Tilgangur með gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði er fyrst og fremst að fyrirbyggja og draga úr slysum, óhöppum, álagi, vanlíðan og heilsutjóni sem starfsmenn geta orðið fyrir við störf sín hvort sem er líkamlegu eða andlegu. Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað felur m.a. í sér: áhættumat fyrir starfsemina í heild, áætlun um heilsuvernd og forvarnir, það er tímasett úrbótaáætlun sem er byggð á niðurstöðum áhættumatsins.
Áætlunin á að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna. Öryggisnefnd Patreksskóla er skipuð af öryggistrúnaðarmanni sem kosinn er af starfsfólki og öryggisverði sem er skólastjóri Patreksskóla.
Lög og reglugerðir
Viðmið sem stuðst er við í áhættumati byggja á vinnuverndarlögunum (nr. 49/1980) og reglugerðum sem eiga við þá starfsemi sem fer fram í skólanum. Notaðir voru vinnuumhverfisvísar sem eru gátlistar sem er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Gátlistarnir eru sérstaklega hannaðir til þess að finna hættur í vinnuumhverfinu. Notast er við sérstaka útgáfu gátlistans fyrir skóla.
Þau lög og reglur sem eiga við starfsemi skólans eru m.a.:
- Lög nr. 46/1980 Vinnuverndarlögin (lög um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum)
- Reglugerð nr. 920/2006 Reglugerð um skipulag og framkvæmdir vinnuverndarstarfs á vinnustöðum
- Reglugerð nr. 581/1995 Reglur um húsnæði vinnustaða
- Reglugerð nr. 921/2006 Reglur um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum
- Reglugerð nr. 498/1994 Reglur um skjávinnu
- Reglugerð nr. 499/1994 Reglur um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar
- Reglugerð nr. 1009/2015 Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum
- Reglugerð nr. 553/2004 Reglur um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum
- Reglugerð nr. 931/2000 Reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti
- Byggingareglugerð
Lög og reglur er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins www.ver.is
Vinnuumhverfisvísir
Félagslegt vinnuumhverfi
Markmið stefnu Patreksskóla er að samvinna alls starfsfólks á öllum stigum starfseminnar sé jákvæð og uppbyggjandi, fólki líði vel, upplifi öryggi og jafnrétti. Stefna og viðbragðsáætlun þessi er frekari útfærsla á því markmiði. Það er stefna Patreksskóla að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum, hvort heldur er á vinnustaðnum eða utan hans. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi verða undir engum kringumstæðum umborin. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum er jafnframt óásættanleg.
Markmiðið með stefnunni er m.a. að vinna gegn einelti, áreitni og ofbeldi í samræmi við Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.
Hver og einn ber ábyrgð á eigin hegðun og því að taka ekki þátt í einelti, áreitni eða ofbeldi. Einelti, áreitni og ofbeldi er ekki einkamál þolanda og geranda heldur er mikilvægt að allir séu meðvitaðir og bregðist við hafi þeir grun um eða viti um slíkt. Stjórnandi skal stuðla að markvissum forvörnum og aðgerðum gegn ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað.
Mikilvægt er að skýrt sé hvert þolendur eigi að snúa sér og að allt ferlið sé gegnsætt og upplýsingar aðgengilegar.
Stefna og forvarnir
Allir starfsmenn eiga rétt á vinnuumhverfi þar sem hættan á einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni er hverfandi. Deildarstjóra/skólastjóra/leikskólastjóra ber skylda til að tryggja þau vinnuskilyrði. Stjórnendur skulu sækja reglulega fræðslu um vinnuvernd og bera þeir ábyrgð á því að stefnu og viðbragðsáætlun sé fylgt og allir starfsmenn þekki hana. Tryggja skal öllum starfsmönnum reglulega fræðslu um heilbrigði, öryggi og vinnuvernd.
Stjórnendum ber einnig skylda til að taka á málum í samræmi við áætlun þessa um leið og þau koma upp. Allar kvartanir vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni skulu rannsakaðar/kannaðar. Lögð er áhersla á að strax sé tekið faglega á málum og leitt í ljós hvort fram komin kvörtun sé á rökum reist. Einnig skal meta þörf meints geranda/þolanda fyrir stuðning. Stjórnendum er skylt að bregðast við kvörtun um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni og fylgja stefnu þessari í slíkum málum. Brugðist skal við eigi síðar en tveimur vinnudögum eftir að skrifleg eða munnleg kvörtun berst. Stjórnanda sem sinnir ekki skyldu sinni gagnvart kvörtun um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni skal veitt formleg áminning.
Stjórnandi sem ásakaður er um meint einelti, ofbeldi, kynbundna og/eða kynferðislega áreitni skal vera vanhæfur til að taka ákvarðanir um starfsskilyrði þess sem kvartar meðan meðferð málsins stendur yfir og skal næsti stjórnandi taka slíkar ákvarðanir.
Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks, heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun við upphaf starfs og ber deildarstjóra/skólastjóra/leikskólastjóra ábyrgð á að svo sé gert. Stefnan og viðbragðsáætlunin eru rifjaðar upp reglulega. Endurskoða skal viðbragðsáætlunina á tveggja ára fresti.
Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu í þessum málum, en er ekki úrskurðaraðili um hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað.
Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar skólans fá vitneskju um einelti eða annað ofbeldi munu þeir bregðast við samkvæmt viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð er áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.