Starfsmannasáttmáli
Samskipti
- Við höfum gleðina að leiðarljósi
- Við stuðlum öll að góðum skólabrag
- Við viljum vera hreinskilin
- Við gætum ávallt trúnaðar í öllu starfi okkar
- Við viljum vera umburðarlynd og víðsýn
- Við erum jákvæð og bjartsýn
- Við viljum jafnrétti og lýðræðisleg vinnubrögð
- Við líðum ekki fordóma
- Við viljum vera skilningsrík
- Við höfum metnað
- Við berum virðingu hvert fyrir öðru
- Við erum samhentur hópur sem eflum hvert annað
Lykill að velgengni skólastarfs er samhentur og öflugur mannauður. Markmið starfsmannastefnunnar er að starfssemin sé þannig uppbyggð, að hún laði að sérhæft og áhugasamt fólk þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum til þess að byggja upp og viðhalda jákvæða, faglega og samhenta liðsheild.
Starfsfólk Patreksskóla er hópur fagmenntaðra og ófaglærðra starfsmanna sem vinnur í sameiningu að því að byggja upp skólastarf sem einkennist af vilja og virðingu, með hag nemenda að leiðarljósi. Þeir starfa undir verkstjórn skólastjóra og eiga í nánu samstarfi sín á milli, við nemendur, foreldra þeirra og aðra sem að skólastarfinu koma. Allir starfsmenn skólans bera mikla ábyrgð á skólastarfinu jafnt undirbúningi, framkvæmd og mati og leggja metnað sinn í að styðja hvert annað í starfi, miðla þekkingu, reynslu og færni og nýta sér þau tækifæri sem gefast til þess að vaxa í starfi.
Framkvæmd starfsmannastefnu
Að taka vel á móti nýju starfsfólki með því að:
Tryggja að starfsfólk fái allar nauðsynlegar upplýsingar og kynningu á vinnustaðnum strax sem byggir á móttökuáætlun nýrra starfsmanna.
Að gera starfsfólki kleift að þróast í starfi með því að:
Tryggja að starfsfólk hafi aðgang að námskeiðum og sveigjanleika til þess að komast á námskeið við hæfi. Sjá nánar í starfsþróunaráætlun.
Að stuðla að því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi séu til fyrirmyndar með því að;
Gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað (skv. lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980) og framfylgi henni.
Að undirbúa starfslok vandlega með því að:
Eiga starfslokasamtöl við starfsfólk til að tryggja að starfsþekking haldist innan vinnustaðarins og greina ástæður þess að starfsfólk hættir.
Að ráða hæft og metnaðarfullt starfsfólk með því að:
Auglýsa öll störf nema þegar um er að ræða tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi og fara eftir þeim reglum sem gilda um réttindi starfsmanna hverju sinni.
Að vinna markvisst að jafnrétti kynjanna með því að:
Fara eftir jafnréttisáætlun skólans.
Að sjá um að starfsþróunarsamtöl fari fram á hverju vori (janúar til mars) með því að:
Tryggja tíma í fundaráætlun skólans fyrir starfsþróunarsamtöl á hverju vori.
Almennar skyldur og réttindi starfsmanna
Að kynna nýjan starfsmann fyrir trúnaðarmönnum og halda starfsmanninum eins upplýstum og mögulegt er um réttindi sín og skyldur samkvæmt móttökuáætlun.
Eftirfylgni/Aðgerðir
Til að tryggja eftirfylgni með starfsmannastefnunni:
- Að kanna reglulega starfsánægju og starfsumhverfi samkvæmt inramatsáætlun skólans.
- Að endurskoða reglulega starfsmannastefnu Patreksskóla og bregðast við breytingum.
Stjórnendur
Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti og stuðla að starfsánægju starfsmanna. Þeir skulu hafa að leiðarljósi jákvætt viðhorf til starfsmanna og samhæfa störf þannig að hver og einn njóti starfsins og hafi tækifæri til að þróast í starfi. Þeir bera ábyrgð á störfum starfsmanna sinna og eiga að vinna með þeim að þeim markmiðum sem sett hafa verið. Skólastjóri með samheldinn mannskap, þarf að skapa aðstæður svo sífellt sé vilji meðal starfsfólks til að ígrunda starf sitt og spyrja gagnrýninna spurninga og fá endurgjöf á jákvæðan hátt. Hvatning skólastjóra og dreifing ábyrgðar skiptir miklu máli til þess að skapa lærdómssamfélag þar sem fólk vinnur markvisst saman til að gera skólastarf betra.
Starfsmenn
Leitast skal við að skapa jákvætt starfsumhverfi sem m.a. birtist í því að starfsmenn fái sem bestar upplýsingar um réttindi sín og skyldur, en hlutverk allra er að sýna sem mesta fagmennsku í starfi. Jafnréttis skal gætt, ekki má mismuna fólki eftir aldri, kynferði, kynþætti, stjórnmálaskoðunum o.þ.h.
Starfsmenn eigi kost á símenntun til að auka hæfni sína og fagmennsku. Vesturbyggð tekur þátt í kostnaði kennara vegna þeirra námskeiða sem viðurkennd eru af Menntamálaráðuneyti og haldin af Menntavísindasviði HÍ eða öðrum viðurkenndum aðilum sem skólastjóri samþykkir, m.a. halda þeir launum á meðan. Skólastjóri metur þörf þess hvort kennarar sæki námskeið á vegum skólans. Leitast er við að hafa samráð við starfsmenn um þau málefni skólans sem þá varðar og reynt að hafa sem víðtækasta sátt um þau.
Öllum starfsmönnum Patreksskóla ber að gæta þagmælsku um þau einkamál er þeir fá vitneskju um í starfi og þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.