Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi starfsmanna
Markmið stefnu Patreksskóla er að samvinna alls starfsfólks á öllum stigum starfseminnar sé jákvæð og uppbyggjandi, fólki líði vel, upplifi öryggi og jafnrétti. Stefna og viðbragðsáætlun þessi er frekari útfærsla á því markmiði. Það er stefna Patreksskóla að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum, hvort heldur er á vinnustaðnum eða utan hans. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi verða undir engum kringumstæðum umborin. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum er jafnframt óásættanleg.
Markmiðið með stefnunni er að vinna gegn einelti, áreitni og ofbeldi í samræmi við Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.
Hver og einn ber ábyrgð á eigin hegðun og því að taka ekki þátt í einelti, áreitni eða ofbeldi. Einelti, áreitni og ofbeldi er ekki einkamál þolanda og geranda heldur er mikilvægt að allir séu meðvitaðir og bregðist við hafi þeir grun um eða viti um slíkt. Stjórnandi skal stuðla að markvissum forvörnum og aðgerðum gegn ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað.
Mikilvægt er að skýrt sé hvert þolendur eigi að snúa sér og að allt ferlið sé gegnsætt og upplýsingar aðgengilegar.
Stefna og forvarnir
Allir starfsmenn eiga rétt á vinnuumhverfi þar sem hættan á einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni er hverfandi. Skólastjóra ber skylda til að tryggja þau vinnuskilyrði. Stjórnendur skulu sækja reglulega fræðslu um vinnuvernd og bera þeir ábyrgð á því að stefnu og viðbragðsáætlun sé fylgt og allir starfsmenn þekki hana. Tryggja skal öllum starfsmönnum reglulega fræðslu um heilbrigði, öryggi og vinnuvernd.
Stjórnendum ber einnig skylda til að taka á málum í samræmi við áætlun þessa um leið og þau koma upp. Allar kvartanir vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni skulu rannsakaðar/kannaðar. Lögð er áhersla á að strax sé tekið faglega á málum og leitt í ljós hvort fram komin kvörtun sé á rökum reist. Einnig skal meta þörf meints geranda/þolanda fyrir stuðning. Stjórnendum er skylt að bregðast við kvörtun um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni og fylgja stefnu þessari í slíkum málum. Brugðist skal við eigi síðar en tveimur vinnudögum eftir að skrifleg eða munnleg kvörtun berst. Stjórnanda sem sinnir ekki skyldu sinni gagnvart kvörtun um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni skal veitt formleg áminning.
Stjórnandi sem ásakaður er um meint einelti, ofbeldi, kynbundna og/eða kynferðislega áreitni skal vera vanhæfur til að taka ákvarðanir um starfsskilyrði þess sem kvartar meðan meðferð málsins stendur yfir og skal næsti stjórnandi taka slíkar ákvarðanir.
Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks, heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun við upphaf starfs og ber skólastjóra ábyrgð á að svo sé gert. Stefnan og viðbragðsáætlunin eru rifjaðar upp reglulega. Endurskoða skal viðbragðsáætlunina á tveggja ára fresti.
Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu í þessum málum, en er ekki úrskurðaraðili um hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað. Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar skólans fá vitneskju um einelti eða annað ofbeldi munu þeir bregðast við samkvæmt viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð er áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.
Skilgreiningar
Samskiptavandi er yfirheiti yfir órannsökuð atvik, árekstra og annað sem veldur ágreiningi eða óþægindum í samskiptum. Eftirfarandi skilgreiningar á hugtökum eru sóttar í reglugerð Velferðarráðuneytisins nr. 1009/2015.
Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Einelti:
- er neikvæð hegðun sem er niðurlægjandi eða særandi og veldur einstaklingi vanlíðan
- getur verið bein og/eða óbein hegðun (s.s. hunsun/útilokun)
- getur beinst að starfi viðkomandi og/eða persónu, hegðun eða útliti
- er ekki afmarkað tilfelli, skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis. Ef einhver verður uppvís að ofbeldi skal lögregla kölluð til. Hafa ber í huga að samskiptavandi getur verið annað en ofangreint (t.d. faglegur ágreiningur eða persónulegur) og er mikilvægt að gripið sé inn í áður en vandinn versnar. Samskiptavandi milli tveggja eða fleiri hefur áhrif á alla sem starfa á vinnustað og því þarf að stíga inn í og uppræta hann.
Þolandi er sá sem verður fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi. Meðan málsmeðferð stendur yfir er hugtakið „meintur þolandi“ notað.
Gerandi er sá sem beitir einelti, áreitni eða ofbeldi. Meðan málsmeðferð stendur yfir er hugtakið „meintur gerandi“ notað.
Birtingarmyndir eineltis, áreitni og ofbeldis
Í leiðbeiningum Vinnuverndar (2018b) eru gefin dæmi um birtingarmyndir eineltis, áreitni og ofbeldis. Þar segir að þetta geti birst sem:
- Ítrekuð gagnrýni, niðurlæging.
- Særandi orð, athugasemdir.
- Baktal, slúður, sögusagnir, útilokun.
- Móðgandi og særandi samskipti.
- Kynferðislegar eða kynbundnar athugasemdir.
- Hótanir eða árásir.
Ábyrgð
Vinnuveitandi á skv. lögum að:
- bregðast eins fljótt við og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending.
- rannsaka í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa (fulltrúi í öryggisnefnd, sá sem hefur verið kosinn öryggistrúnaðarmaður eða skipaður öryggisvörður og aðrir starfsmenn sem sérstaklega hefur verið falið að sinna vinnuvernd innan viðkomandi vinnustaðar), eftir því sem við á, og utanaðkomandi aðila ef með þarf.
- tryggja að meintur þolandi eða meintur gerandi komi sínum sjónarmiðum á framfæri.
- ræða við einn í einu.
- grípa strax til aðgerða leiði mat í ljós rökstuddan grun um samskiptavanda, áreitni eða ofbeldi, í samræmi við áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað til að koma í veg fyrir endurtekna hegðun.
- grípa til viðeigandi aðgerða leiði rannsókn í ljós að ekki sé um áreitni eða ofbeldi að ræða og uppræta þær aðstæður sem kvartað var yfir.
- skrá allt sem tengist meðferð málsins.
- halda hlutaðeigandi starfsmönnum og vinnuverndarfulltrúa upplýstum um framvindu á meðan á málsmeðferð stendur.
- upplýsa um málalok, senda skriflega staðfestingu ef beðið er um það innan sex mánaða frá lokum máls.
Vinnuveitandi er ábyrgur fyrir lausn mála – KÍ er hlutlaust og ráðgefandi, fylgir málum eftir ef þess gerist þörf skv. umboði félagsmanns með ábendingum um öryggi vinnuumhverfis og réttarstöðu hlutaðeigandi (sjá feril).
Lesefni:
- Sjá frekari upplýsingar um samskipti á https://www.ki.is/kennarastarfid/vinnuumhverfismal/heilbrigdi-a-vinnustad/samskipti/
- Bæklingur: Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni og ofbeldi – Leiðbeiningar fyrir starfsfólk http://www.vinnueftirlit.is/media/fraedslu–ogleidbeiningarit/enginn_a_ad_saetta_sig_vid_einelti_areitni_ofbeldi.pdf
- Bæklingur: Sættum okkur ekki við einelti, áreitni og ofbeldi – Leiðbeiningar fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa http://www.vinnueftirlit.is/media/fraedslu–ogleidbeiningarit/saettum_okkur_ekki_vid_einelti_areitni_ofbeldi.pdf
Atvikaskráning
Leiðarvísir og skráningarblað starfsfólks skóla.
Mikilvægt er að skrá þá árekstra og allan samskiptavanda sem upp kemur í skólum svo læra megi af þeim og fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Hér fyrir neðan má finna skráningareyðublað þar sem atvik er skráð kerfisbundið, þannig má styrkja sálrænt öryggi meðal starfsfólks.
Leiðbeiningar með skráningu:
- Stjórnandi ber ábyrgð á atvikaskráningu en getur falið öðrum að sjá um hana.
- Öll atvik skal tilkynna. Góð regla er að skrá allt sem tilkynnt er.
- Stjórnandi eða öryggistrúnaðarmaður aðstoðar við skráningu atviks með þeim sem tilkynnir eða lenda/ir í því.
- Öryggisnefnd/öryggistrúnaðarmaður ásamt stjórnanda fara reglulega yfir ferilinn, meta virkni og hvort honum þurfi að breyta.
- Stjórnandi ber ábyrgð á verkferlum en getur falið öðrum umsjón hans. Umsjónarmaður ferils eða stjórnandi upplýsir starfsfólk um breytingar verkferla og viðbragðsáætlana.
Viðbragðsáætlun
Vinna þarf viðbragðsáætlun um hvernig bregðast á við og vinna úr samskiptavanda. Í henni þarf að koma fram hver tekur við tilkynningu, hver skráir atvik og hver ber ábyrgð á úrvinnslu. Allt starfsfólk skólans þarf að þekkja áætlunina – einnig afleysingafólk, nemar og nýtt starfsfólk.
Mikilvægt er að starfsmaður geti leitað til nokkurra einstaklinga með mál. Hér er átt við fræðslustjóra hjá sveitarfélagi, stjórnanda, jafnréttisfulltrúa, öryggistrúnaðarmann og/eða félagslegan trúnaðarmann. Einnig er mikilvægt að starfsmaður viti hvert hann geti leitað ef hann vill eða getur ekki leitað til síns stjórnanda.
- Aðalábyrgð á viðbragðsáætluninni ber skólastjórnandi en getur falið öðrum umsjón með henni
- Við tilkynningum um samskiptavanda tekur öryggistrúnaðarmaður eða stjórnandi og kemur þeim í réttan farveg.
- Atvikaskráning er á ábyrgð skólastjórnanda eða öryggistrúnaðarmanns.
- Úrvinnsla samskiptamála er á ábyrgð stjórnanda sem mun nýta þau bjargráð sem til eru og tilkynna málalyktir hlutaðeigandi.
Hvað er gert þegar starfsmaður telur sig hafa orðið fyrir einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni.
1 Starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni skal snúa sér hið fyrsta til deildarstjóra/skólastjóra og tilkynna um atvikið. Sé stjórnandi gerandi skal málinu vísað til sviðsstjóra eða bæjarstjóra sem kallar til eineltisteymi sveitarfélagsins og virkjar eineltisáætlun sveitarfélagsins.
- Tilkynning getur verið munnleg en atvikið skráð niður af næsta yfirmanni.
- Tilkynningin getur verið skrifleg á hvaða formi sem sá sem tilkynnir kýs.
- Tilkynningin getur verið á þar til gerðu eyðublaði. Dæmi hér
2. Sá sem tekur við tilkynningunni hefur samband við þann sem tilkynnir við fyrsta tækifæri helst samdægurs, í það minnsta innan tveggja daga.
- Staðfesta þarf móttöku tilkynningar skriflega eða með tölvupósti.
- Deildarstjóri/skólastjóri sem tekur við tilkynningunni skal kalla til vinnuverndarfulltrúa/öryggistrúnaðarmann sem fara yfir málsatvik og máta við skilgreiningar um einelti og meta í hvaða farveg málið á að fara. Leita skal til utanaðkomandi aðila ef óljóst er hvers eðlis málið er og hvort þörf sé á formlegri málsmeðferð eða venjuleg málsmeðferð. Í alvarlegum tilvikum gæti þurft að kalla til lögreglu og fela málið yfirvöldum.
- Deildarstjóri/skólastjóri/leikskólastjóri og vinnuverndarfulltrúi/öryggistrúnaðarmaður gefa hlutaðeigandi starfsmönnum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sitt í hvoru lagi.
- Ákveða þarf hvernig haga eigi upplýsingagjöf innan vinnustaðarins á meðan á meðferð máls stendur og tryggja að einhver sé ábyrgur fyrir því hlutverki.
- Gögn um meðferð málsins skal fara með eins eins og önnur viðkvæm persónugreinanleg gögn innan skólans eða á sama hátt og greiningargögn nemenda.
3. Meðferð formlegra málsmeðferðar eineltismála er vísað til eineltisteymis sveitarfélagsins sem styður við deildarstjóra/skólastjóra og staðfestir að málsmeðferð sé réttmæt og skynsamleg.
4. Deildarstjóri/skólastjóri og öryggistrúnaðarmaður skrá niður til hvaða aðgerða skal grípa, komi í ljós að kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustaðnum. Ákveða þarf og skrá niður til hvaða aðgerða skal grípa til:
- til að stöðva hegðunina, sé hún enn til staðar
- til að koma í veg fyrir að hegðunin endurtaki sig, m.a. endurskoðun áhættumats.
5. Deildarstjóri/skólastjóri og öryggistrúnaðarmaður skrá niður til hvaða aðgerða skal grípa, komi í ljós að ofbeldi eigi sér ekki stað eða hafi ekki átt sér stað á vinnustaðnum. Ákveða þarf og skrá niður til hvaða aðgerða skal grípa til:
- í því skyni að uppræta þær aðstæður sem kvartað var um og bent var á, séu aðstæðurnar enn til staðar
- í því skyni að koma í veg fyrir að aðstæðurnar komi aftur upp á vinnustaðnum svo þær geti ekki leitt til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnustaðnum, m.a. endurskoðun áhættumats.
6. Deildarstjóri/skólastjóri og öryggistrúnaðarmaður skrá niður kvörtun eða ábendingu um einelti, áreitni eða ofbeldi að samskiptum starfsmanns eða starfsmanna við einstakling eða einstaklinga sem ekki teljast til starfsmanna vinnustaðarins en samskiptin eiga sér stað í tengslum við þá starfsemi sem fram fer á vinnustaðnum.
7. Finnist ekki lausn á málum innan sveitarfélagsins vísar sveitarstjóri málinu til fagráðs MMS um eineltismál.
8. Þegar málinu er lokið þarf að ákveða hvernig deildarstjóri/skólastjóri og öryggistrúnaðarmaður ljúka málinu með því að senda tölvupóst eða bréf til þess sem tilkynnti um málið upphaflega og ljúka því.
- Gæta þarf að hlutaðeigandi séu allir upplýstir um málalok.
9. Þegar málinu er lokið þarf deildarstjóri/skólastjóri/leikskólastjóri og öryggistrúnaðarmaður að meta árangur þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til og hins vegar hvort þörf sé á almennum aðgerðum á vinnustað í kjölfar máls. Ef virkja þarf viðbragðsáætlun skal endurskoða áhættumat eða grípa til annarra úrbóta. Skrá þarf og tímasetja úrbætur á sama hátt og úrbætur eru skráðar í innra mati.
Venjuleg málsmeðferð
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.
Formleg málsmeðferð
Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, svo sem tölvupósta, smáskilaboð eða annað. Fundin skal lausn sem meðal annars getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun auk þess sem hann gæti líka verið færður til í starfi. Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins.
Mögulega er leitað er leiða til að leysa málið m.a. með breytingum á vinnustað, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi fær leiðsögn og aðvörun og í einhverjum tilvikum færður til í starfi. Þá er málinu fylgt eftir og rætt við aðila máls að ákveðnum tíma liðnum. Þá er fylgst með samskiptum aðila. Láti gerandi ekki segjast og viðheldur eineltinu leiðir það til uppsagnar hans úr starfi.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi á vinnustöðum ógnar heilsu og líðan fólks. Með góðri stjórnun og góðum samskiptum er hægt að koma í veg fyrir slíkt. Stjórnendur sem leggja áherslu á forvarnir og skjót viðbrögð þegar vandamál koma upp stuðla að góðu félagslegu vinnuumhverfi.
- Tryggja skal öllum starfsmönnum reglulega fræðslu um heilbrigði, öryggi og vinnuvernd
- Greina og meta áhættuþætti í félagslegu vinnuumhverfi
- Gera áætlun um forvarnir og úrbætur sem byggja á áhættumati
- Innleiða viðbragðsáætlun við einelti, áreitni og ofbeldi
- Taka á neikvæðu tali og stuðla að jákvæðri starfsmenningu
- Koma á reglubundinni fræðslu og stjórnendaþjálfun
Auk yfirmanna sveitarfélagsins eru eftirfarandi trúnaðaraðilar tilbúnir að ræða við starfsmenn um meint einelti á vinnustaðnum.
- Trúnaðarmaður KÍ – Áslaug Traustadóttir
- Öryggisfulltrúi – Kris Bay