Hoppa yfir valmynd

Skóla­þing í anda sameinuðu þjóð­anna

Þann 16. nóvember sl. á degi íslenskrar tungu, héldu nemendur á mið- og unglinga­stigi í grunn­skólum Vest­ur­byggðar sitt fyrsta skóla­þing í Félags­heimili Patreks­fjarðar. Það var liður í uppskeru­hátíð skól­anna fyrir lotuna Lýðræði og mann­rétt­indi. Í þeirri lotu læra nemendur að þekkja rétt sinn til að hafa áhrif með því að taka þátt í samfé­lags­legum verk­efnum, læra að miðla þekk­ingu sinni og taka þátt í samræðum og rökræðum um ákveðin viðfangs­efni. Skóla­þing er mjög góður vett­vangur til að nemendur kynnist þessum mikil­vægu þáttum í skóla­starfinu.


Skrifað: 5. desember 2023

Þingið var í anda sameinuðu þjóðanna þar sem fulltrúar ýmissa landa komu saman til að ræða viðfangsefni  þingsins sem var að þessu sinni „réttindi barna til vinnu”. Hver nemendahópur fékk úthlutað landi og átti að afla sér upplýsinga um það út frá ákveðnum rannsóknarlista. Fulltrúar hvers lands kynntu niðurstöður sínar í pontu á þinginu og hlustuðu á aðra kynna sín lönd. Þegar öll lönd höfðu komið upp með ræður sínar var umræðutími þar sem lönd með svipaðan málstað sameinuðust og ræddu lausnir og tillögur. Að því loknu voru kosningar um tvær tillögur um vinnutíma og laun barna.

Það má með sanni segja að fyrsta skólaþingið hjá grunnskólum Vesturbyggðar hafi gengið mjög vel. Nemendur stóðu sig með prýði og voru til fyrirmyndar.