Hoppa yfir valmynd

Viðburða­ríkar vikur

Undan­farnar tvær vikur hefur svo sann­ar­lega verið mikið líf og fjör í Patreks­skóla, þar sem eitt­hvað hefur verið að gerast nánast á hverjum degi.


Skrifað: 22. september 2023

Mánudaginn 11. september hófst barnamenningarhátíðin Púkinn í fyrsta sinn, en hátíðin er vettvangur fyrir öll vestfirsk börn að kynnast listum og menningu, ásamt því að stuðla að samstarfi innan Vestfjarða. Hátíðinni hafa fylgt hinir ýmsu viðburðir sem nemendur hafa tekið þátt í, bæði kynningar og smiðjur þar sem nemendur hafa notið sköpunargleðinnar og kjarnað sinn innri listamann. 

Yngsta stig fékk til dæmis Elfar Loga og Billu í heimsókn miðvikudaginn 20. september, og bjuggu þau til ýmis konar grímur og varð eitthvað færra um nemendur en meira um hunda og önnur dýr á göngum skólans í kjölfarið. Auk Elfars Loga fengu þau Landann í heimsókn, og var meðal annars rætt við nokkra nemendur um grímugerðina. Við bíðum spennt að sjá hvenær þetta brot birtist á sjónvarpsskjám landsmanna.

img_4798.jpg

Miðstigið tjáði list sína með dansi, en Sigga Soffía kenndi þeim dansspor Púkans. Flakkaði hún á milli allra skólanna á Vestfjörðum og kenndi sama dansinn, og var mjög gaman að taka á móti henni. Þá hitti hún saman mið- og unglingastig og hélt kynningu um list og dans og tengdi saman garðyrkju og flugelda í mjög lifandi kynningu.

Það var ekki eina kynningin sem unglingastigið fékk, en Lady kom og sýndi þeim hvernig gervigreind og list fléttast saman, og skemmtu þau sér konunglega við að gefa gervigreindinni hinar ýmsu furðulegustu skipanir til að búa til list úr. Sem dæmi má nefna Kanye West sem gúmmíbangsi, Donald Trump sem minion, fiska á mótorhjóli sem er sjálft fiskur og fleira og fleira ansi skemmtilegt. Unglingastigið tók einnig þátt í Skjaldbökunni, sem er verkefni á vegum Skjaldborgar heimildamyndahátíðarinnar, þar sem Karna, Kristín Andrea og Guðný Rós (sem skipuleggja Skjaldborgarhátíðina) kenndu krökkunum að búa til heimildamynd og slepptu þeim svo lausum um bæinn með myndavélar. Afraksturinn varð sex stuttar heimildamyndir sem voru sýndar á lokahátíð Púkans.

Lokahátíðin var haldin fyrr í dag, föstudaginn 22. september, í Skjaldborgarbíó. Komu nemendur og starfsfólk úr Patreksskóla, Tálknafjarðarskóla og Bíldudalsskóla og sýndu frá vinnu hátíðarinnar. Þá steig á svið Steiney Skúladóttir og skemmti krökkunum með spunaleik. Allt var þetta glæsilegt og gaman að hafa tekið þátt í þessari skemmtilegu hátíð í fyrsta sinn. Planið er að halda upp á hana árlega, svo við eigum bara eftir að sjá hana vaxa og dafna.

Auk Púkans var meira uppi á teningunum, en þriðjudaginn 19. september fékk mið- og unglingastig í heimsókn Völu frá mannréttindasamtökunum Amnesty International, og ræddi við krakkana um mannréttindi. Þar sem lýðræði og mannréttindi er einn grunnþátta aðalnámskrár, er gríðarlega mikilvægt að kynna mannréttindi fyrir börnunum. Var rætt um hvað mannréttindi eru, hvernig við getum haft áhrif til dæmis með undirskriftum, hvernig við getum látið okkur mannréttindi varða og fleira. 

Þessar tvær vikur hafa verið ansi fljótar að líða, enda mikið uppbrot og öðruvísi dagskrá sem hefur verið skemmtilegt að taka þátt í. Skólastarf er einmitt skemmtilegast þegar það fær að vera lifandi, og höfum við svo sannarlega notið þess undanfarið. 

img_4801.jpg