Skólastefna Vesturbyggðar
Bæjarstjórn Vesturbyggðar ákvað í byrjun árs 2022 að endurskoða skólastefnu sveitarfélagsins. Rebekka Hilmarsdóttir, Arnheiður Jónsdóttir, Davíð Valgeirsson, Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og Friðbjörg Matthíasdóttir voru skipuð í starfshóp og Kristrún Lind Birgisdóttir frá Ásgarði var fengin til að stýra verkinu. Haldnir voru fundir með starfsfólki skólanna, lagðir fyrir spurningalistar og boðað var til opins fundar um endurskoðun skólastefnu. Lagt var upp með að ná breiðri sátt um áherslur og að stefnan næði yfir skólamál sveitarfélagsins en jafnframt íþróttir, félagsmál og menningu barna í sveitarfélaginu.
Framtíðarsýn
Markmið sveitarfélagsins er að starfrækja grunn, leik- og tónlistarskóla í Vesturbyggð sem standast ýtrustu gæðakröfur á hverjum tíma þar sem allir leggjast á eitt um að stuðla að fjölbreyttu og metnaðarfullu skólastarfi. Vellíðan barna er í fyrirrúmi og skóla- og félagsstarf byggir á að rækta styrkleika nemenda kerfisbundið. Mikil áhersla er lögð á uppbyggjandi samskipti við nemendur, foreldra og á milli starfsfólks. Leitað verði fjölbreyttra leiða til þess að koma til móts við nemendur og foreldra óháð búsetu og lögð áhersla á að tengja saman skólastarf, íþróttir, tómstundir og félagslíf. Áhersla er lögð á framúrskarandi starfsaðstæður, kurteisi, gagnkvæma virðingu, jafnrétti og mannréttindi, samvinnu og lýðræðislega starfshætti. Komið er fram við börn af virðingu og tiltrú og skýrar væntingar gerðar til þeirra
Grunnþættir menntunar
Starfsfólk skólanna vinni áfram að innleiðingu grunnþátta aðalnámskrár með sérstaka áherslu á sköpun, jafnrétti, raungreinar og kynjafræði. Sjálfbærni og nýting náttúrunnar og nærsamfélagsins til náms og kennslu birtist með skýrum hætti í daglegu skólastarfi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni eiga skýran sess í skólastarfi í Vesturbyggð. Skipulag og starfshættir í skólum endurspegla sérstaklega skýrar áherslur á heilbrigði og velferð barna og fullorðinna.
Lykilhæfni
Skólarnir í Vesturbyggð setja lykilhæfni, eins og hún er skilgreind í aðalnámskrá, í öndvegi. Lykilhæfni tengist öllum námsgreinum og aldurshópum eftir því sem þroski og geta leyfir. Auk lykilhæfni markmiða í aðalnámskrá er lögð rækt við að nemendur tileinki sér vinnusemi og þrautseigju í námi og við úrlausn viðfangsefna. Áhugi barna á sjálfum sér og umhverfi sínu er drifkraftur í námi þeirra og félagsfærni. Nemendur fái tækifæri til að sýna í verki að þau eru mikilvægir lýðræðislegir þátttakendur í sínu samfélagi.
Uppeldi, nám og kennsla
Skólastarf Vesturbyggðar er byggt á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar. Komið er til móts við þarfir allra barna og fjölbreyttum eiginleikum þeirra fagnað. Fjölbreyttir kennsluhættir og persónumiðað nám er í fyrirrúmi og félagsleg markmið sett á oddinn. Markvisst er stefnt að því að nemendur taki ábyrgð á námi sínu og séu virkir þátttakendur. Lögð er áhersla á hollustu, hreyfingu og starfsvenjur sem skapa festu og öryggi. Farsæld barna í Vesturbyggð og snemmtæk íhlutun er sveitarfélaginu kappsmál. Góð og árangursrík sérfræðiþjónusta er í fyrirrúmi.
Nemendur
Í skólum Vesturbyggðar er lögð áhersla á vellíðan nemenda, góð samskipti, gagnkvæma virðingu og að nemendur taki stigvaxandi ábyrgð á eigin námi eftir því sem þroski þeirra leyfir. Miklu varðar að nemendur hafi sitt að segja um skólastarfið og hlustað sé á raddir þeirra. Skólarnir eru vel að tækjum búnir sem nýtast á skólagöngunni og ýta undir sjálfstæði nemenda.
Starfsfólk
Mikilvægt er að skólarnir séu vel skipaðir menntuðu, áhugasömu og metnaðarfullu starfsfólki sem setur fagleg sjónarmið á oddinn. Unnið sé eins og framast er unnt að bættum starfsskilyrðum og gefa skal tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið. Stöðugt sé unnið að endurmenntun starfsfólks í samræmi við stefnu sveitarfélagsins og sérstakt átak gert í að hækka menntunarstig meðal kennara yngstu barnanna.
Foreldrar
Öflugt og stöðugt umbótastarf er aðalsmerki góðs skóla. Þróunarstarf verður fastur liður í starfi skólanna. Öflugt samstarf ríkir við foreldra og forráðamenn, byggt á gagnkvæmu trausti og virðingu. Foreldrar fái tækifæri til að koma að skólastarfi í gegnum verkefni sem reyna á styrkleika þeirra.
Skóli og nærsamfélag
Meginmarkmið skólastarfs er að nemendur geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu. Því er áríðandi að skólinn sé í virkum tengslum við umhverfi sitt – náttúru, atvinnulíf og menningu hvers byggðalags. Kostir fámennisins eru nýttir til að tengja enn betur saman skóla, atvinnulíf og félagslíf.
Samfelld skólaganga og samstarf skóla, tómstunda, tónlistar- og íþróttastarfs
Miklu varðar að starfsfólk allra skólastiga, félags-, tónlistar- og íþróttamála vinni vel saman að fjölbreyttu og lifandi starfi með börnunum. Tryggja þarf eðlilega samfellu sem leiðir að stöðugum framförum barna á milli skólastiga og að viðeigandi upplýsingagjöf sé viðhöfð á milli samstarfsaðila. Fundnar verði leiðir til þess að nemendur sem eru að hefja framhaldsskólagöngu geti valið úr fjölbreyttum leiðum til að stunda gæðaframhaldsskólanám í heimabyggð eins lengi og kostur er.
Innleiðing skólastefnu
Forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa sett sér það markmið að vinna að innleiðingu skólastefnu sveitarfélagsins með innleiðingaráætlun sem tekur mið af fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og endurspeglast í starfsáætlun fræðslu- og æskulýðsráðs. Skólastefnu þessari fylgir tímasett aðgerðaáætlun með viðmiðum og markmiðum. Stefna þessi gildir til næstu fimm ára. Á hverju vori fer fræðslunefnd yfir árangur af stefnu þessari í samvinnu og samráði við skólastjórnendur og
stöðu á innra mati þeirra stofnana sem undir þessa stefnu heyra.