Tónlistarskóli
Tónlistarskóli Vesturbyggðar er starfræktur á Patreksfirði og Bíldudal.
Upphafið
Upphafið að stofnun Tónlistarskóla Vesturbyggðar er það, að síðla árs 1967 var einlægur áhugi tónlistarunnandi húsfreyju einnar á Patreksfirði, frú Steinu Einarsdóttur, nú búsettri í Reykjavík, sem stóð að stofnun Tónlistarfélags Patreksfjarðar.
Félagið setti sér strax það höfuðmarkmið að koma á fót tónlistarskóla. Fyrir samstillt átak nokkurra áhugamanna tókst að afla þeirra hljóðfæra sem til þurfti að skólahald gæti hafist.
Meðal þeirra sem mest unnu þar að málum má nefna, þau Hafstein Davíðsson rafveitustjóra, Hilmar Árnason kennara og frú Sigrúnu Sigurjónsdóttur, að ógleymdri Steinu Einarsdóttur sem fyrr var nefnd.
Skólastarfið
Skólinn hóf kennslu fyrsta sinni á Patreksfirði haustið 1967 undir leiðsögu Guðmundar H. Guðjónssonar organista sem er frá Kjörvogi á Ströndum norður. Annaðist hann kennsluna fyrstu þrjú árin, ásamt því, um skeið með Ólafi Markússyni tónlistarmanni frá Reykjavík.
Haustið 1970 tók Jón Ólafur Sigurðsson organisti við stjórn skólans og gegndi því starfi næstu þrjú árin, en var þó áfram kennari við skólann þar til hann fluttist burtu, vorið 1975. Í upphafi skólaárs 1973 var Ólafur Einarsson tónlistarkennari úr Reykjavík ráðinn til starfa við skólann.
Aðrir kennarar sem starfað hafa við skólann, eru Övind og Göril Solbakk, Colin og Stephanie Harper, John Gear, Sandy og Andy, Keith og Pamela Anne Mils, Adrienne Davis, Hilmar Árnason, Hrafnhildur Valgarðsdóttir Tálknafirði, Pétur Bjarnason Bíldudal, Ásrún Atladóttir og Sigrún Sigurjónsdóttir frá Patreksfirði, Jón Ingimarsson Bíldudal, Garðar Jörundsson Bíldudal, Mute Malik frá Hamborg í Þýskalandi, Sigurður Daníelsson tónlistarkennari úr Reykjavík, síðar á Þingeyri og Ragnar Jónsson sem kenndi á píanó.
Fyrsta stjórn Tónlistarfélags Patreksfjarðar var skipuð þeim Gísla Viktorssyni sem formanni, Jóni Þ. Arasyni, gjaldkera og frú Maggý Kristjánsdóttur ritara.
Þegar þetta er ritað í janúar 2014, mun þetta félag enn vera til þó svo að ekki hafi verið haldnir fundir í nokkur ár.
Svo sem fyrrgreint tilefni, stofnunar skólans, ber með sér er skólinn enn á bernskuskeiði, eins og reyndar allir tónlistarskólar á Íslandi. Í samanburði við aldagamla starfsemi samskonar skóla í löndum þeim er næst okkur liggja, má segja að elsti tónlistarskóli okkar, þótt 47 ár eigi að baki, sé enn í reifum nú árið 2014.
Lokaorð
Flestir tónlistarskólar hér á landi, voru stofnaðir með samtakamætti almennings og hafa lengst af verið reknir af áhugafólki. Tilurð Tónlistarskóla Vesturbyggðar er gott dæmi um það. Lög um fjárstuðning ríksins við tónlisatrskólana í landinu komu til framkvæmda í ársbyrjun 1976. Má segja að með þeim hafi tónlistarskólarnir loks komist með tærnar inn í almenna skólakerfið. Þó það sé í sjálfu sér mikil framför til eflingar íslenskri tónlistariðkun frá því sem var, verður samt að bíða enn um stund eftir því að tónlistarskólunum sé gert jafnhátt undir höfði og öðrum skólum í landinu.
Það er þekkt að söngurinn og tónlistin almennt eflir sálina. Mikilvægi tónmenntunar verður ekki dregin í efa. Barn sem lærir að gera greinarmun á samhljóm og hávaða, stendur betur að vígi að mæta þeim hinum sömu fyrirbrigðum í lífinu sjálfu, en ella.