Félagsleg úrræði
Markmið með félagslegri þjónustu á vegum sveitarfélagsins er að koma einstaklingum og fjölskyldum til aðstoðar í tímabundnum erfiðleikum. Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinginn eða fjölskylduna til sjálfhjálpar þannig að hver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu.
Félagsleg heimaþjónusta
Markmið þjónustunnar er að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Heimaþjónusta er veitt þeim sem geta ekki hjálparlaust séð um heimilishald vegna skertrar getu eins og veikinda, álags, öldrunar eða fötlunar.
Gjald er tekið fyrir heimaþjónustuna og fer upphæðin eftir tilteknum tekjuviðmiðum. Þau sem eru undir lágmarks tekjumörkum fá þjónustuna gjaldfrjálst en þau sem eru yfir efri tekjumörkum greiða fullt verð fyrir þjónustuna. Miðað er við tekjur næstliðins árs.
Félagsleg ráðgjöf
Markmiðið með félagslegri ráðgjöf er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, þar með talinna forsjár- og umgengnismála, ættleiðingarmála og fleira. Henni skal ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og í samvinnu við aðra þá aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslustöðvar eftir því sem við á. Í þeim tilvikum sem nauðsyn krefur verður málum vísað til sérfræðinga eða leitað aðstoðar þeirra að öðru leyti að gefnu leyfi frá ráðþega.
Fjárhagsaðstoð
Fjárhagsaðstoð er veitt í tengslum við félagslega ráðgjöf og önnur úrræði eftir því sem við á hverju sinni. Markmið fjárhagsaðstoðar er ávallt að hjálpa einstaklingnum til sjálfshjálpar.
Starfsmenn félagsþjónustunnar veita allar upplýsingar í síma en umsækjandi um fjárhagsaðstoð þarf að panta og fara í viðtal hjá félagsráðgjafa áður en umsókn er tekin fyrir. Umsóknareyðublað má nálgast í íbúagátt Vesturbygggðar, sjá hlekk hér til hliðar.
Réttur til fjárhagsaðstoðar
Fjárhagsaðstoð er veitt vegna framfærslu einstaklinga og fjölskyldna. Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þau sem eru fjárráða, eiga lögheimili í Vesturbyggð og hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum sbr. reglur Vesturbyggðar um fjárhagsaðstoð. Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að hafa hætt rekstri og lagt inn virðisaukanúmer til að geta sótt um fjárhagsaðstoð.
Aðstoðin er í formi styrks eða láns. Jafnan eru kannaðir aðrir möguleikar en fjárhagsaðstoð. Um fjárhagsaðstoð í Vesturbyggð gilda reglur sem bæjarstjórn hefur samþykkt í samræmi við lög.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Sérstakur húsnæðisstuðningur er veittur skv. 2.mgr.45.gr laga um félagþjónustu sveitarfélaga nr.40/1991.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er annars vegar fyrir 18 ára og eldri sem geta ekki séð sér og sínum fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslubyrði eða annarra félagslegra aðstæðna og hins vegar fyrir foreldra 15 – 17 ára nemenda sem búa fjarri foreldrum sínum vegna náms. Sjá reglur sveitarfélagsins.
Umsóknareyðublað má nálgast í íbúagátt Vesturbygggðar, sjá hlekk hér til hliðar.