Félagsleg úrræði
Markmið með félagslegri þjónustu á vegum sveitarfélagsins er að koma einstaklingum og fjölskyldum til aðstoðar í tímabundnum erfiðleikum. Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinginn eða fjölskylduna til sjálfhjálpar þannig að hver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu.
Félagsleg heimaþjónusta
Markmið þjónustunnar er að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Heimaþjónusta er veitt þeim sem geta ekki hjálparlaust séð um heimilishald vegna skertrar getu eins og veikinda, álags, öldrunar eða fötlunar.
Gjald er tekið fyrir heimaþjónustuna og fer upphæðin eftir tilteknum tekjuviðmiðum. Þeir sem eru undir lágmarks tekjumörkum fá þjónustuna gjaldfrjálst en þeir sem eru yfir efri tekjumörkum greiða fullt verð fyrir þjónustuna. Miðað er við tekjur næstliðins árs.
Félagsleg ráðgjöf
Markmið félagslegrar ráðgjafar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, þar með talinna forsjár- og umgengnismála, ættleið-ingarmála o.fl. Henni skal ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og í samvinnu við aðra þá aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslu-stöðvar eftir því sem við á. Í þeim tilvikum sem nauðsyn krefur verður málum vísað til sérfræðinga eða leitað aðstoðar þeirra að öðru leyti að gefnu leyfi frá ráðþega.
Upplýsingar um opinbera þjónustu á Íslandi www.island.is
Fjárhagsaðstoð
Fjárhagsaðstoð er veitt í tengslum við félagslega ráðgjöf og önnur úrræði eftir því sem við á hverju sinni. Markmið fjárhagsaðstoðar er ávallt að hjálpa einstaklingnum til sjálfshjálpar.
Starfsmenn félagsþjónustunnar veita allar upplýsingar í síma en umsækjandi um fjárhagsaðstoð þarf að panta og fara í viðtal hjá félagsmálastjóra áður en umsókn er tekin fyrir.
Réttur til fjárhagsaðstoðar
Fjárhagsaðstoð er veitt vegna framfærslu einstaklinga og fjölskyldna. Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eru fjárráða, eiga lögheimili í Vesturbyggð og hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að hafa hætt rekstri og lagt inn virðisaukanúmer til að geta sótt um fjárhagsaðstoð.
Aðstoðin er í formi styrks eða láns. Jafnan eru kannaðir aðrir möguleikar en fjárhagsaðstoð. Um fjárhagsaðstoð í Vesturbyggð gilda reglur sem bæjarstjórn hefur samþykkt í samræmi við lög.
Íþrótta- og tómstundastyrkur til lágtekjuheimila
Stjórnvöld hafa ákveðið að verja 600 milljónum króna í styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Samþykktin er hluti af umfangsmiklum aðgerðum og viðbrögðum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum afleiðingum af völdum COVID-19 heimsfaraldursins. Hámarksstyrkur er 45.000kr á hvert barn á grunnskólaaldri þeirra heimila sem samkvæmt skilgreiningu teljast lágtekjuheimili.
Skilyrði þess að þiggja styrkinn
Heimilistekjur (tekjur foreldra/forsjáraðila) undir 740.000kr að meðaltali mánuðina mars-júlí 2020 teljast lágtekjuheimili. Ekki er tekið tillit til tekna annarra heimilismanna s.s. eldri systkina í þessu samhengi. Þar sem styrkurinn er ætlaður til niðurgreiðslu á iðkendagjöldum í íþrótta- og tómstundastarfi grunnskólabarna verður umsækjandi að eiga barn/börn á grunnskólaaldri. Styrkinn ber að nýta á skólaárinu 2020-2021 og þarf umsókn að berast fyrir 1. mars 2021.
Hvernig veit ég hvort ég búi á lágtekjuheimili?
Forsenda þess að sækja um styrkinn er að umsækjendur hafi kannað hvort þau uppfylli skilyrði þess búa á lágtekjuheimili. Það er gert með heimsókn inn á www.island.is – sjá hlekk hér til hliðar.
Hvernig sæki ég svo um styrkinn?
Þegar þú hefur kannað rétt þinn á styrknum og fengið svar um að þú uppfyllir skilyrðin, fyllir þú út eyðublaðið „íþrótta- og tómstundastyrkur til lágtekjuheimila“ hér á heimasíðu Vesturbyggðar – sjá hlekk hér til hliðar. Íþrótta- og tómstundafulltrúi fær umsóknina rafrænt, fer yfir málið og setur sig í samband við umsækjendur.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Sérstakur húsnæðisstuðningur er veittur skv. 2.mgr.45.gr laga um félagþjónustu sveitarfélaga nr.40/1991.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er annars vegar fyrir 18 ára og eldri sem geta ekki séð sér og sínum fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslubyrði eða annarra félagslegra aðstæðna og hins vegar fyrir foreldra 15 – 17 ára nemenda sem búa fjarri foreldrum sínum vegna náms. Sjá reglur Vesturbyggðar.