Félagsleg úrræði

Markmið með félags­legri þjón­ustu á vegum sveit­ar­fé­lagsins er að koma einstak­lingum og fjöl­skyldum til aðstoðar í tíma­bundnum erfið­leikum. Haft er að leið­ar­ljósi að styðja einstak­linginn eða fjöl­skylduna til sjálf­hjálpar þannig að hver einstak­lingur geti sem best notið sín í samfé­laginu.

Félagsleg heimaþjónusta

Markmið þjón­ust­unnar er að efla einstak­linginn til sjálfs­hjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heima­húsi við sem eðli­leg­astar aðstæður. Heima­þjón­usta er veitt þeim sem geta ekki hjálp­ar­laust séð um heim­il­is­hald vegna skertrar getu eins og veik­inda, álags, öldrunar eða fötl­unar.

Gjald er tekið fyrir heima­þjón­ustuna og fer upphæðin eftir tilteknum tekju­við­miðum. Þeir sem eru undir lágmarks tekju­mörkum fá þjón­ustuna gjald­frjálst en þeir sem eru yfir efri tekju­mörkum greiða fullt verð fyrir þjón­ustuna. Miðað er við tekjur næstliðins árs.


Félagsleg ráðgjöf

Markmið félags­legrar ráðgjafar er að veita upplýs­ingar og leið­bein­ingar um félagsleg rétt­indamál annars vegar og stuðning vegna félags­legs og persónu­legs vanda hins vegar. Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar á sviði fjár­mála, húsnæð­is­mála, uppeld­is­mála, skiln­að­ar­mála, þar með talinna forsjár- og umgengn­is­mála, ættleið-ingar­mála o.fl. Henni skal ætíð beitt í eðli­legu samhengi við aðra aðstoð samkvæmt lögum um félags­þjón­ustu sveit­ar­fé­laga og í samvinnu við aðra þá aðila sem bjóða upp á slíka þjón­ustu, svo sem skóla og heilsu­gæslu-stöðvar eftir því sem við á. Í þeim tilvikum sem nauðsyn krefur verður málum vísað til sérfræð­inga eða leitað aðstoðar þeirra að öðru leyti að gefnu leyfi frá ráðþega.

Upplýs­ingar um opin­bera þjón­ustu á Íslandi www.island.is


Fjárhagsaðstoð

Fjár­hags­að­stoð er veitt í tengslum við félags­lega ráðgjöf og önnur úrræði eftir því sem við á hverju sinni. Markmið fjár­hags­að­stoðar er ávallt að hjálpa einstak­lingnum til sjálfs­hjálpar.

Starfs­menn félags­þjón­ust­unnar veita allar upplýs­ingar í síma en umsækj­andi um fjár­hags­að­stoð þarf að panta og fara í viðtal hjá félags­mála­stjóra áður en umsókn er tekin fyrir.

Réttur til fjár­hags­að­stoðar

Fjár­hags­að­stoð er veitt vegna fram­færslu einstak­linga og fjöl­skyldna. Rétt á fjár­hags­að­stoð eiga þeir sem eru fjár­ráða, eiga lögheimili í Vest­ur­byggð og hafa tekjur undir ákveðnum viðmið­un­ar­mörkum. Atvinnu­rek­endur og sjálf­stætt starf­andi einstak­lingar þurfa að hafa hætt rekstri og lagt inn virð­is­auka­númer til að geta sótt um fjár­hags­að­stoð.
Aðstoðin er í formi styrks eða láns. Jafnan eru kann­aðir aðrir mögu­leikar en fjár­hags­að­stoð. Um fjár­hags­að­stoð í Vest­ur­byggð gilda reglur sem bæjar­stjórn hefur samþykkt í samræmi við lög.


Íþrótta- og tómstundastyrkur til lágtekjuheimila

Stjórn­völd hafa ákveðið að verja 600 millj­ónum króna í styrki til tekju­lágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Samþykktin er hluti af umfangs­miklum aðgerðum og viðbrögðum stjórn­valda til að mæta efna­hags­legum afleið­ingum af völdum COVID-19 heims­far­ald­ursins. Hámarks­styrkur er 45.000kr á hvert barn á grunn­skóla­aldri þeirra heimila sem samkvæmt skil­grein­ingu teljast lágtekju­heimili.

Skil­yrði þess að þiggja styrkinn

Heim­ilis­tekjur (tekjur foreldra/forsjár­aðila) undir 740.000kr að meðal­tali mánuðina mars-júlí 2020 teljast lágtekju­heimili. Ekki er tekið tillit til tekna annarra heim­il­is­manna s.s. eldri systkina í þessu samhengi. Þar sem styrk­urinn er ætlaður til niður­greiðslu á iðkenda­gjöldum í íþrótta- og tómstund­a­starfi grunn­skóla­barna verður umsækj­andi að eiga barn/börn á grunn­skóla­aldri. Styrkinn ber að nýta á skóla­árinu 2020-2021 og þarf umsókn að berast fyrir 1. mars 2021.

Hvernig veit ég hvort ég búi á lágtekju­heimili?

Forsenda þess að sækja um styrkinn er að umsækj­endur hafi kannað hvort þau uppfylli skil­yrði þess búa á lágtekju­heimili. Það er gert með heim­sókn inn á www.island.is – sjá hlekk hér til hliðar.

Hvernig sæki ég svo um styrkinn?

Þegar þú hefur kannað rétt þinn á styrknum og fengið svar um að þú uppfyllir skil­yrðin, fyllir þú út eyðu­blaðið „íþrótta- og tómstunda­styrkur til lágtekju­heimila“ hér á heima­síðu Vest­ur­byggðar – sjá hlekk hér til hliðar. Íþrótta- og tómstunda­full­trúi fær umsóknina rafrænt, fer yfir málið og setur sig í samband við umsækj­endur.


Sérstakur húsnæðisstuðningur

Sérstakur húsnæð­isstuðn­ingur er veittur skv. 2.mgr.45.gr laga um félag­þjón­ustu sveit­ar­fé­laga nr.40/1991.

Sérstakur húsnæð­isstuðn­ingur er annars vegar fyrir 18 ára og eldri sem geta ekki séð sér og sínum fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar fram­færslu­byrði eða annarra félags­legra aðstæðna og hins vegar fyrir foreldra 15 – 17 ára nemenda sem búa fjarri foreldrum sínum vegna náms. Sjá reglur Vest­ur­byggðar.