Aðrar kirkjur
Tíu kirkjur eru í sveitarfélaginu, margar hverjar sögulegar byggingar sem geyma enn merkari sögu mannlífs á Íslandi.
Breiðavíkurkirkja
Breiðavík er bær og kirkjustaður við samnefnda vík í hinum forna Rauðasandshreppi. Þar var bænhús framan af öldum en sóknarkirkjan var sett 1824. Henni var þjónað frá Sauðlauksdal, en nú frá Patreksfirði.
Kirkjan, sem nú stendur í Breiðuvík, var byggð árið 1960. Ýmsir gripir úr Breiðuvíkurkirkjum eru í minjasafninu að Hnjóti.
Brjánslækjarkirkja
Brjánslækur er fornt höfuðból, kirkjustaður og lengi prestssetur við mynni Vatnsfjarðar á Barðaströnd. Kaþólskar kirkjur þar voru helgaðar heilögum Gregoríusi. Útkirkja var í Haga.
Prestakallið var lagt niður 1970 og sóknir þess lagðar til Sauðlauksdals. Þá hafði enginn prestur setið á Brjánslæk frá 1935.
Núverandi kirkja var vígð 1908. Hún var byggð eftir teikningum Rögnvalds Á. Ólafssonar. Þórarinn B. Þorláksson, listmálari, málaði altaristöfluna 1912. Hún sýnir Krist með lamb í fanginu. Í kirkjunni er kaleikur frá 1804.
Hagakirkja
Í Haga á Barðaströnd var kirkja helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Þar var útkirkja frá Brjánslæk á meðan þar var prestakall, en síðan var sóknin lögð til Sauðlauksdals. Núverandi kirkja var byggð 1897–99 og vígð 12. nóvember 1899. Yfirsmiður var Magnús Magnússon frá Flatey.
Eigendur kirkjunnar voru Björn Sigurðsson, kaupmaður í Flatey, og fleiri. Þeir höfðu látið smíða kirkju í Haga 1892 en hún fauk snemma vetrar 1897 og önnur var reist strax í staðinn. Hagakirkja var bændakirkja til 1952, þegar söfnuðurinn tók við henni af eigendunum, Hákoni J. Kristóferssyni og Nielsi P. Sigurðssyni í Reykjavík.
Kirkjan er byggð úr timbri og allvel búin gripum, m.a. kaleik úr gulli og silfri, gömlu skírnarfati úr eiri með upphleyptum myndum, fjórum altarisstjökum úr kopar, róðukrossi á altari og altarisklæðum með ártalinu 1649. Predikunarstóllinn með myndum af guðspjallamönnunum er frá 1745. Anker Lund málaði myndina af kvöldmáltíðinni í Emmaus á altaristöflunni árið 1900.
Stóra–Laugardalskirkja
Stóri–Laugardalur er bær og kirkjustaður við norðanverðan Tálknafjörð. Áður fyrr var búið í Stóra–Laugardal.
Stóra–Laugardalskirkja er eldri sóknarkirkja Tálknfirðinga en Tálknafjarðarkirkja var vígð árið 2002.
Stóra–Laugardalskirkja var vígð annan sunnudag í níuviknaföstu þann 3. febrúar árið 1907 af þáverandi sóknarpresti sr. Magnúsi Þorsteinssyni sem sat í Selárdal í Arnarfirði. Kirkjan er stokkbyggt timburhús, teiknuð og tilsniðin í Noregi. Bygging hennar hófst sumarið 1906 en efnið var flutt inn frá Noregi og kostaði Guðmundur Jónsson bóndi í Laugardal smíðina en yfirsmiður var Jón Jónsson timburmeistari.
Kirkjan tekur 120 manns í sæti og er prédikunarstóllinn einn af merkum gripum hennar. Sagt er að hann hafi staðið í dómkirkjunni í Óðinsvéum í Danmörku og að danskur kaupmaður hafi gefið kirkjunni hann. Kaleikur kirkjunnar er gylltur og forn og á annarri kirkjuklukkunni er áletrunin: „Torolfer Ulafsen, anno 1701″.
Altaristafla kirkjunnar er eftirlíking af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci.
Orgel kirkjunnar er einnig hinn merkasti gripur en það var smíðað af Ísólfi Pálssyni og er sennilega frá því um 1920.
Stóra–Laugardalskirkja er friðuð frá 1. janúar 1990.
Í kaþólskri tíð voru kirkjur í Stóra–Laugardal helgaðar Maríu guðsmóður og heilögum Nikulási.
Stóra–Laugardalskirkju var þjónað af Selárdalsprestum en reiðvegur liggur frá Stóra–Laugardal til Ketildala við Arnarfjörð niður í Fífustaðadal. Það er annexíuvegur Selárdalspresta að Stóra–Laugardal en kirkjan var annexía frá Selárdal til 1907. Annar vegur liggur upp frá Krossdal, ysta bæ við norðanverðan Tálknafjörð, um Selárdalsheiði og niður í Selárdal.
Ýmsar sögur eru til um eignarhald Stóru–Laugardalskirkju en Einar Benediktsson mun hafa eignast kirkjuna á sínum tíma, sem og jörðina sem Tálknafjarðarkirkja stendur á, en mun aldrei hafa greitt fyrir eignirnar.
Þann 29. september 2007 var 100 ára afmælis kirkjunnar minnst með guðsþjónustu að viðstöddum prófasti, sóknarpresti og fyrri þénurum. Af því tilefni voru kirkjunni gefnir sérstakir viðhafnarstólar.
Upplýsingar meðal annars fengnar frá nat.is