Aðrar kirkjur

Tíu kirkjur eru í sveit­ar­fé­laginu, margar hverjar sögu­legar bygg­ingar sem geyma enn merkari sögu mann­lífs á Íslandi.

Breiðavíkurkirkja

Breiðavík er bær og kirkju­staður við samnefnda vík í hinum forna Rauðasands­hreppi.  Þar var bænhús framan af öldum en sókn­ar­kirkjan var sett 1824.  Henni var þjónað frá Sauð­lauksdal, en nú frá Patreks­firði.

Kirkjan, sem nú stendur í Breiðuvík, var byggð árið 1960.  Ýmsir gripir úr Breiðu­vík­ur­kirkjum eru í minja­safninu að Hnjóti.


Brjánslækjarkirkja

Brjáns­lækur er fornt höfuðból, kirkju­staður og lengi prests­setur við mynni Vatns­fjarðar á Barða­strönd. Kaþólskar kirkjur þar voru helg­aðar heil­ögum Greg­oríusi. Útkirkja var í Haga.

Prestakallið var lagt niður 1970 og sóknir þess lagðar til Sauð­lauks­dals.  Þá hafði enginn prestur setið á Brjánslæk frá 1935.

Núver­andi kirkja var vígð 1908.  Hún var byggð eftir teikn­ingum Rögn­valds Á. Ólafs­sonar.  Þórarinn B. Þorláksson, list­málari, málaði altar­is­töfluna 1912.  Hún sýnir Krist með lamb í fanginu.  Í kirkj­unni er kaleikur frá 1804.


Hagakirkja

Í Haga á Barða­strönd var kirkja helguð heil­ögum Nikulási í kaþólskum sið. Þar var útkirkja frá Brjánslæk á meðan þar var prestakall, en síðan var sóknin lögð til Sauð­lauks­dals. Núver­andi kirkja var byggð 1897–99 og vígð 12. nóvember 1899. Yfir­smiður var Magnús Magnússon frá Flatey.

Eigendur kirkj­unnar voru Björn Sigurðsson, kaup­maður í Flatey, og fleiri.  Þeir höfðu látið smíða kirkju í Haga 1892 en hún fauk snemma vetrar 1897 og önnur var reist strax í staðinn. Haga­kirkja var bænda­kirkja til 1952, þegar söfn­uð­urinn tók við henni af eigend­unum, Hákoni J. Kristó­fers­syni og Nielsi P. Sigurðs­syni í Reykjavík.

Kirkjan er byggð úr timbri og allvel búin gripum, m.a. kaleik úr gulli og silfri, gömlu skírn­ar­fati úr eiri með upphleyptum myndum, fjórum altar­is­stjökum úr kopar, róðukrossi á altari og altar­i­s­klæðum með ártalinu 1649.  Predik­un­ar­stóllinn með myndum af guðspjalla­mönn­unum er frá 1745.  Anker Lund málaði myndina af kvöld­mál­tíð­inni í Emmaus á altar­is­töfl­unni árið 1900.


Stóra–Laugardalskirkja

Stóri–Laug­ar­dalur er bær og kirkju­staður við norð­an­verðan Tálkna­fjörð. Áður fyrr var búið í Stóra–Laug­ardal.

Stóra–Laug­ar­dals­kirkja er eldri sókn­ar­kirkja Tálkn­firð­inga en Tálkna­fjarð­ar­kirkja var vígð árið 2002.

Stóra–Laug­ar­dals­kirkja var vígð annan sunnudag í níuvikna­föstu þann 3. febrúar árið 1907 af þáver­andi sókn­ar­presti sr. Magnúsi Þorsteins­syni sem sat í Selárdal í Arnar­firði. Kirkjan er stokk­byggt timb­urhús, teiknuð og tilsniðin í Noregi. Bygging hennar hófst sumarið 1906 en efnið var flutt inn frá Noregi og kostaði Guðmundur Jónsson bóndi í Laug­ardal smíðina en yfir­smiður var Jón Jónsson timb­ur­meistari.

Kirkjan tekur 120 manns í sæti og er prédik­un­ar­stóllinn einn af merkum gripum hennar. Sagt er að hann hafi staðið í dómkirkj­unni í Óðinsvéum í Danmörku og að danskur kaup­maður hafi gefið kirkj­unni hann. Kaleikur kirkj­unnar er gylltur og forn og á annarri kirkju­klukk­unni er áletr­unin: „Torolfer Ulafsen, anno 1701″.

Altar­is­tafla kirkj­unnar er eftir­líking af síðustu kvöld­mál­tíð­inni eftir Leon­ardo da Vinci.

Orgel kirkj­unnar er einnig hinn merk­asti gripur en það var smíðað af Ísólfi Páls­syni og er senni­lega frá því um 1920.

Stóra–Laug­ar­dals­kirkja er friðuð frá 1. janúar 1990.

Í kaþólskri tíð voru kirkjur í Stóra–Laug­ardal helg­aðar Maríu guðs­móður og heil­ögum Nikulási.

Stóra–Laug­ar­dals­kirkju var þjónað af Selár­dal­sprestum en reið­vegur liggur frá Stóra–Laug­ardal til Ketildala við Arnar­fjörð niður í Fífustaðadal. Það er annex­íu­vegur Selár­dal­spresta að Stóra–Laug­ardal en kirkjan var annexía frá Selárdal til 1907. Annar vegur liggur upp frá Krossdal, ysta bæ við norð­an­verðan Tálkna­fjörð, um Selár­dals­heiði og niður í Selárdal.

Ýmsar sögur eru til um eign­ar­hald Stóru–Laug­ar­dals­kirkju en Einar Bene­diktsson mun hafa eignast kirkjuna á sínum tíma, sem og jörðina sem Tálkna­fjarð­ar­kirkja stendur á, en mun aldrei hafa greitt fyrir eign­irnar.

Þann 29. sept­ember 2007 var 100 ára afmælis kirkj­unnar minnst með guðs­þjón­ustu að viðstöddum prófasti, sókn­ar­presti og fyrri þénurum. Af því tilefni voru kirkj­unni gefnir sérstakir viðhafn­ar­stólar.


Upplýs­ingar meðal annars fengnar frá nat.is