Bíldudalskirkja
Kirkjan á Bíldudal er teiknuð af Rögnvaldi Á. Ólafssyni og var vígð 1906. Í henni er predikunarstjóll frá 1699.
Bíldudalskirkja tilheyrir Patreksfjarðarprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi. Bíldudalskirkja var vígð 2. desember 1906. Áður sóttu íbúar Suðurfjarða til Otradalskirkju.
Þegar íbúum Bíldudals fór fjölgandi um aldamótin 1900 kom brátt í ljós að þeir undu því illa að hafa ekki kirkju á staðnum. Kirkjusókn var til Otradals og lá landleiðin yfir Litlueyrarós, Byltu og fyrir Haganes.
Um og eftir aldamótin tók Málfundafélagið Bíldur, er þá starfaði af miklum krafti, málið upp og náðist samstaða um að byggja kirkju á Bíldudal.
Bíldudalskirkja var byggð 1905-1906 og vígð 2. desember 1906 af þáverandi prófasti sr. Bjarna Símonarsyni á Brjánslæk ásamt sr. Böðvari Bjarnasyni á Hrafnseyri og sóknarpresti sr. Jóni Árnasyni en sr. Jón Árnason hafði verið vígður til Otradals árið 1891.
Í Otradal hafði verið prestur og sóknarkirkja Suðurfjarða frá öndverðu og er hennar getið í kirknatali Páls Jónssonar frá 1200. Ekki er lengur kirkja í Otradal en nokkur minnismerki er að finna þar í gamla kirkjugarðinum.
Arkitekt Bíldudalskirkju er Vestfirðingurinn Rögnvaldur Á. Ólafsson sem oft hefur verið nefndur fyrsti íslenski arkitektinn. Kirkjan er steinsteypuhús og er fyrsta steinsteypubyggingin sem Rögnvaldur teiknaði. Hún er meðal annars sérstök fyrir það að í yfirborð útveggja hennar eru grópaðar fúgur í líki steinhleðslu. Upphaflega var kirkjan með skorstein á vestari enda gengt turni. Um langt árabil var einnig ljósakross á turninum en í dag skartar kirkjan sínum upphaflega krossi.
Aðrar kirkjur sem Rögnvaldur teikaði eru Þingeyrarkirkja, Gufudalskirkja og Hjarðarholtskirkja í Dölum en hann teiknaði margar fleiri.
Bíldudalskirkja er friðuð frá 1. janúar 1990.