Sauðlauksdalskirkja
Kirkjan í Sauðlauksdal er frá 1863 en þar hefur staðið kirkja frá því á 16. öld. Í kirkjunni sem er afar falleg er messað fimm til sex sinnum á ári.
Sauðlauksdalskirkja sem nú stendur er byggð árið 1863 en áður hafði staðið kirkja í Sauðlauksdal frá því snemma á 16. öld og þar áður bænhús um aldir.
Á árunum 1993-1997 var kirkjan algerlega endurbyggð frá grunni og reynt að miða við upphaflega gerð.
Kirkjan er eitt fegursta guðshús landsins, látlaus í fegurð sinni og yfirlætislaus og á marga merkisgripi og fagra. Prédikunarstólinn og hjálmur hans þykja afar fagrir.
Að jafnaði er messað fimm til sex sinnum á ári í kirkjunni.
Margir merkisklerkar hafa í gegnu tíðina setið í Sauðlaugksdal og nægir þar að nefna sr. Björn Halldórsson er fyrstur ræktaði kartöflur á Íslandi og var umhugað um margs konar framfarir í þjóðlífinu. Prestar sátu staðinn allt fram undir 1964 er síðasti prestur sem sat í Sauðlauksdal fór til annars embættis. Eftir það hefur sókninni að mestu leyti verið þjóðnað frá Patreksfirði að undanskildu stuttu tímabili í kringum 1990 en búseta prests í Sauðlauksdal hefur ekki verið síðan 1964.