Selár­dals­kirkja

Kirkjan í Selárdal við Arnar­fjörð er frá 1861. Kirkja og prest­setur hefur verið á staðnum lengst af en árið 1907 var kirkjan sett undir þáver­andi Bíldu­dal­sprestakall.

Kirkja og prests­setur hefur lengst af verið í Selárdal og þótti stað­urinn um langan aldur meðal merk­ustu brauða landsins.

Kirkju­stað­urinn er á hóli í dalnum. Þar var kirkja helguð heil­agri Maríu og Pétri postula í kaþólskum sið. Útkirkja var í Stóra-Laug­ardal í Tálkna­firði og fóru Selár­dal­sprestar jafnan reið­veginn um Selár­dals­heiði til hennar. Jörðin í Selárdal varð eign kirkj­unnar í Staða­málum á 13. öld en þá er hennar fyrst getið.

Árið 1907 var Selár­dal­sprestakall lagt niður og Selár­dals­sókn lögð til Bíldu­dal­sprestakalls. Stóri-Laug­ar­dalur var þá gerður að annexíu frá Patreks­firði.

Núver­andi kirkja í Selárdal er timb­ur­kirkja reist árið 1861. Á 100 ára afmæli hennar var hún að heita má smíðuð upp að nýju. Hún á marga merka muni en meðal þeirra er forn predik­un­ar­stóll með máluðum myndum af Móse og spámönnum, altar­is­tafla frá 1752 sem er dönsk og sýnir kvöld­mál­tíðina, vand­aður kaleikur frá 1765 og patína.

Búið er að afhelga kirkjuna og stóð jafnvel til að hún yrði rifin en átthaga­fé­lagið Skjöldur hefur nú um skeið staðið að endur­bótum og viðhaldi kirkj­unnar og er ljóst að hún mun standa áfram.