Hoppa yfir valmynd

Málefni Birkimelsskóla

Málsnúmer 1602059

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

26. apríl 2016 – Fræðslu og æskulýðsráð

Eftir ítarlegt samráð við foreldra barna á skólaaldri á næsta skólaári á Barðaströnd, kennara og skólastjórnendur með aðkomu Ingvars Sigurgeirssonar prófessors, ráðgjafa Vesturbyggðar í skólamálum var tekin sú ákvörðun með hag barnanna að leiðarljósi að þau muni stunda nám með sínum jafnöldrum á Patreksfirði. Keyrt verður daglega á milli, að þeim dögum undanskildum að veður hamli för. Þá daga verður kennt við Birkimelsskóla.

Jafnframt var áveðið að kannað verði hvort grundvöllur sé fyrir því að dagmóðir starfi á Barðaströnd með aðstöðu í Birkimel. Jafnframt verði starfsrækt námsver þar sem nemendur framhaldskóla og háskóla á svæðinu hafi aðstöðu.




22. mars 2016 – Bæjarráð

Lagt fram vinnuskjal Ingvars Sigurgeirssonar, skólaráðgjafa um kennslu barna á Barðaströnd skólaárið 2016-2017.
Bæjarráð vísar skjalinu til fræðslu- og æskulýðsráðs til umfjöllunar.




17. mars 2016 – Fræðslu og æskulýðsráð

Vísað er í fundargerð 21. fundar fræðslu- og æskulýðsráðs frá 15. mars sl.
Ingvar Sigurgeirsson, skólaráðgjafi gerði grein fyrir tillögum sínum í málefnum Birkimelsskóla.
Umræður urðu um tillögurnar og Ingvari falið að leggja fram lokatillögur.




15. mars 2016 – Fræðslu og æskulýðsráð

Vísað er í bókun bæjarstjórnar á 293. fundi 24. febrúar sl. um framtíð skólastarfs í Birkimelsskóla:
"Fyrir liggur að einungis tvö börn verði á grunnskólaaldri á Barðaströnd á næsta skólaári og því er rétt að taka skólahald á Birkimel til skoðunar með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Kannaðar verði allar mögulegar leiðir, t.d. heima- og fjarkennsla eða blandað fyrirkomulag. Ef til lokunar kæmi, líkt og fram kom í stefnuræðu bæjarstjórnar við fjárhagsáætlun 2016, verður sú ákvörðun tekin til endurskoðunar ef forsendur breytast. Ekki stendur til að leggja skólann niður eða selja húsnæðið enda fullur skilningur bæjarstjórnar á aðstæðum á Barðaströnd.
Bæjarstjórn hefur óskað eftir aðkomu Ingvars Sigurgeirssonar, skólaráðgjafa við ákvarðanatöku um Birkimelsskóla og áframhaldandi fyrirkomulag. Fyrirhugaður er fundur bæjarráðs, fræðslu- og æskulýðsráðs og Ingvars Sigurgeirssonar með foreldrum barna á leik- og grunnskólaaldri á Barðaströnd."

Fundurinn í Birkimelsskóla var lokaður upplýsinga- og samráðfundur aðila máls eða foreldra barna á Barðaströnd, sem verða á leik- og grunnskólaaldri skólaárið 2016-2017.
Almennt var á fundinum rætt um íbúaþróunina á Barðaströnd og hugsanlega flutninga ungs fólks þangað, um skólastarfið í Birkimelsskóla, möguleika á að grunnskólaskyld börn á Barðaströnd sæki skóla á Patreksfirði, um fjarkennslu og heimakennslu, um skólaakstur milli Barðastrandar og Patreksfjarðar, um leikskólavist og dagmæður á Barðaströnd, sem hafi starfsemi í Birkimelsskóla, svo og um blandaða sveigjanlega leið kennslu í Birkimelsskóla og Patreksskóla.

Fullur skilningur fræðsluráðs er á mikilvægi skólans sem er ein af forsendum þess að ungt barnafólk vilji flytja á staðinn og þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi á á Barðaströnd. Ef til lokunar kæmi, líkt og fram kom í stefnuræðu bæjarstjórnar við fjárhagsáætlun 2016, yrði sú ákvörðun tekin til endurskoðunar ef forsendur breytast. Ekki stendur til hjá núverandi bæjarstjórn né er vilji til þess í fræðsluráði að leggja skólann niður eða selja húsnæðið. Vonir standa til hjá íbúum og bæjarfulltrúum að yngra fólk flytji á svæðið og börnum fjölgi aftur í byggðalaginu, og er mikilvægt að skólinn sé tryggður ef forsendur breytast og börnum á skólaaldri fjölgi aftur í sveitinni.

Í framhaldi af fundinum mun Ingvar Sigurgeirsson vinna úr þeim tillögum sem fram komu í samráði við fræðsluráð, foreldra og skólastjórnendur Grunnskóla Vesturbyggðar.




8. mars 2016 – Bæjarráð

Lagt fram dreifibréf dags. 22. feb. sl. frá Jóhanni Pétri Ágústssyni og Halldóru I. Ragnarsdóttur, Brjánslæk um málefni Birkimelsskóla.
Lagt fram til kynningar.