Hoppa yfir valmynd

Ársreikningur 2018

Málsnúmer 1903196

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

2. maí 2019 – Bæjarráð

Lögð fram drög að ársreikningi Vesturbyggðar og stofnana hans fyrir árið 2018 ásamt fylgigögnum.
Bæjarráð vísar ársreikningi 2018 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.




2. maí 2019 – Bæjarstjórn

Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur Vesturbyggðar og stofnana hans fyrir árið 2018 ásamt endurskoðunarskýrslu. Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi KPMG sat fundinn í fjarfundi á Skype og kynnti endurskoðunarskýrslu ársreiknings 2018.

Til máls tóku: Forseti, JG, Bæjarstjóri og ÁS.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi 2018 til seinni umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem verður miðvikudaginn 15. maí nk.




15. maí 2019 – Bæjarstjórn

Lagður fram til seinni umræðu ársreikningur Vesturbyggðar og stofnana hans fyrir árið 2018 ásamt sundurliðunarbók og skýrslu löggiltra endurskoðenda sveitarfélagsins. Haraldur Örn Reynisson frá KPMG og endurskoðandi sveitarfélagsins sat fundinn í fjarfundi á skype og svaraði spurningum bæjarfulltrúa.

Til máls tóku: Forseti og FM.

Ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

Rekstrartekjur A og B hluta bæjarsjóðs voru 1.486 millj. kr., þar af voru 1.302 millj. kr. vegna A hluta. Samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta bæjarsjóðs var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 96 millj. kr. en í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 35,7 millj. kr.

Fjárfest var á árinu fyrir 154 millj. kr. í fastafjármunum og tekin voru ný lán á árinu 2018 að fjárhæð 378 millj. kr. Afborganir langtímalána námu 153 millj. kr. en stærsti hluti lántöku var vegna skuldbindingar sem Vesturbyggð þurfti að taka á sig vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð, eða um 167 millj. kr.

Heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi A og B hluta námu 2.495 millj. kr. í árslok 2018.

Skuldir A hluta námu í árslok 2018 1.432 millj. kr., heildarskuldbindingar (A og B hluta) námu um 1.973 millj. kr. og höfðu hækkað um réttar 283 millj. kr. frá árinu 2017.

Skuldaviðmið var 109% í árslok 2018 og er óbreytt frá árslokum 2017.
Eigið fé sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi var 522 millj. kr. í árslok 2018 og var eiginfjárhlutfall 20,9% en var 25,2% árið áður.

Veltufé frá rekstri í samanteknum ársreikningi A og B hluta var 51,9 millj. kr. Nam handbært fé í árslok 3,7 millj. kr. en var 52 millj. kr. árið áður.

Lakari afkoma ársins skýrist af auknum launakostnaði m.a. í grunn- og leikskólum Vesturbyggðar, auknum sérfræðikostnaði, lakari afkomu hafnarsjóðs og hækkun fjármagnskostnaðar. Þá hafi einstaka framkvæmdir farið fram úr fjárhagsáætlun 2018, og var brugðist við því með því að draga úr öðrum framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru í sveitarfélaginu það ár.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG fyrir árið 2018 sem og í stjórnsýsluskoðunum frá árinu 2015 hefur ítrekað verið bent á það að ekki hafi verið gætt að ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um gerð viðauka við fjárhagsáætlun, áður en stofnað er til útgjalda eða skuldbindinga sem ekki er heimild fyrir í fjárhagsáætlun.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur þegar farið í endurskoðun á verklagi við vinnslu og gerð viðauka, þannig að viðaukar og staðfesting þeirra sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og tryggt sé að framkvæmdir séu ekki hafnar fyrr en samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun liggur fyrir.

Til að bregðast við neikvæðri rekstrarafkomu hefur Bæjarstjórn Vesturbyggðar á síðustu mánuðum unnið að breytingum er snerta m.a. rekstur sveitarfélagsins, svo sem með nýju skipuriti sem tók gildi 1. maí sl. þar sem betri umgjörð er um stjórnsýslu sveitarfélagsins og ábyrgðir starfsmanna og stjórnenda. Þá hefur Bæjarstjórn Vesturbyggðar endurskoðað verklag við gerð fjárhagsáætlunar og sett sér skýr markmið við gerð hennar. Teknir hafa verið upp skýrari verkferlar við meðferð fjármuna og innra eftirlit með ráðstöfun fjármuna verulega aukið. Bæjarstjórn Vesturbyggðar mun á árinu 2019 vinna að frekari greiningu á rekstri sveitarfélagsins og horfa til hagræðingar.