Hoppa yfir valmynd

Um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldssjóðs, 710. mál - Atvinnuveganefnd Alþingis

Málsnúmer 1903391

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

25. mars 2019 – Hafna- og atvinnumálaráð

Lögð fram beiðni atvinnuveganefndar Alþingis dags. 22. mars 2019 um umsögn um frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, 710. mál. Hafna- og atvinnumálaráð leggur til að allur sá hluti gjaldsins sem áætlað er að fari í fiskeldissjóð renni beint til þeirra sveitarfélaga þar sem tekjurnar verða til.




27. mars 2019 – Bæjarstjórn

Lögð fram beiðni atvinnuveganefndar Alþingis dags. 22. mars 2019 um umsögn um frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, 710. mál.

Varaforseti lagði fram tillögu að eftirfarandi bókun:
Vesturbyggð skilaði athugasemdum við vinnslu frumvarpsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar sl. Frumvarp það sem atvinnuveganefnd hefur nú til meðferðar er nokkuð breytt frá þeim drögum sem kynnt voru í upphafi árs og brugðist hefur verið við mörgum þeim athugasemdum sem sveitarfélagið gerði við drögin.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar því að frumvarpið geri ráð fyrir að hluti þess gjalds sem lagt verður á rekstraraðila í fiskeldi muni renna til sveitarfélaga til að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs. Bæjarstjórn Vesturbyggðar gerir þó athugasemd við það að aðeins þriðjungur tekna vegna gjaldtökunnar skuli renna til sveitarfélaga. Í frumvarpinu er ekki rökstutt sérstaklega tillaga um ráðstöfun gjaldsins úr ríkissjóði og þá skiptingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þannig virðist ekki tekið tillit til tillagna í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá 21. ágúst 2017, þar sem lagt var til að stærstum hluta gjaldsins verði ráðstafað til þeirra landsvæða sem hafa aðkomu að fiskeldi í sjókvíum, eða 85% af innheimtu gjaldi né er tekið tillit til ráðstöfunar sambærilegra gjalda í Noregi í gegnum Havbruksfondet, þar sem 87,5% tekna sjóðsins renna til sveitarfélaga. Skýtur það því skökku við að aðeins þriðjungur þess gjalds sem rekstraraðilar í fiskeldi greiða í ríkissjóð sé til skiptana fyrir þau sveitarfélög sem bera innviðauppbygginguna og ber að veita aukna þjónustu. Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur því til að skipting tekna af gjaldtökunni verði endurskoðuð. Bæjarstjórn Vesturbyggðar gerir einnig athugasemd við það að í frumvarpinu er ekki skilgreint hvaða uppbyggingu þjónustu, Fiskeldissjóðnum er ætlað að styrkja. Í greinargerð frumvarpsins segir að horft verði til uppbyggingar á þjónustu sem tengist uppgangi fiskeldis. Óskýrt er af frumvarpinu hvaða þjónusta fellur þar undir, hvort það sé aðeins hafsækin þjónusta eða til uppbyggingar íbúðahúsnæðis og skóla, aukinnar þjónustu við íbúa og svo framvegis. Vesturbyggð hefur staðið frammi fyrir mörgum og ólíkum verkefnum sem tengjast innviðauppbyggingu vegna uppbyggingar fiskeldis. Má þar nefna skipulagsvinnu vegna vinnslu deiliskipulaga fyrir athafnasvæði, breytingar á aðalskipulagi og endurbætur á hafnarmannvirkjum, svo eitthvað sé nefnt en kostnaður við þau verkefni og framkvæmdir hleypur á milljónum króna. Þá hefur Vesturbyggð staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum vegna fjölgunar íbúa, aukinni eftirspurn eftir húsnæði og kröfum um aukið þjónustustig fyrir íbúa en á það hefur m.a. verið bent í skýrslu Byggðastofnunar um Byggðaleg áhrif fiskeldis frá ágúst 2017. Mikilvægt er því að ráðstöfun úr Fiskeldissjóði, verði frumvarpið að lögum, nýtist sannarlega til að styrka uppbyggingu innviða hjá þeim sveitarfélögum þar sem fiskeldi er stundað. Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar því ennig að fleiri þrep séu tekin í gjaldtöku á rekstraraðila í fiskeldi svo eðlilegt svigrúm skapist fyrir rekstraraðila til þess að ná þeim stöðuleika sem nauðsynlegur er í rekstrarumhverfi fyrirtækja í fiskeldi sem og að uppbyggingafasa rekstraraðila verði þá að mestu lokið áður en til gjaldtöku kemur.

Varaforseti leggur til að bæjarstjóra verði falið að senda atvinnuveganefnd Alþingis umsögn um frumvarpið innan frests.

Samþykkt samhljóða.