Hoppa yfir valmynd

Hvað er að frétta af félags­mið­stöðv­unum?

Í Vest­ur­byggð eru starf­ræktar tvær félags­mið­stöðvar fyrir ungmenni á aldr­inum 13-16 ára. Önnur félags­mið­stöðin er stað­sett á Bíldudal og heitir Dímon, hin félags­mið­stöðin er stað­sett á Patreksfirði og heitir Vest-End. Þær eru opnar tvö kvöld í viku, tvo tíma í senn.  


Skrifað: 12. mars 2024

Fréttir

Í dag, þriðjudaginn 12. mars, liggur leið þeirra á Reykhóla þar sem þau munu í fyrsta skipti fara á SamVest, en þar koma saman ungmenni frá Vesturlandi og stórum hluta Vestfjarða. SamVest er söngkeppni þar sem valdir eru fulltrúar sem stíga svo á svið í Laugardalshöll á söngvakeppni Samfés og er því um að ræða undankeppni á Reykhólum. Að henni lokinni verður haldið ball. 

Andvökunótt

Krakkarnir í félagsmiðstöðvunum fara á hverju vori á SamFestinginn sem er stórt ball í Laugardalshöll. Venja hefur verið að safna áheitum með andvökunótt. Þetta árið var andvökunóttin haldin aðfaranótt laugardagsins 2. mars og gekk ljómandi vel. Þar gerðu krakkarnir ýmislegt skemmtilegt til að halda sér vakandi, en þau meðal annars skreyttu taupoka sem þau munu síðan gefa sínum hverfisverslunum, skreyttu bókamerki sem þau munu færa bókasöfnunum á svæðinu og einnig voru nokkrar ruslatunnur skreyttar sem settar verða upp hér og þar um þorpið.

Hvað er að frétta? er nýr liður á heimasíðunni þar sem birtar verða fréttir frá starfsstöðvum og stofnunum sveitarfélagsins.