Fundur haldinn í Aðalstræti 63, Patreksfirði, 21. mars 2018 og hófst hann kl. 17:00
Fundargerð ritaði
- Þórir Sveinsson skrifstofustjóri
Til kynningar
Fundargerðir til staðfestingar
2. Bæjarráð - 829
Fundargerðin er í 14. töluliðum.
Til máls tók: ÁS.
4.tölul. Samgöngumál.
Rætt um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum í kjölfarið á ástandi vega í Gufudalssveit sl. vikna.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir harðlega seinagangi á framkvæmdum við vegagerð á Vestfjörðum sl. áratugi. Staðan á vegagerð í Gufudalssveit er með öllu fordæmalaus. Saga vegalagningar á þessu svæði er löng. Árið 2006 hafnaði Skipulagsstofnun með úrskurði að vegur yrði lagður um Teigsskóg. Sá úrskurður var kærður til umhverfisráðherra sem sneri við úrskurðinum með vísan í aukið umferðaröryggi. Úrskurður ráðherra var kærður til dómstóla. Héraðsdómur ógilti úrskurðinn, og í október 2009 ógilti Hæstiréttur úrskurð ráðherra á þeim forsendum (alls ólíkum forsendum Héraðsdóms) að ekki mætti taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum. Síðastliðin 12 ár hafa því verið ein samfelld sorgarsaga í vegagerð í Gufudalssveit og stjórnvöld sýnt fullkomið úrræða- og bjargaleysi í þessum málum.
Og nú eru líkur á að vegagerð um Dynjandisheiði verði sama sorgarsagan. Engin fjármögnun liggur fyrir á vegagerðinni og stefnir í að vegurinn um Dýrafjarðargöng verði dýrasti botnlangi sögunnar.
Það er ljóst að Vestfirðingar hafa verið sviknir um vegagerð ítrekað. Einstakir sumarbústaðaeigendur hafa því miður stýrt för og hafa árstíðabundnir hagsmunir þeirra verið látnir ganga framar hagsmunum fólks sem býr á svæðinu.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur Alþingismenn til dáða og til að sýna vilja í verki með aðgerðum og lúkningu vegagerðar á Vestfjörðum.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
3. Bæjarráð - 830
Fundargerðin er í 14. töluliðum.
Til máls tóku: Forseti, ÁS, HS, MJ og NÁJ.
2.tölul. Vinabæjarsamstarf.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að Vesturbyggð segi upp vinabæjarsamstarfi Vesturbyggðar, Nordfyn, Svelvik, Vadstena og Naantali. Bæjarstjórn þakka samstarfið og vináttu í gegnum árin.
6.tölul. Fjórðungssamband Vestfirðinga ? Vestfjarðastofa.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að Vesturbyggð gerist stofnaðili að Vestfjarðastofu.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
5. Fræðslu og æskulýðsráð - 40
Fundargerðin er í 9. töluliðum.
Til máls tóku: Forseti, HS, MJ og ÁS.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
6. Hafnarstjórn - 157
Fundargerðin er í 10. töluliðum.
Til máls tóku: HS, forseti, ÁS og MJ.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
7. Skipulags og umhverfisráð - 45
Fundargerðin er í 11. töluliðum.
Nanna Á. Jónsdóttir lét bóka að hún hafi ekki tekið þátt í afgreiðslu 2.tölul. dagskrár.
Til máls tóku: Forseti, ÁS og MJ.
7.tölul. Umsókn um lóð. Iðnaðarsvæði, Bíldudal.
Lagt fram erindi frá Jóni S. Bjarnasyni f.h. Láss ehf. Í erindinu er sótt um sameiginlega lóðir nr. 14. og nr. 16. við iðnaðar- og hesthúsasvæði á Bíldudal. Áætlað er að byggja 450m2 stálgrindarskemmu auk þess að steypustöð verður sett upp á lóðinni.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða erindið.
10.tölul. Vesturbyggð - lagning ljósleiðara á Barðaströnd.
Lagt fram erindi frá Gerði B. Sveinsdóttur og Davíð R. Gunnarssyni f.h. Vesturbyggðar. Í erindinu er sótt um framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar lagningar ljósleiðara á Barðaströnd. Fyrirhugað er að tengja heimtaugar að öllum bæjum á Barðaströnd sem og frá Þverá að Flókalundi.
Bæjarstjórn samþykkir að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar skriflegt samþykki landeiganda og jákvæð umsögn minjavarðar liggi fyrir. Bæjarstjórn telur að framkvæmdin sé minniháttar. Einnig kallar bæjarstjórn eftir uppmælingu af legu strengsins í heild þegar framkvæmd er lokið, sem og ítarlegri uppdráttum af framkvæmdinni.
11.tölul. Flókalundur - deiliskipulag.
Lögð fram skipulagsáætlun fyrir Flókalund í Vatnsfirði, dagsett mars 2018, f.h. landeigenda, þar sem farið er yfir fyrirhugaða deiliskipulagsvinnu en hugmyndir eru um að stækka núverandi hótel. Deiliskipulagssvæðið nær yfir 10.500 m2.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða deiliskipulagsvinnu. Skipulagsfulltrúa falið að kynna lýsingu deiliskipulags skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:10