Hoppa yfir valmynd

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar 2024 - 2027.

Málsnúmer 2401043

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

11. janúar 2024 – Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps

Rætt um fyrir hugað útboð á Vetrarþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Bókun Tálknafjarðhrepps af 627. fundi hreppsins kynnt.




17. janúar 2024 – Bæjarstjórn

Lagður fyrir listi yfir útboðsverk hjá Vegagerðinni uppfærður 02.01.2024 þar sem m.a. kemur fram að vetrarþjónusta á vegum á Vestfjörðum 2024-2027 verður boðin út á árinu 2024

Til máls tók: Forseti.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók málið fyrir á 627. fundi sveitarstjórnar þar sem eftirfarandi var bókað:

"Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lýsir yfir áhyggjum sínum af mögulega lakari vetrarþjónustu vegna fyrirséðra breytinga í fyrirhuguðu útboði Vegagerðarinnar á vetrarþjónustu á leiðinni Dynjandi-Klettsháls. Ætlun Vegagerðarinnar er að nota sömu tæki á leiðinni frá Dynjanda að Klettshálsi til að opna leiðina og halda henni opinni þann tíma sem vegurinn er þjónustaður. Brýnt er að hafa í huga hversu erfiður fjallvegur Dynjandisheiðin getur verið á snjóþungum vetri og því óttast sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps að slíkt ástand geti komið niður á vetrarþjónustu á leiðinni Flókalundur-Klettsháls ef gengur erfiðlega að opna Dynjandisheiðina. Það má ekki gerast að fyrirkomulag þjónustu valdi því að leiðin að Klettshálsi opni síðar en er í núverandi fyrirkomulagi.

Sveitarstjórnir Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hafa margítrekað kröfur íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum um að bæta og auka vetrarþjónustu enn frekar. Mikið af þungaflutningum til og frá svæðinu fer um Klettsháls auk umferðar almennra íbúa og því er algjört lykilatriði að tryggja að vetrarþjónusta á leiðinni að Klettshálsi sé ávallt eins og best verður á kosið. Öflug vetrarþjónusta á þessum leiðum er besta leiðin til að tryggja umferðaröryggi allra þeirra sem um vegina fara.

Því leggur sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mikla áherslu á að Vegagerðin tryggi að vetrarþjónustu verði ávallt sinnt sem best má verða og að vandað sé til verka við undirbúning útboðs ef breyta á leiðum í vetrarþjónustu".

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur heilsuhugar undir bókun sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps.

Samþykkt samhljóða.




6. febrúar 2024 – Bæjarráð

Lagt er fram svarbréf Vegagerðarinnar, dags. 31. janúar 2024, vegna bókana Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps varðandi fyrirhuguð útboð á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar 2024-2027.

Bæjarráð þakkar Vegagerðinni fyrir svörin og upplýsingarnar, þar sem þær lágu ekki að öllu leyti fyrir þegar bókunin var gerð. Bæjarstjóra falið að funda með Vegagerðinni um vetrarþjónustuna.