Fundur haldinn í fjarfundi, 12. ágúst 2021 og hófst hann kl. 16:00
Nefndarmenn
- Ásdís Snót Guðmundsdóttir (ÁSG) varamaður
- Barði Sæmundsson (BS) aðalmaður
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Jón Garðar Jörundsson (JGJ) aðalmaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) byggingafulltrúi
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi
Almenn erindi
1. Engjar 2. Umsókn um gerð lóðarleigusamnings.
Erindi frá Sonju Ísafold Eliason, dags. 7.júlí 2021. Í erindinu er óskað eftir gerð lóðarleigusamnings fyrir Engjar 2, Patreksfirði. Erindinu fylgir lóðablað, dags. 26. apríl 2017.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.
2. Balar 9-11, umsókn um byggingaráform.
Erindi frá Skemmunni Vatneyri ehf, dags. 9. ágúst 2021. Í erindinu er óskað eftir breytingum á áður samþykktum byggingaráformum við Bala 9-11, Patreksfirði. Breytingin felur í sér fjölgun íbúða úr tveimur í fjórar og breyttu útliti. Erindinu fylgja uppfærðir aðaluppdrættir, dags. 28. febrúar 2021.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir breytt byggingaráform með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu grenndarkynningar. Ráðið felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna framkvæmdina fyrir eigendum fasteignanna að Brunnum 8, 10, 12, 14, 16, 18, 20, og 22 Bölum 4,6, 17, 19, 21 og 23 og Aðalstræti 87A og 89.
3. Tilkynning til Vesturbyggðar - ósk um álit vegna lokunar Siglunesvegar nr. 611 fyrir almennri umferð ökutækja.
Erindi vísað til til umsagnar hjá skipulags- og umhverfisráðs frá 923. fundi bæjarráðs Vesturbyggðar. Lagt fram bréf dags. 1. júní 2021 frá Gísla Gunnari Marteinssyni vegna fyrirhugaðarar lokunar á Siglunesvegi nr. 611 fyrir almennri umferð ökutækja. Í erindinu er óskað eftir áliti Vesturbyggðar á því að veginum verði lokað þar sem ekki liggi fyrir hver er veghaldari eftir að Vegagerðin sagði sig frá veginum og því ekki ljóst hver ber ábyrgð á viðhaldi.
Skipulags- og umhverfisráð harmar ákvörðun Vegagerðarinnar um að fella Siglunesveg nr.611 af vegaskrá.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð að beiðni verði send til Vegagerðarinnar um að Siglunesvegur nr.611 verði aftur flokkaður sem héraðsvegur eða landsvegur, en á svæðinu er ýmiss atvinnustarfsemi svo sem heyskapur, skógrækt og aðgengi að vinsælum útivistarsvæðum og gönguleiðum.
4. Upplýsingastefna Vesturbyggðar 2021
Lögð fram drög að upplýsingastefnu Vesturbyggðar 2021-2023, dags. 28. júní 2021. Markmið upplýsingastefnu Vesturbyggðar er að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins, þannig að allir sem hagsmuna eiga að gæta hafi greiðan aðgang að upplýsingum um starfsemi Vesturbyggðar.
Stefnan nær til allrar starfsemi sveitarfélagsins og tengir því saman ýmsa aðra stefnumótun er varðar upplýsingamiðlun og samskipti við íbúa og fjölmiðla. Upplýsingamiðlun frá Vesturbyggð skal traust og skýr. Mikilvægt er að íbúar hafi greiðan aðgang að upplýsingum og gögnum sem varða stjórn og þjónustu sveitarfélagsins, afgreiðslu mála og annað sem snýr að hagsmunum íbúa.
Skipulags- og umhverfisráð þakkar vinnuhópnum fyrir vel unnin störf og gerir ekki athugasemd við drögin.
Til kynningar
5. Umsókn um stöðuleyfi fyrir vinnubúðir á Brjánslæk
Lögð fram til kynningar umsókn ÍAV ehf. dags. 27. júlí 2021. Bæjarráð tók umsóknina fyrir á 925. fundi sínum þann 4. ágúst s.l. og bókaði eftirfarandi:
Lögð fram umsókn ÍAV hf. um stöðuleyfi fyrir vinnubúðir á Brjánslæk, dags. 27. júlí 2021. Í umsókninni er óskað eftir stöðuleyfi fyrir svefnskála fyrir allt að 30 manns vegna vinnu við uppbyggingu á nýjum Vestfjarðavegi (60) um Dynjandisheiði. Umsókninni fylgir greinagerð, afstöðumynd af staðsetningu vinnubúðanna ásamt samþykki landeiganda (Ríkiseigna). Samþykki landeiganda er veitt með því skilyrði að ábúendur á Brjánslæk veiti samþykki sitt og samráð sé haft við Vegagerðina.
Bæjarráð samþykkir stöðuleyfi til 12 mánaða að uppfylltum skilyrðum landeiganda og skal gengið vel og snyrtilega um svæðið. Bæjarráð felur byggingafulltrúa að svara bréfritara.
Skipulags- og umhverfisráð leggur einnig til að skilyrði fyrir stöðuleyfinu verði að rekstraraðili sýni fram á að hann hafi samið við Terra umhverfisþjónustu hf. eða aðra sambærilega aðila um förgun á sorpi sem fellur til við starfsemina.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:40
Jóhann Pétur Ágústsson boðaði forföll.