Fundur haldinn í fjarfundi, 15. júní 2023 og hófst hann kl. 13:00
Nefndarmenn
- Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir (SSS) varamaður
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Jóhann Pétur Ágústsson (JPÁ) formaður
- Ólafur Byron Kristjánsson (ÓBK) aðalmaður
- Rebekka Hilmarsdóttir (RH) aðalmaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) byggingafulltrúi
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi
Almenn erindi
1. Umsagnarbeiðni - breytingar á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 Ofanflóðavarnir á Flateyri.
Fyrir liggur umsagnarbeiðni frá Ísafjarðarbæ þar sem óskað er eftir umsögn Vesturbyggðar um skipulagslýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020.
Skipulags- og umhverfisráð gerir ekki athugasemdir við framlagða skipulagslýsingu.
2. Erindi frá Halldóri Árnasyni varaformanni Strandveiðifélagsins Króks varðandi skipulag á hafnasvæði.
Erindi frá Halldóri Árnasyni, f.h. Strandveiðifélagsins Króks, dags. 14. maí 2023. Í erindinu er lýst yfir áhyggjum af síminnkandi athafnasvæði hafnarinnar á Patreksfirði og velt upp hugmyndum að nýtingu hafnarsvæðisins.
Skipulags- og umhverfisráð þakkar Strandveiðifélaginu Krók fyrir að vekja athygli á málinu. Ráðið tekur undir áhyggjur bréfritara varðandi takmarkað og síminnkandi athafnasvæði hafnarinnar.
Svæðið neðan við Mýrarnar er skipulagt sem íbúðasvæði í gildandi Aðalskipulagi. Unnið er að deiliskipulagi svæðisins, í því ferli gefst kostur á að gera athugasemdir með formlegum hætti.
Ráðið vísar málinu áfram til umfjöllunar hjá Hafna- og atvinnumálaráði.
3. Sigtún 5. Umsókn um stöðuleyfi.
Erindi frá Lilju Sigurðardóttur og Sigurði Viggóssyni, dags. 17. maí 2023. Í erindinu er sótt um stöðuleyfi fyrir 20feta geymslugám við Sigtún 5 á Patreksfirði. Gámurinn er ætlaður sem aðstaða í tengslum við framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á húsinu og bílskúr að Sigtúni 5.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir veitingu stöðuleyfis til 12 mánaða.
4. Engjar 2 og 3. Umsókn um samþykki byggingaráforma.
Erindi frá Unnsteini L. Jenssyni, dags. 31. maí 2023. Í erindinu er sótt um sameiningu lóða og samþykki byggingaráforma vegna byggingar iðnaðarhúss á lóðinni að Engjum 2, Patreksfirði. Húsið sem áður stóð á Engjum 2 var orðið ónýtt og hefur verið rifið og fyrirhugað er að rífa húsið á Engjum 3 síðar. Sótt er um sameiningu lóðanna að Engjum 2 og 3 og um leyfi til að byggja 78,9m2 hús á lóðinni. Seinna stendur svo til að sækja um stækkun á húsinu yfir á þann hluta sem áður tilheyrði Engjum 3. Áður stóð 50m2 hús á lóðinni. Erindinu fylgja aðaluppdrættir unnir af Guðbjarti Á. Ólafssyni, dags. 7. maí 2023.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir sameingu lóðanna og áformin með fyrirvara um grenndarkynningu. Grenndarkynna skal áformin fyrir eigendum Engja 1 og 4.
5. Hagi II. Umsókn um samþykki byggingaráforma - gistihús
Erindi frá Haraldi Bjarnasyni dags. 7. maí 2023. Í erindinu er sótt um samþykki byggingaráforma vegna 29,9m2 gestahúss á lóð Haga II, Barðaströnd. Erindinu fylgja aðaluppdrættir, unnir af Rerum ehf, dags. 4. maí 2023.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir áformin og telur ekki vera þörf á grenndarkynningu þar sem þau varða ekki hagsmuni annarra en lóðarhafa og sveitarfélagsins sjálfs.
6. Aðalstræti 19, Patreksfirði - fyrirspurn
Rebekka Hilmarsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Tekið fyrir eftir grenndarkynningu óveruleg breyting á deiliskipulagi íbúabyggðar og ofanflóðavarnargarða Urðir-Mýrar, Athugasemdafrestur var til og með 14. júní. Fyrir liggur athugasemd sem barst með tölvupósti dagsettum 13. júní 2023. Gerð er athugasemd við stærð og hæð hússins, hvar bílastæði eiga að vera og hvernig áformin samræmast tillögu um verndarsvæði í byggð.
Að mati skipulags- og umhverfisráðs þá er hæð hússins í samræmi við hæð annarra húsa í húsaröðinni eins og sjá má í kynningargögnum. Grunnflötur húss stækkar um 12 m2 miðað við gildandi deiliskipulag og er því óveruleg stækkun. Gert er ráð fyrir að það nægi að vera með fjögur bílastæði fyrir húsið í heild sinni. Eitt á hverja íbúð á neðri hæð sem eru ca 50 m2 að stærð hver og tvö fyrir íbúð á efri hæð. Meðfram Aðalstræti eru 14 bílastæði sem hægt er að samnýta með öðrum húsum í húsaröðinni en einnig er mögulegt að koma fyrir 4-6 bílastæðum innan lóðar án vandkvæða. Skipulags- og umhverfisráð telur að útlit húss samræmist vel áformum um verndarsvæði í byggð enda húsið byggt í svipuðum stíl og passar vel inn í götumyndina.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að svara þeim er gerðu athugasemd og að tillagan fái málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Rebekka Hilmarsdóttir kom aftur inn á fundinn.
7. Göngustígur í Selárdal
Fyrir liggur óveruleg breyting á deiliskipulagi Selárdals. Breytingin gengur út að gert er ráð fyrir stíg sem liggja mun frá Brautarholti niður í fjöru.
Skipulags- og umhverfisráð heimilar að farið verði af stað í óverulega breytingu á deiliskipulaginu sem verði grenndarkynnt fyrir húseigendum í Selárdal og breytingin verði send Minjastofnun til umsagnar og óskað samþykkis landeiganda.
8. Bíldudalshöfn. Nýtt vogarhús.
Erindi frá M11 arkitektum f.h. hafnasjóðs Vesturbyggðar dags. 12.maí 2023. Í erindinu er sótt um samþykki byggingaráforma fyrir nýju vogarhúsi á Bíldudalshöfn. Erindinu fylgja aðaluppdrættir dags. 12. maí 2023.
Samkvæmt áformunum er áætlað að byggja 31,2 m2 vogarhús úr timbri ofan á staðsteypt þjónustuhús á Bíldudalshöfn.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir áformin og telur ekki vera þörf á grenndarkynningu þar sem þau varða ekki hagsmuni annarra en lóðarhafa og sveitarfélagsins sjálfs.
9. Hagabúð. umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir tengiveg.
Fyrir liggur umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum aðkomuvegi að Hagabúð. Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir legu vegarins ásamt samþykki landeiganda Haga og Breiðalækjar. Fyrir liggur einnig samþykki Vegagerðarinnar.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 11. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
10. Bíldudalur. Loftgæðamælar - ÍsKalk
Lagður fram tölvupóstur frá Íslenska Kalkþörungafélaginu, dags. 2.júní 2023. Í tölvupóstinum er óskað eftir samþykki fyrir staðsetningu á 3 ryk- og loftgæðamælum á Bíldudal.
Hlutverk mælanna er að mæla annars vegar rykmengun þar sem uppsprettur eru áætlaðar vera umferðarryk, ryk frá opnum svæðum og kalkryk. Hins vegar verður sótryk(nox) eða sótmengun mæld. Rykið verður greint út frá því hvað er kalkryk og hvað er annað ryk eins og frá umferð.
Áætlað er að setja mælana upp núna í júní og þeir muni standa fram í október 2023.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir staðsetningar á mælunum, þeir eru allir staðsettir innan bæjarlands. Endanleg staðsetning skal ákveðin í samráði við starfsmann áhaldahússins á Bíldudal.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:15