Fundur haldinn í Aðalstræti 63, Patreksfirði, 6. mars 2018 og hófst hann kl. 09:00
Fundargerð ritaði
- Þórir Sveinsson skrifstofustjóri
Almenn erindi
1. Lagning ljósleiðara á Barðaströnd - Ísland ljóstengt
Lagt fram kostnaðaryfirlit við að leggja ljósleiðara á Barðaströnd. Gerður B. Sveinsdóttir, verkefnastjóri samfélagsuppbyggingar sat fundinn undir þessum lið dagskrár.
Bæjarráð samþykkir að bjóða styrkhæfum stöðum skv. skilgreiningu Fjarskiptasjóðs að greiða 250.000 kr. tengigjald, en eigendum sumarhúsa og öðrum eigendum fasteigna, sem ekki falla undir skilgreiningu Fjarskiptasjóðs um styrkhæfa staði, að tengjast ljósleiðarakerfinu og greiða 250.000 kr. tengigjald auk raunkostnaðar á hvern metra heimtaugar.
Bæjarráð felur verkefnastjóra samfélagsuppbyggingar að vinna áfram að verkefninu.
2. Fræðslumál á Barðaströnd
Rætt um skólamál á Birkimel og fyrirkomulag aksturs leik- og grunnskólabarna frá Barðaströnd til Patreksfjarðar.
Bæjarráð óskar eftir fundi með fulltrúum fræðslu- og æskulýðsráðs og felur verkefnastjóra samfélagsuppbyggingar að skoða fyrirkomulag á akstri leik- og grunnskólabarna frá Barðaströnd til Patreksfjarðar á næsta skólaári, þ.e. 2018-2019.
3. Opnunartími íþróttamiðstöðvarinnar Bröttuhlíðar.
Rætt um opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar Bröttuhlíðar um helgar á vetrum. Geir Gestsson forstm. Bröttuhlíðar sat fundinn undir þessum lið dagskrár.
Bæjarráð samþykkir aukinn opnunartíma íþróttamiðstöðva í Vesturbyggð á sunnudögum frá kl. 10:00 til 15:00. Aukinn opnunartími verði til reynslu til sumaropnunar 15. maí nk. og verður endurmetinn að loknu reynslutímabili.
Kostnaði er vísað til gerðar viðauka við fjárhagsáætlun 2018.
4. Samgöngumál
Rætt um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum í kjölfarið á ástandi vega í Gufudalssveit sl. vikna.
Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega seinagangi á framkvæmdum við vegagerð á Vestfjörðum sl. áratugi. Staðan á vegagerð í Gufudalssveit er með öllu fordæmalaus. Saga vegalagningar á þessu svæði er löng. Árið 2006 hafnaði Skipulagsstofnun með úrskurði að vegur yrði lagður um Teigsskóg. Sá úrskurður var kærður til umhverfisráðherra sem sneri við úrskurðinum með vísan í aukið umferðaröryggi. Úrskurður ráðherra var kærður til dómstóla. Héraðsdómur ógilti úrskurðinn, og í október 2009 ógilti Hæstiréttur úrskurð ráðherra á þeim forsendum (alls ólíkum forsendum Héraðsdóms) að ekki mætti taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum. Síðastliðin 12 ár hafa því verið ein samfelld sorgarsaga í vegagerð í Gufudalssveit og stjórnvöld sýnt fullkomið úrræða- og bjargaleysi í þessum málum.
Og nú eru líkur á að vegagerð um Dynjandisheiði verði sama sorgarsagan. Engin fjármögnun liggur fyrir á vegagerðinni og stefnir í að vegurinn um Dýrafjarðargöng verði dýrasti botnlangi sögunnar.
Það er ljóst að Vestfirðingar hafa verið sviknir um vegagerð ítrekað. Einstakir sumarbústaðaeigendur hafa því miður stýrt för og hafa árstíðabundnir hagsmunir þeirra verið látnir ganga framar hagsmunum fólks sem býr á svæðinu.
Bæjarráð Vesturbyggðar hvetur Alþingismenn til dáða og sýna vilja í verki með aðgerðum og lúkningu vegagerðar á Vestfjörðum.
5. Árshátíð fyrirtækja í Vesturbyggð - umsókn um styrk.
Lagt fram tölvubréf dags. 22. febrúar sl. frá Erlu Maren Gísladóttur með beiðni um styrk í formi niðurfellingar húsaleigu í húsnæði félagsheimilisins á Patreksfirði vegna árshátíðar fyrirtækja í Vesturbyggð sem haldið verður 24. mars nk.
Bæjarráð óskar eftir frekari upplýsingum og felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.
6. Slysavarnadeildin Gyða Bíldudal - umsókn um styrk.
Lagt fram bréf dags. 21. febrúar sl. frá Slysavarnardeildinni Gyðu, Bíldudal með beiðni um styrk í formi niðurfellingar húsaleigu í húsnæði félagsheimilisins á Bíldudal vegna þorrablótshalds félagsins sem haldið var 3. febrúar sl.
Bæjarráð samþykkir erindið og bókist styrkurinn á bókhaldslykilinn 05089-9990.
7. Patreksskóli - styrkbeiðni vegna ferðar til Póllands.
Lagt fram bréf dags. 21. febrúar sl. frá Gústaf Gústafssyni, skólastjóra með beiðni um 150.000 kr. styrk vegna ferðar starfsmanna Patreksskóla til Póllands 3. júní nk.
Bæjarráð samþykkir erindið og bókist styrkurinn á bókhaldslykilinn 04089-9990.
8. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið - viðaukasamningur um rekstur náttúrustofu.
Lagt fram bréf dags. 21. desember sl. ásamt fylgiskjali frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vegna framlengingar á viðauka út árið 2018 á samningi milli ráðuneytisins og aðildarsveitarfélaga Náttúrustofu Vestfjarða um rekstur stofunnnar.
Bæjarrráð samþykkir erindið og felur bæjarstjóra að undirrita samninginn.
Til kynningar
10. Heilbrigðinefnd Vestfjarða - fundargerð fundar nr. 116.
Lögð fram fundargerð 116. fundar stjórnar Heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 26. febrúar sl.
Lagt fram til kynningar.
11. Atvinnuveganefnd Alþingis - tillaga til þingsályktunar um mótun eigandastefnu ríkisins fyrir bújarðir.
Lagt fram tölvubréf dags. 16. febrúar sl. frá nefndarsviði Alþingis með beiðni um umsögn um þingsályktunartillögu um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir, 52. mál.
Lagt fram til kynningar.
12. Nefndarsvið Alþingis - frumvarp til sveitarstjórnarlaga (fjöldi fulltrua í sveitarstjórn).
Lagt fram tölvubréf dags. 28. febrúar sl. frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis með beiðni um umsögn um frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 190. mál.
Lagt fram til kynningar.
13. Nefndarsvið Alþingis - tillaga stjórnalda um uppbyggingu á flutningskerfi raforku.
Lagt fram tölvubréf dags. 26. febrúar sl. frá atvinnuveganefnd Alþingis með beiðni um umsögn um þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 179. mál.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:25