Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í Ráðhúsi Vesturbyggðar, 20. ágúst 2019 og hófst hann kl. 09:00
Fundinn sátu
- Ásgeir Sveinsson (ÁS) aðalmaður
- Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslu
- Iða Marsibil Jónsdóttir (IMJ) aðalmaður
- Rebekka Hilmarsdóttir (RH) bæjarstjóri
- Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) formaður
Fundargerð ritaði
- Gerður Björk Sveinsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Almenn erindi
1. Fjallskil - kostnaður
Tekin fyrir tillaga fjallskilanefndar Vesturbyggðar og Tálknafjarðar þess efnis að heimilt verði að leggja allt að 2% á landverð allra jarða í Vesturbyggð og Tálknafjarðahrepp, þar með talið eyðijarðir, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda miðað við gildandi fasteignamat á hverjum tíma, í samræmi við fjallskilasamþykkt fyrir Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslur nr. 716/2012, sem innheimt verði samhliða fasteignagjöldum 2020. Þa leggur nefndin einnig til að á árinu 2020 verði lagt á fjallskilaskylt búfé í sveitarfélögunum gjald sem nemur 300 kr. á hverja sauðkind skv. skráningu Matvælastofnunar sem renna skal í fjallskilasjóð.
Bæjarráð vísar afgreiðslu máls til bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
2. Milliþingnefnd - tillögur að breytingum á samþykktum og þingsköpum FV
Lagðar fyrir tillögur milliþinganefndar Fjórðungsþings Vestfirðinga um breytingar á samþykktum og þingsköpum Fjórðungssambands Vestfirðinga.
Umsgnafrestur til 10. september 2019.
Bæjarstjóra falið að vinna umsögn á grundvelli umræðna á fundinum, afgreiðslu máls vísað til bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
3. Reglur um Frístund
Lagðar fyrir breyttar reglur um frístund í Vesturbyggð. Helstu breytingar reglnanna taka til þess að nemendur hafa val um fjölda daga en þó aldrei færri en 2 daga í viku.
Bæjarráð staðfestir reglurnar og felur bæjarstjóra að ganga frá birtingu þeirra.
4. Ósk eftir landi í Mikladal
Tekið fyrir erindi frá Gísla Rúnari Kristinssyni f.h. Motowest dags. 26. júlí 2019, þar sem óskað er eftir landi í Mikladal undir krossbraut. Áhugi á mótorsporti á sunnanverðum Vestfjörðum hefur farið vaxandi síðastliðin ár og myndi krossbraut auka forvarnargildi hjá unglingum, stuðla að hreyfingu og koma í veg fyrir utanvegar akstur.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og þakkar fyrir framtakið að auka framboð í tómstundum og vísar því til umfjöllunar í skipulags- og umhverfisráði.
5. Umhverfisgöngur Vesturbyggðar 2019
Bæjarstjóri mun fara yfir hugmyndir um umhverfisgöngur sem lagt er til að haldnar verði á næstu vikum og verða þær hluti af undirbúningi fyrir fjárhagsáætlun 2020. Tilgangur umhverfisgöngu er að efna til samtals við íbúa á Bíldudal og Patreksfirði um sitt nánasta umhverfi, hvað megi betur fara í frágangi og umhirðu í þorpunum, auk þess að miðla upplýsingum frá Vesturbyggð um framkvæmdir framundan.
Göngurnar verða auglýstar á heimasíðu Vesturbyggðar.
6. Barngildi í leikskólum Vesturbyggðar
Teknar fyrir tillögur leikskólastjóra Arakletts um viðmið um barnagildi á hvern starfsmann og viðmið um leikrými í leikskólum Vesturbyggðar. Fræðslu- og æskulýðsráð samþykkti á 55. fundi sínum, 14. ágúst 2019 samhljóða viðmið um hámarksfjölda barna á hvern starfsmann með eftirfarandi hætti; Börn 1-2 ára: 3-4 börn á hvern starfsmann, börn 2-3 ára: 4-5 börn á starfsmann, börn 3-4 ára: 5-6 börn á starfsmann, börn 4-5 ára: 6-7 börn á starfsmann og börn 5-6 ár: 7-8 börn á starfsmann.
Bæjarráð frestar afgreiðslu máls.
7. Leikskóli á Patreksfirði - Húsnæðismál
Tekin fyrir tillaga fræðslu- og æskulýðsráðs þar sem lagt er til að viðmið um leikrými per barn verði 3,5m2 í leikskólum í Vesturbyggð. Viðmið fari aldrei niður fyrir 3,2m2 per barn. Viðmið geti því verið breytileg á bilinu 3,2-3,5 m2. Fræðslu- og æskulýðsráð leggur einnig til að frá og með haustinu 2020 verði stefnt að taka inn börn frá 12 mánaða aldri. Reglum um leikskóla Vesturbyggðar verði breytt og 1. gr tilgreini að lækka viðmiðuraldur úr 14 mánuðum í 12 mánuði. Inntaka barna frá 12 mánaða aldri yrði háð því að lágmarksleikrými sé á bilinu 3,2 -3,5m2 per barn og aðeins ef húsrúm leyfir. Fræðslu- og æskulýðsráð leggur til að breyting þessi verði höfð til grundvallar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2020. Jafnframt skuli við gerð fjárhagsáætlunar leitað leiða til að að bæta enn frekar starfsmannaaðstöðu og undirbúningsrými og þannig reynt að minnka álag á starfsfólk og bæta starfsumhverfi þeirra sem vinna með börnum.
Bæjarráð frestar afgreiðslu máls.
8. Skóladagatöl 2019-2020
Tekin fyrir beiðni leikskólastjóra um breytingar á skóladagatali fyrir leikskóla í Vesturbyggð, þar sem óskað er að leikskólar Vesturbyggðar og 5 ára deild Patreksskóla verði lokuð á milli jóla og nýárs, þ.e. dagana 27. og 30. desember 2019. Fræðslu- og æskulýðsráð samþykkti beiðnina samhljóða á 55. fundi sínum og vísaði málinu til bæjarráðs.
Bæjarráð samþykkir bókun fræðsluráðs og felur skólastjórnendum að auglýsa lokunina.
9. Umsókn um skólavist í tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags
Lögð fram umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags skólaárið 2019-2020. Bæjarráð samþykkir umsóknina og felur sviðsstjóra fjölskyldusviðs að ganga frá afgreiðslu beiðninnar.
10. Starfsmannadagur Vesturbyggðar 2019
11. Skýrsla bæjarstjóra
Bæjarstjóri fór yfir helstu verkefni síðustu vikna og þau verkefni sem framundan eru. Bæjarstjóri fór sérstaklega yfir auknar áherslur á betri upplýsingagjöf til íbúa og hvatningu til íbúa að hafa meira samband við sveitarfélagið. Þá mun bæjarstjóri hafa fasta viðveru einu sinni í viku á Bíldudal frá september 2019.
Til kynningar
12. Fjallskil 2019
13. Fundargerð stjórnar 29.06.2019 - Félag skógarbænda á Vestfjörðum
14. Fundargerðir stjórnar Vestfjarðastofu 2019
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:09
Ásgeir Sveinsson kom inná fundinn klukkan 10:00