Fundur haldinn í símafundi, 18. maí 2020 og hófst hann kl. 16:00
Nefndarmenn
- Guðrún A. Finnbogadóttir (GAF) aðalmaður
- Jörundur Garðarsson (JG) aðalmaður
- Magnús Jónsson (MJ) aðalmaður
- Valdimar Bernódus Ottósson (VBO) varamaður
- Valgerður Ingvadóttir (VI) aðalmaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) hafnarstjóri
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson hafnarstjóri
Almenn mál
1. Kynning á langtímaáformum Arctic Fish ehf.
Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir fulltrúar í bæjarráði Vesturbyggðar komu inn á fundinn.
Forsvarsmenn Arctic Fish ehf, Stein Ove Tveiten framkvæmdastjóri og Neil Shiran Þórisson fjármálastjóri komu inn á fundinn og kynntu langtímaáform fyrirtækisins.
Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir véku af fundi.
2. Strandgata 10-12. Umsókn um byggingarleyfi, vatnshreinsistöð.
Tekið fyrir eftir auglýsingu breyting á deiliskipulagi Bíludalshafnar, aukið nýtingarhlutfall. Erindi vísað til hafna- og atvinnumálaráðs frá 72. fundi skipulags- og umhverfisráðs.
Breytingartillagan var grenndarkynnt fyrir nærliggjandi lóðarhöfum með athugasemdafrest til 28. apríl 2020, þ.e. Íslenska kalkþörungafélaginu, Skrímslasetrinu og sóknarnefnd Bíldudalssóknar. Athugasemd barst frá Skrímslasetrinu og frá Íslenska Kalkþörungafélaginu. Athugasemdir leiddu ekki til efnislegra breytinga á tillögunni en þess verður gætt við uppsetningu að samráð verði haft við nærliggjandi lóðarhafa um bestu mögulega útfærslu.
Hafna- og atvinnumálaráð tekur undir athugasemdir Skrímslaseturs varðandi frágang og mögulega lyktarmengun. Eins þarf að tryggja að lekavarnir og þró séu fullnægjandi svo ekki sé hætta á að meltan berist yfir á nærliggjandi svæði verði óhapp í stöðinni. Ennfremur ítrekar ráðið áherslu á að góð umgengni verði höfð að leiðarljósi á athafnasvæði stöðvarinnar.
Hafna- og atvinnumálaráð samþykkir að tillagan fái málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
3. Lagaleg afstaða Arnarlax til Innheimtu aflagjalda vegna ársins 2020
Valdimar B. Ottósson vék af fundi.
Lagt fram til kynningar erindi frá Arnarlax hf. dags. 6. maí 2020. Í erindinu eru raktar túlkanir fyrirtækisins á Hafnarlögum nr. 61/2003 og gjaldskrá Hafnasjóðs Vesturbyggðar m.t.t. gjaldtöku hafna- og aflagjalda. Arnarlax krefst upplýsinga frá hafnarstjórn um kostnað sem almennt hlýst af því að veita viðkomandi þjónustu til Arnarlax og eðlilega sundurliðun gjalda, krafan er byggð á 2. mgr. 20. Hafnalaga nr. 61/2003.
Þá ítrekar Arnarlax kröfu sína um viðræður aðila um sanngjarna gjaldtöku Vesturbyggðar á gjöldum samkvæmt Hafnalögum sem hefur það markmið að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt sameiginlegum kostnaði.
Í niðurlagi erindisins tekur forstjóri Arnarlax fram að Arnarlax telji sér ekki skylt lögum samkvæmt að greiða þegar útgefinn reikning Hafnarsjóðs Vesturbyggðar fyrir árið 2020.
Hafnarstjóri upplýsti að fyrra erindi fyrirtækisins varðandi ósk um kostnað sem hlýst af þjónustu við fyrirtækið var svarað með bréfi dags. 24. janúar 2020. Þá hefur Hafnarstjóri óskað eftir kynningu frá Arnarlaxi um langtímaáform fyrirtækisins líkt og hafna- og atvinnumálaráð fór fram á á 17. fundi sínum þann 19. mars s.l. Forsvarsmenn Arnarlax áforma að kynna langtímaáform sín á fundi í júní fyrir hafna- og atvinnumálaráði og bæjarráði.
Hafna- og atvinnumálaráð felur Hafnarstjóra og Bæjarstjóra að vinna að málinu áfram.
Valdimar B. Ottósson kom aftur inn á fundinn.
4. Gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum
Erindi frá Skipulagsstofnun dags. 8. maí 2020. Í erindinu er lögð fram til kynningar lýsing fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum, ennfremur er óskað eftir ábendingum um nálgun og efnistök í skipulagsvinnunni, frestur til að gera athugasemdir er til 1. júní 2020.
Hafna- og atvinnumálaráð tekur undir bókun skipulags- og umhverfisráð frá 72. fundi ráðsins sem haldinn var 14. maí 2020. Hafna- og atvinnumálaráð fagnar því að farin sé af stað löngu tímabær vinna við gerð strandsvæðaskipulags og þess samráðs sem fyrirhugað er við vinnslu þess. Mjög mikilvægt er að sveitarfélög hafi eitthvað um landnotkun utan netlaga að segja þar sem umsvif á strandsvæðum hafa aukist til muna á síðustu árum s.s. vegna fiskeldis, ræktunar, ferðaþjónustu og efnistöku.
5. Bláfáni 2020
Lagt fram erindi Vottunarstofunnar Túns dags. 15. maí 2020, en Tún tók nýlega við málefnum Bláfánans á Íslandi. Í erindinu er tilkynnt um að úttektir á umsóknargögnum Vesturbyggðar fyrir hafnirnar Patrekshöfn og Bíldudalshöfn er lokið og hefur alþjóðleg vottunarnefnd Blue Flag (Bláfánans) fjallað um niðurstöður þeirra. Ákveðið hefur verið að veita höfnunum báðum Bláfánann árið 2020.
Hafna- og atvinnumálaráð fagnar þessari viðurkenningu.
6. Umsókn um stöðuleyfi fyrir búnað tengdan meltuvinnslu
Erindi frá Arctic Protein, dags. 15. maí 2020. Í erindinu er sótt um stöðuleyfi fyrir tímabundinn búnað tengdan meltuvinnslu við húsnæði Arnarlax á Patrekshöfn. Búnaðurinn samanstendur af einum 4m3 tanki með áfastri kvörn og öðrum 8m3 tanki sem notaður er til blöndunar og maurasýru bætt við, en fyrirhugað er að geyma hana í húsnæði Arnarlax. Erindinu fylgir lýsing á verkefninu ásamt loftmynd unnin af M11 teiknistofu er sýnir fyrirhugaða staðsetningu. Einnig fylgir samþykki Arnarlax fyrir staðsetningu búnaðarins.
Hafna- og atvinnumálaráð hafnar umsókninni á grundvelli þess að umrætt svæði henti ekki undir umræddan búnað þar sem erfitt yrði að halda því hreinu, ekkert niðurfall er á planinu.
7. Þórsgata 7. Umsókn um stöðuleyfi fyrir geymslugám.
Erindi frá Vesturbyggð, dags. 13. maí 2020. Í erindinu er sótt um stöðuleyfi fyrir 40ft. gám á lóð bakvið áhaldahús Vesturbyggðar á Patreksfirði að Þórsgötu 7. Gámurinn er ætlaður undir geymslu smáhluta tengda áhaldahúsinu.
Hafna- og atvinnumálaráð samþykkir veitingu stöðuleyfis til 12 mánaða og hvetur umsækjanda að huga að varanlegri lausn fyrir geymslu.
8. Umgengnismál Hafnarsvæðum.
Hafnarstjóri fór yfir umgengnismál á hafnarsvæðunum.
Hafna- og atvinnumálaráð felur hafnastjóra að láta staðsetja ruslagáma á hafnarsvæðunum á Patreksfirði og Bíldudal og þar sem notendur hafnarinnar geta fargað lausamunum og öðru drasli sem legið hefur á hafnarsvæðunum sér að kostnaðarlausu.
9. Tillögur um eflingu atvinnu í Vesturbyggð - Strandveiðifélagið Krókur
Lagt fram erindi frá strandveiðifélaginu Króki dags. 2. maí 2020 þar sem skorað er á bæjarráð að sækja um sérstaka úthlutun byggðakvóta vegna ástandsins sem nú ríkir. Því til stuðnings er vísað til skýrslu um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda frá starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta frá febrúar 2020. Erindinu var vísað til hafna- og atvinnumálaráðs frá 895. fundi bæjarráðs sem haldinn var 12. maí 2020.
Hafna- og atvinnumálaráð tekur undir bókun bæjarráðs og þakkar strandveiðifélaginu Króki fyrir tillöguna og mun taka hana til skoðunar þegar fyrir liggur hvernig unnið verður úr tillögum starfshópsins.
Hafna- og atvinnumálaráð leggur til að sveitarfélagið beiti sé fyrir því að þau 1000 tonn sem tekin voru úr strandveiðikerfinu verði aftur sett í kerfið í ár.
Mál til kynningar
10. Flutningur á kvíum frá Hringsdal til Steinanes
Lagt fram til kynningar tilkynning frá Arnarlax hf. dags. 27. apríl 2020. Í bréfinu er tilkynnt um fyrirhugaðan flutning Arnarlax á eldiskvíum frá Hringsdal til Steinaness í Arnarfirði. Kvíarnar eru merktar með AIS og verða þær þrifnar og sótthreinsaðar áður en þær verða færðar á nýjan stað.
11. Mælingar í Patreksfirði og Arnarfirði
Lagt fram til kynningar tilkynning frá Arnarlax hf. dags. 14. maí 2020. Í bréfinu er tilkynnt um mælitæki sem fyrirtækið er að setja út í Patreksfirði og Arnarfirði og mæla eiga dreifstraum vegna eldisstarfsemi. Umfang á yfirborði er svipað og um veiðarfæri(línu, net) væri að ræða. Staðsetning á búnaðinum er á eða í námunda við eldissvæði Arnarlax. Í Patreksfirði er mælt á svæði sem er utan við eldissvæði Fjarðalax eða við Vatneyri norðanmegin í firðinum. Gert er ráð fyrir að mælingum ljúki eftir um 30 daga eða um miðjan júní.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:05