Fundur haldinn í Aðalstræti 63, Patreksfirði, 21. nóvember 2017 og hófst hann kl. 09:00
Fundargerð ritaði
- Þórir Sveinsson skrifstofustjóri
Almenn erindi
1. Rekstur og fjárhagsstaða 2017.
Lagt fram yfirlit rekstrar fyrstu níu mánuði ársins, janúar - september 2017. Afgangur frá rekstri er 32,7 millj.kr. borið saman við 21,4 millj.kr. afgang á sama tímabili 2016. Fjárfestingar voru 216,4 millj.kr. á tímabilinu borið saman við 214,8 millj.kr. á sama tímabili 2016.
Lagt fram til kynningar.
Lagt fram drög ásamt fylgiskjölum að reglum um menningarstyrki Vesturbyggðar til greiðslu á álögðum fasteignagjöldum.
Bæjarráð samþykkir reglurnar með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar þeim til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Lagt fram drög að reglum um útleigu íbúða í eigu Vesturbyggðar og Fasteigna Vesturbyggðar ehf.
Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins.
2. Ráðning forstöðumanns þjónustumiðstöðvarinnar á Patreksfirði.
Lagðar fram umsóknir um stöðu forstöðumanns þjónustumiðstöðvarinnar á Patreksfirði. Elfar St. Karlsson, forstm. tæknideildar sat fundinn undir þessum lið dagskrár. Alls sóttu fjórir um stöðuna. Bæjarstjóri og forstöðumaður tæknideildar leggja til að Siggeiri Guðnasyni verði boðin staða forstöðumanns þjónustumiðstöðvarinnar á Patreksfirði og að núverandi forstöðumaður verði starfsmaður veitna Vesturbyggðar.
Bæjarráð fellst á tillögur bæjarstjóra og forstöðumanns tæknideildar og felur bæjarstjóra að ganga frá ráðningunum.
3. Lionsklúbbur Patreksfjarðar - samstarfssamningur um Skjaldborgarbíó.
Lagt fram drög að gjafabréfi fyrir kvikmyndasýningarkerfi Skjaldborgarbíós ásamt drögum að samstarfssamningi Lionsklúbbs Patreksfjarðar og Vesturbyggðar.
Bæjarráð Vesturbyggð þakkar Lionsklúbbi Patreksfjarðar fyrir höfðinglega gjöf á kvikmyndasýningarkerfi Skjaldborgarbíós og felur bæjarstjóra að ganga frá samstarfssamningi aðila. Halldór Traustason lét bóka að hann hafi vikið af fundi við afgreiðslu málsins vegna tengsla við aðila máls þar sem hann gegnir formennsku bíónefndar Lionsklúbbs Patreksfjarðar.
4. Ævar Guðmundsson - framkvæmdir á kambinum Bíldudal.
Lagt fram bréf dags. 8. nóvember sl. frá Ævari Guðmundssyni eiganda íbúðarhúsnæðisins við Hafnarbraut 14, Bíldudal þar sem hann mótmælir fyrirhugaðri staðsetningu á sorpflokkunarstöð á kambinum fyrir framan húsnæði hans á Bíldudal.
Bæjarráð vísar erindinu til skipulags- og umhverfisráðs.
5. Íbúar á Björgum Patreksfirði - umferðaröryggismál.
Lagður fram undirskriftarlisti 28 íbúa á Björgum, Patreksfirði dags. í nóvember 2017 þar sem óskað er úrbóta á umferðaröryggi við Björgin vegna slysahættu á íbúagötunni sem og á og við þjóðveginn við annars enda götunnar.
Bæjarráð ítrekar fyrri samþykktir sínar varðandi endurbætur á svæðinu, felur forstöðumanni tæknideildar að vinna að úrbótum án tafar, og vísar erindinu að öðru leyti til fjárhagsáætlunargerðar ársins 2018.
6. Elva Björg Einarsdótir - Seftjörn, umsögn um landakaup.
Lagt fram bréf dags. 18. nóvember sl. frá Elvu Björgu Einarsdóttur með ósk um umsögn vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á jörðinni Seftjörn Barðaströnd til ábúanda, sbr. jarðalög nr. 81/2004.
Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins og óskar eftir nánari upplýsingum.
7. Umhverfis- og auðlindarráðuneyti - samningur við Náttúrustofu Vestfjarða.
Lagt fram bréf dags. 14. nóvember sl. frá umhverfis- og auðlindarráðuneytinu með ósk um framlengingu um eitt ár á samningi aðildarsveitarfélaga Náttúrustofu Vestfjarða og ráðuneytisins.
Bæjarráð Vesturbyggðar staðfestir framlengingu um eitt ár á samningi sveitarfélagsins og umhverfis- og auðlindarráðuneytisins um Náttúrustofu Vestfjarða.
Bæjarráð Vesturbyggðar vísar einnig til bókunar á 816. fundi ráðsins þann 27. október sl. þar sem mótmælt var harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða, en í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í haust áður en Alþingi var slitið var lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna. Í bókun bæjarráðs var bent var á að þessi fyrirhugaða skerðing væri aðför að störfum háskólamenntaðra starfsmanna á landsbyggðinni og væri algjörlega á skjön við þá stefnu sem boðuð var í Vestfjarðaskýrslunni. Ennfremur að niðurskurðurinn komi sérstaklega hart niður á sunnanverðum Vestfjörðum sem muni hafa áhrif á uppbyggingu stuðningsgreina við vaxandi fiskeldi í sjókvíum í landshlutanum.
8. Breiðafjarðarferjan Baldur - áætlun.
Samkvæmt upplýsingum frá Eimskip, rekstraraðila Breiðafjarðarferjunnar Baldurs, er ljóst að vegna alvarlegar bilunar í vélbúnaði skipsins má þess vænta að rekstrarstöðvun ferjunnar verði ekki undir fjórum vikum. Útlit er fyrir að ekki verði leigð önnur ferja til að leysa Baldur af á meðan skipið er úr þjónustu.
Bæjarráð bendir á að á vetrum er Breiðafjarðarferjan Baldur lífæð samgangna fyrir sunnanverða Vestfirði. Bent er einnig á að umferð flutningabifreiða inn og útaf svæðinu er vikulega rúmlega 100 bílar auk annarra umferðar. Ljóst er, svo að ekki verði alvarleg röskun á samgöngum í landshlutanum með tilheyrandi tjóni og óþægindum fyrir fyrirtæki og íbúa, að auka verður verulega vetrarþjónustu á vegakerfi landshlutans.
Bæjarráð krefst þess að nú þegar verði snjómokstur og hálkuvörn á vegakerfi landshlutans aukin verulega og að séð verður til þess að vetrarþjónustan miðist við að vegir verði opnir til a.m.k. 24:00 dag hvern á meðan að rekstrarstöðvun Breiðafjarðarferjunnar varir.
Til kynningar
9. Samband ísl. sveitarfélaga - fundargerð stjórnar nr. 853.
Lögð fram fundargerð 853. stjórnarfundar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 27. október sl.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:50